Bankaráð

Bankaráð Landsbankans

Bankaráð hefur yfirumsjón með því að starfsemi bankans sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sem um fjármálastarfsemi gilda. Bankaráð mótar almenna stefnu bankans og skal annast um að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi.

Bankaráð skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri bankans og gæta þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna bankans.

Meginhlutverk og skyldur bankaráðs

Bankaráð ber meginábyrgð á rekstri bankans þar sem það fer með æðsta vald í málefnum bankans á milli hluthafafunda. Bankaráð ber ábyrgð á starfsemi bankans, m.a. á að samþykkja og hafa eftirlit með innleiðingu á stefnumótun, áhættustefnu, stjórnarháttum og gildum. Bankaráð fylgist jafnframt með störfum bankastjóra.

Stærð og samsetning bankaráðs

Bankaráð skal vera þannig samsett að því sé kleift að sinna málefnum bankans af skilvirkni og heilindum. Bankaráðsmenn skulu á starfstíma sínum vera hæfir til að sinna starfa sínum. Þeir skulu hafa fullan skilning á hlutverki sínu að því er varðar stjórnskipulag bankans og vera færir um að leggja hlutlægt og skynsamlegt mat á þá starfsemi sem fram fer í bankanum.

Samstarf og markmiðasetning

Bankaráð skal leitast við að eiga reglulega umræður um hvernig það hyggst haga störfum sínum, hvar áherslur skuli liggja, hvaða samskipta og verklagsreglur skuli hafðar í heiðri og hver helstu markmiðin með starfi bankaráðs séu.

Óháðir bankaráðsmenn

Meirihluti bankaráðsmanna skal vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess. Að minnsta kosti tveir bankaráðsmenn skulu jafnframt vera óháðir stórum hluthöfum félagsins.

Innra eftirlit og áhættustýring

Bankaráð ber ábyrgð á því að koma á fót virku kerfi innra eftirlits. Í því felst m.a. að fyrirkomulag innra eftirlits sé formlegt, skjalfest og að virkni þess sé reglubundið sannreynd. Bankaráð og bankastjóri skulu taka mið af niðurstöðum Innri endurskoðunar, ytri endurskoðanda bankans, regluvarðar, Áhættustýringu og annarra deilda hans sem sjá um innra eftirlit.

Þar sem Landsbankinn er móðurfélag í samstæðu Landsbankans hf. ber bankaráð ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi stjórnarhætti á samstæðugrunni og enn fremur ábyrgð á því að tryggja viðhafðir séu stjórnarhætti í ljósi skipulags, starfsemi og áhættu samstæðunnar og einstakra félaga innan hennar.

Stefna um innra eftirlit Landsbankans

Starfsreglur bankaráðs

Bankaráð setur sér skriflegar starfsreglur þar sem fjallað er nánar um hlutverk og framkvæmd starfa bankaráðs. Bankaráð skilgreinir jafnframt viðeigandi leiðbeiningar um stjórnarhætti að því er varðar störf bankaráðs og sér til þess að þeim meginreglum sé fylgt og þær endurskoðaðar í því skyni að endurbæta þær.

Árangursmat bankaráðs

Bankaráð metur árlega störf sín, stærð, samsetningu, verklag og starfshætti, svo og frammistöðu bankastjóra og þróun bankans með tilliti til þess sem betur má fara.

Siðferði og samfélagsleg ábyrgð

Landsbankinn setur sér, stjórnendum og starfsmönnum skriflegar reglur um siðferði og samfélagslega ábyrgð bankans.

Samskipti við hluthafa

Samskipti bankaráðs við hluthafa eiga að einkennast af hreinskilni, vera skýr og samræmd.