Sjóðir

Skilmálar fyrir áskrift að hlutdeildarskírteinum í sjóðum Landsbréfa hf.

Nr. 1528-02  |  Febrúar 2018
 1. Gildissvið

  Skilmálar þessir gilda um áskrift viðskiptavina Landsbankans hf., 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík (hér eftir "Landsbankinn") að hlutdeildarskírteinum í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum sem eru í rekstri Landsbréfa hf., kt. 691208-0520, Borgartúni 35, Reykjavík (hér eftir "Landsbréf")1.

  Þá gilda Almennir skilmálar Landsbankans vegna þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, eins og þeir eru á hverjum tíma, um áskrift viðskiptavinar að hlutdeildarskírteinum í sjóðum Landsbréfa.

 2. Áskrift

  Í áskrift að hlutdeildarskírteinum í sjóðum Landsbréfa felst að viðskiptavinur kaupir með reglubundnum hætti hlutdeild í þeim sjóði sem hann velur í áskrift fyrir þá áskriftarfjárhæð sem valin er.

  Viðskiptavinur getur skráð sig í áskrift, breytt áskrift, s.s. áskriftarfjárhæð og greiðslumáta, með eftirfarandi hætti:

  1) Hjá Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf Landsbankans.
  2) Í næsta útibúi Landsbankans.
  3) Í netbanka Landsbankans. Viðskiptavinur getur þó eingöngu skráð sig í áskrift í netbanka en ekki breytt áskrift.

  Um skráningu í áskrift, breytingu á áskrift, greiðslumáta, greiðslur og afhendingu hlutdeildarskírteina vegna áskriftar í sjóðum Landsbréfa gildir eftirfarandi:

  • a) Greiðsla fer fram með skuldfærslu af reikningi í Landsbankanum (beingreiðsla)

   Skráning í áskrift og breyting á áskrift tekur gildi um næstu mánaðarmót ef skráning eða breyting á áskrift á sér stað fyrir 26. dag viðkomandi mánaðar. Ef skráning eða breyting á áskrift á sér stað 26. dag viðkomandi mánaðar eða síðar tekur breytingin gildi um þarnæstu mánaðarmót.

   Skuldfærsla af skuldfærslureikningi á sér stað fyrsta virka dag mánaðar eftir að áskrift hefur tekið gildi. Reynist ekki næg innstæða á reikningi þann dag er reynt til 15. dags þess mánaðar að skuldfæra reikninginn. Kaup á hlutdeildarskírteinum eru framkvæmd í kjölfar skuldfærslu. Ef ekki tekst að skuldfæra reikninginn í samræmi við framangreint fellur áskrift viðskiptavinar niður þann mánuðinn.

   Dæmi: Ef viðskiptavinur skráir sig í áskrift eða breytir áskrift 5. janúar þá á skuldfærsla sér stað í byrjun febrúar og fer afhending hlutdeildarskírteinanna fram í kjölfar skuldfærslu í febrúar. Ef viðskiptavinur skráir sig í áskrift eða breytir áskrift 26. janúar á skuldfærsla sér stað í byrjun mars og fer afhending hlutdeildarskírteinanna fram í kjölfar skuldfærslu í mars.

  • b) Greiðsla fer fram með skuldfærslu á kreditkort (boðgreiðsla)

   Skráning í áskrift og breyting á áskrift tekur gildi í viðkomandi mánuði ef skráning eða breyting á áskrift á sér stað fyrir 16. dag viðkomandi mánaðar. Ef skráning eða breyting á áskrift á sér stað 16. dag viðkomandi mánaðar eða síðar tekur breytingin gildi um næstu mánaðarmót.

   Skuldfærsla á kreditkort á sér stað um miðjan mánuð eftir að áskrift hefur tekið gildi. Kaup á hlutdeildarskírteinum eru framkvæmd í upphafi næstu mánaðarmóta eftir skuldfærslu. Ef ekki tekst að skuldfæra kreditkortið í samræmi við framangreint fellur áskrift viðskiptavinar niður þann mánuðinn.

   Dæmi: Ef viðskiptavinur skráir sig í áskrift eða breytir áskrift 15. janúar á skuldfærsla sér stað um miðjan janúar og fer afhending hlutdeildarskírteinanna fram í byrjun febrúar. Ef viðskiptavinur skráir sig í áskrift eða breytir áskrift 16. janúar þá á skuldfærsla sér stað um miðjan febrúar og fer afhending hlutdeildarskírteinanna fram í byrjun mars.

