Orðsporsáhætta

Stefna Landsbankans um orðsporsáhættu

1. Gildissvið og markmið

Landsbankinn hefur skýra stefnu til framtíðar að vera til fyrirmyndar og traustur samherji í fjármálum. Til að styðja við stefnu bankans og efla traust þá hefur bankinn sett sér stefnu þessa sem miðar að því að takmarka hættu á orðsporstjóni. Stefnan gildir fyrir alla starfsemi Landsbankans hf. (hér eftir nefndur „Landsbankinn“ eða „bankinn“).

Með orðsporsáhættu er átt við hættu á því að orðspor Landsbankans skaðist með athöfnum eða athafnaleysi í starfsemi hans. Hér er átt við mögulegt tjón á ímynd bankans í huga viðskiptavina og annarra haghafa, t.d. ef ekki er fylgt eftir góðri viðskiptavenju, siðareglum, starfsreglum, lögum og leiðbeiningum um góða og heilbrigða viðskiptahætti.

Markmið stefnunnar er að setja viðmið með hvaða hætti Landsbankinn leggur mat á orðsporsáhættu og hvernig unnið er að því að lágmarka orðsporsáhættu bankans og tjón sem af henni getur hlotist.

2. Greining orðsporsáhættu

Orðsporsáhætta getur falist í allri starfsemi og ákvörðunum varðandi rekstur Landsbankans. Undir þetta falla m.a. fjárfestingar, fjármögnun, upplýsingagjöf, lánaákvarðanir, rekstrarlegar ákvarðanir, sala eigna og aðrar ákvarðanir sem tengjast starfsemi bankans. Allir starfsmenn þurfa að vera meðvitaðir um orðsporsáhættu, hvernig hún tengist þeirra daglegu störfum og haga störfum sínum á þann hátt að dregið sé úr orðsporsáhættu. Starfsmenn skulu leitast við að viðhafa þau vinnubrögð sem lágmarkar mögulegt tjón vegna orðsporsáhættu hvort sem hún leiðir af athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum þeirra.

Orðsporsáhætta er samofin áhættuvilja og áhættureglum Landsbankans auk þess sem bankinn hefur sett sér siðareglur. Greining orðsporsáhættu er hluti af ferli bankans við innra eftirlit.

Sé það mat starfsmanns að veruleg hætta sé á orðsporstjóni skal tilkynna það til næsta stjórnanda eða viðeigandi fastanefndar Landsbankans eftir því sem við á.

3. Aðgerðir til að viðhalda góðu orðspori

Landsbankinn setur sér stefnur um helstu starfshætti og verkferla tengdum þeim, svo sem í útlánum, fjárfestingum, stefnu um samfélagslega ábyrgð og um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá hefur Landsbankinn sett sér siðareglur og starfsreglur, þ.m.t. um sölu eigna sem miða að því að viðhalda góðu orðspori og draga úr hættu á að orðspor bankans skaðist. Í því sambandi leitast bankinn við að eiga viðskipti við þá sem starfa í samræmi við íslensk lög og eru ekki taldir getað valdið bankanum hættu á orðsporstjóni. Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna viðskiptum við aðra aðila. Dæmi um slíka aðila eru:

 • Þeir sem grunaðir eru um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
 • Þeir sem koma að vopnaframleiðslu.
 • Þeir sem koma að framleiðslu og/eða dreifingu ólöglegra eiturefna.
 • Þeir sem bjóða upp á veðmál og/eða happdrætti sem ekki starfa samkvæmt íslenskum lögum.
 • Þeir sem framleiða, dreifa eða annast greiðsluþjónustu fyrir klám, mansal og/eða vændi.

Landsbankinn skal viðhafa sérstaka varúð í viðskiptum við eftirfarandi einstaklinga og fyrirtæki með því að gera ítarlega könnun á áreiðanleika viðskiptavina, uppruna fjármagns, raunverulegum eiganda, tilgangi viðskipta og hættu á orðsporstjóni:

 • Þá sem hlotið hafa dóm vegna refsiverðrar háttsemi.
 • Þá sem tengjast ólöglegri starfsemi.
 • Þá sem eru í áhættuhóp út frá mati á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
 • Þá sem Landsbankinn telur að geti skaðað orðspor bankans.

4. Fræðsla

Mikilvægt er að allir starfsmenn fái reglulega fræðslu um eðli orðsporsáhættu og hvernig bankinn leitast við að draga úr henni. Með fræðslu er stefnt að aukinni vitund meðal starfsmanna um hvað orðsporsáhætta sé, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að takmarka orðsporsáhættu og hvernig starfsmenn skuli bregðast við þegar upp kemur orðsporsáhætta.

5. Ábyrgð stjórnenda

Bankaráð Landsbankans tekur ákvörðun um stefnumörkun bankans að því er varðar orðsporsáhættu. Stjórnendur bankans starfa í samræmi við stefnu þessa og hafa eftirfarandi þætti að leiðarljósi:

 • Gera árlegt mat á orðsporsáhættu í starfsemi sinnar einingar.
 • Sjá til þess að verklag takmarki hættu á orðsporstjóni í starfseminni.
 • Að starfsmenn fái fræðslu um orðsporsáhættu.
 • Skrá rekstraratvik sem valda orðsporstjóni.
 • Tilkynna um verulega orðsporsáhættu.
 • Leita til næsta stjórnanda eða regluvarðar um ráðgjöf ef upp koma álitamál.

6. Eftirlit

Stefna þessi og verklag skal vera áhættumiðað og taka mið af þriggja þrepa eftirlitslíkaninu (e. three lines of defense).

Regluvarsla skal hafa eftirlit með framkvæmd þessarar stefnu og gerir grein fyrir því í skýrslu sinni til bankastjóra og bankaráðs.

Prentvæn útgáfa

Stefna Landsbankans um orðsporsáhættu

Hafðu samband

Tengiliður um starfsemi og rekstur Landsbankans Rúnar Pálmason