Upplýsingastefna

Stefna landsbankans um birtingu upplýsinga

Markmið og gildissvið

Markmið stefnu Landsbankans (hér eftir nefndur „Landsbankinn“ eða „bankinn“) um birtingu upplýsinga er að upplýsa hagsmunaaðila um starfsemi bankans sem skráð félag á skipulegum verðbréfamarkaði . Landsbankinn vill tryggja að hagsmunaaðilar á hverjum tíma, fjárfestar, greiningaraðilar og aðrir hafi aðgang að nýjustu upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að geta tekið afstöðu til Landsbankans sem útgefanda og þeirra fjármálagerninga Landsbankans sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Stefna þessi er sett m.a. með hliðsjón af reglum Nasdaq OMX Iceland hf. (Kauphallarinnar) og viðmiðum Global Reporting Initative (GRI).1

Fjármálamarkaður

Landsbankinn skal gæta jafnræðis milli fjárfesta og kappkosta að birta án tafar allar áður óbirtar upplýsingar um ákvarðanir eða atvik sem hann vissi eða mátti vita að hefðu marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninga útgefinna af bankanum. Heimilt er að fresta birtingu upplýsinga í samræmi við lög og reglur er gilda um frestun innherjaupplýsinga.

Upplýsingar sem Landsbankinn birtir opinberlega skulu vera réttar, viðeigandi og skýrar og á engan hátt misvísandi. Upplýsingar um ákvarðanir, forsendur og aðstæður skulu vera nægilega ítarlegar til þess að hægt sé að meta áhrif þeirra á bankann, afkomu hans og fjárhagsstöðu, eða á verð fjármálagerninga útgefinna af bankanum.

Með birtingu upplýsinga samkvæmt stefnu þessari er átt við birtingu á vef bankans og í kauphöll, nema annað sé tekið fram. Upplýsingar skulu birtar á íslensku en vera þýddar samhliða yfir á ensku.

Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á vef bankans í að minnsta kosti þrjú ár frá birtingu. Fjárhagsupplýsingar skulu þó vera aðgengilegar í fimm ár, hið minnsta, frá birtingu þeirra.

Reglubundin upplýsingaskylda

Landsbankinn skal birta uppgjör sitt opinberlega eins og kveðið er á um í reglum kauphallar fyrir útgefendur fjármálagerninga.

 • Landsbankinn mun birta samþykktan ársreikning eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum reikningsárs.
 • Landsbankinn mun birta samþykkta árshlutareikninga eigi síðar en tveimur mánuðum frá lokum tímabils.
 • Allt kynningarefni tengt uppgjöri bankans (kynningar, einblöðungar og annað ítarefni) skal birta samhliða uppgjörum á vef bankans.
 • Landsbankinn mun birta ársskýrslu eigi síðar en á aðalfundi sem skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.
 • Landsbankinn birtir á vef sínum birtingardagatal þar sem fram kemur hvenær fyrirhugað er að birta árshlutareikninga, ársuppgjör og hvenær aðalfundur bankans er haldinn.
 • Landsbankinn mun tilkynna ef frávik verður frá birtingardagatali, eigi siðar en 15 dögum fyrir birtingu ársreiknings og sjö dögum fyrir birtingu árshlutareiknings.

Atviksbundin upplýsingaskylda

Landsbankinn byggir birtingu atviksbundinna upplýsinga á eftirfarandi viðmiðum:

 • Ávallt er tilkynnt sérstaklega um stefnumótandi ákvarðanir bankans sem kunna að hafa veruleg áhrif á rekstur hans og afkomu til framtíðar. Dæmi um slíkar ákvarðanir eru:
  • Grundvallar breyting á starfsemi bankans.
  • Sala mikilvægra rekstrareininga, sameining við eða yfirtaka á öðrum félögum.
  • Skráning eða afskráning fjármálagerninga.
 • Breyting á reikningsskilaaðferðum.
 • Tilkynnt er sérstaklega ef útlit er fyrir að afkoma á yfirstandandi ársfjórðungi hafa meira en 10% áhrif á eigið fé bankans miðað við stöðu eiginfjár í lok síðastliðins ársfjórðungs.
 • Birta skal tilkynningu um hluthafafundi og þær ákvarðanir sem samþykktar eru á hluthafafundum nema um minniháttar mál sé að ræða.
 • Ávallt er tilkynnt um það ef útlit er fyrir að bankinn fari niður fyrir lágmarkskröfur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall, í lok yfirstandandi ársfjórðungs.
 • Tilkynna skal um breytingar á bankaráði, stöðu bankastjóra, í framkvæmdastjórn eða á innri og ytri endurskoðendum.
 • Veita skal upplýsingar um viðskipti milli Landsbankans og nátengdra aðila sem ekki fara fram með venjulegum hætti eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um slík viðskipti hefur verið tekin, nema augljóst sé að um minni háttar viðskipti sé að ræða.
 • Tilkynna skal um allar ákvarðanir eða atvik sem varða réttindi eigenda fjármálagerninga útgefna af Landsbankanum, svo sem innköllun, innlausn fyrir gjalddaga, útdrátt, drátt á afborgunum höfuðstóls og / eða vaxta.
 • Tilkynna skal um allar meiriháttar breytingar sem gerðar eru á fjármögnun Landsbankans.

Samskipti við greiningaraðila

Landsbankinn stendur fyrir fundum fyrir fjölmiðla, greiningaraðila og fjárfesta sem gagngert eru til þess ætlaðir að kynna fjárhagslega afkomu. Taki Landsbankinn þátt í fundum með völdum greiningaraðilum, fjárfestum eða öðrum markaðsaðilum eða flytur erindi á fjármálaráðstefnum eða tekur þátt í umræðum eða símafundum þar sem fjárhagsleg afkoma og horfur í rekstri bankans eru til umræðu, þá er slík umræða eingöngu byggð á þegar birtum upplýsingum eða almennum upplýsingum.

Landsbankinn takmarkar athugasemdir og viðbrögð við greiningum á bankanum við eftirfarandi atriði:

 • Leiðréttingu sögulegra gagna.
 • Umræður um almenna þætti sem kunna að hafa áhrif á rekstur Landsbankans.
 • Öflun almennra upplýsinga um markaðsaðstæður.
 • Ábendingar um fyrirliggjandi upplýsingar sem öllum eru aðgengilegar.

Landsbankinn fjallar ekki opinberlega um fjárhagslega afkomu sína né horfur í rekstri þremur vikum fyrir birtingu árshluta- eða ársuppgjörs, né heldur svarar bankinn fyrirspurnum sem byggjast á sögusögnum eða óstaðfestum heimildum.

Áhættulýsing

Landsbankinn hefur sett sér stefnu um birtingu upplýsinga um áhættu bankans og áhættustýringu í samræmi við Basel reglurnar (Basel II - Pillar III).

Samskipti við fjölmiðla

Bankastjóri er talsmaður Landsbankans gagnvart fjölmiðlum en formaður bankaráðs kemur fram fyrir hönd bankaráðsins.

Aðrir starfsmenn skulu ekki tala fyrir hönd bankans eða tengja starfsheiti sitt við umræðu í fjölmiðlun nema hafa til þess sérstaka heimild bankastjóra.

Upplýsingafulltrúi hefur umsjón með samskiptum við fjölmiðla fyrir hönd Landsbankans. Starfsmenn Landsbankans skulu framsenda allar fyrirspurnir frá fjölmiðlum til upplýsingafulltrúa bankans eða til þeirra sem umboð hafa til að svara þeim eða fjalla um þær.

Gera skal upplýsingafulltrúa viðvart um mál sem telja má að geti haft í för með sér umfjöllun um Landsbankann.

Samfélagsleg ábyrgð

Í samræmi við viðmið og staðla GRI greinir Landsbankinn skilmerkilega og með reglubundnum hætti frá öðrum þáttum starfsemi sinnar en fjárhagslegum, með útgáfu skýrslu um samfélagsábyrgð. Skýrslan er aðgengileg á vef bankans.

Landsbankinn gerir árlega grein fyrir öðrum þeim mælikvörðum en fjárhagslegum sem eiga samkvæmt viðmiðum GRI, við um starfsemi hans. Upplýsingar þessar skulu birtar samhliða ársskýrslu bankans og vera aðgengilegar á vef hans.

Hafðu samband

Tengiliður um starfsemi og rekstur Landsbankans Rúnar Pálmason