  Ef áskriftarfjárhæð er 5.500 krónur eða hærri geta viðskiptavinir óskað eftir því að áskriftarfjárhæð breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.

 3. Gjöld
 4. Landsbankinn innheimtir ekki gjald við kaup (gengismun) samkvæmt verðskrá Landsbankans vegna áskriftar í sjóðum Landsbréfa ef áskrift viðskiptavinar varir að lágmarki í 4 mánuði. Afsláttur af gjaldi við kaup (gengismun) er strax veittur við fyrstu kaup viðskiptavinar í áskrift. Um aðrar þóknanir og þjónustugjöld, þ.m.t. umsýslugjöld, fer samkvæmt gildandi verðskrá Landsbankans hverju sinni og útboðslýsingu viðkomandi sjóðs hverju sinni.

  Verðskrá Landsbankans og útgáfulýsingar sjóða Landsbréfa eru aðgengilegar á vef bankans, nú www.landsbankinn.is. Viðskiptavinur heimilar Landsbankanum að skuldfæra þóknanir og þjónustugjöld af reikningi sínum eða á kreditkort, eftir því sem við á.

 5. Uppsögn
 6. Landsbankinn hefur rétt til þess að fella einhliða niður áskrift viðskiptavinar, að undangenginni tilkynningu til viðskiptavinar, ef þau hlutdeildarskírteini sem keypt eru í áskrift eru ítrekað innleyst innan 40 daga frá kaupum.

  Ef ekki reynist næg innstæða á reikningi viðskiptavinar eða ef ekki er næg heimild á kreditkorti, eftir því sem við á, í þrjú skipti í röð til að skuldfæra áskriftarfjárhæð er Landsbankanum heimilt, en ekki skylt, að líta svo á að viðskiptavinur hafi sagt upp áskrift sinni.

  Viðskiptavini er heimilt að segja upp áskrift að hlutdeildarskírteinum í sjóðum Landsbréfa hvenær sem er. Ef áskrift er skuldfærð á kreditkort (boðgreiðsla) tekur uppsögn gildi um næstu mánaðarmót ef Landsbankinn hefur staðfest móttöku á uppsögn fyrir 15. dag viðkomandi mánaðar. Ef áskrift er skuldfærð af reikningi í Landsbankanum (beingreiðsla) tekur uppsögn gildi um næstu mánaðarmót ef Landsbankinn hefur staðfest móttöku á uppsögn fyrir 25. dag viðkomandi mánaðar.

  Viðskiptavinur getur sagt upp áskrift með eftirfarandi hætti:
  1) Hjá Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf Landsbankans.
  2) Í næsta útibúi Landsbankans.

 7. Önnur ákvæði
 8. Landsbréf bjóða upp á fjölbreytt úrval af sjóðum en þeir eru mismunandi hvað varðar samsetningu, áhættu og ávöxtun. Áhætta fylgir ávallt fjárfestingu í sjóðum þar sem gengi þeirra getur bæði hækkað og lækkað, t.d. vegna verðbreytinga á eignum sjóðanna og vegna gengisflökts gjaldmiðla þegar eignir sjóða eru í erlendum gjaldmiðlum. Ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Viðskiptavinum er bent á að kynna sér vel reglur, útboðslýsingu og lykilupplýsingar sjóða áður en fjárfest er í þeim en gögnin eru aðgengileg á vefsíðu Landsbankans, nú www.landsbankinn.is.

  Landsbankanum er heimilt að breyta skilmálum þessum einhliða og eru skilmálar þessir birtir á vefsíðu Landsbankans, nú www.landsbankinn.is.

  Yfirlit yfir hlutdeildarskírteini í sjóðum Landsbréfa eru send út tvisvar sinnum á ári, en auk þess eru ráðgjafar Landsbankans til staðar til þess að veita viðskiptavinum upplýsingar þegar þess er óskað. Þá geta viðskiptavinir nálgast upplýsingar um hlutdeildarskírteini sín í netbanka Landsbankans.

  Viðskiptavinur getur skotið ágreiningi sem upp kann að koma í tengslum við skilmála þessa til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki (sjá upplýsingar um nefndina á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, nú www.fme.is).

  Um skilmála þessa gilda íslensk lög.

1Landsbréf er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem annast rekstur verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða. Landsbréf er dótturfélag Landsbankans.