Greiðslureikningar - eldri skilmálar

Skilmálar um greiðslureikninga sem voru í gildi til 19. nóvember 2017

Landsbankinn hf.  |  Nr. 1520-01  |  Desember 2011

Prentvæn útgáfa

Um Landsbankann hf.

Landsbankinn hf., Austurstræti 11, 155 Reykjavík er fjármálafyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Landsbankinn hefur starfsleyfi frá fjármálaeftirlitinu og lýtur jafnframt eftirliti þess. 

Um skilmálana

Um skimála þessa gilda lög um greiðsluþjónustu nr. 120/2011, hér eftir nefnd lög um greiðsluþjónustu. Skilmálarnir gilda um alla greiðslureikninga, eins og þeir eru skilgreindir í lögum um greiðsluþjónustu. 

Skilmálarnir gilda  frá og með 1. desember 2011 fyrir núverandi sem og nýja viðskiptavini Landsbankans og gilda þar til þeim hefur verið sagt upp. Samhliða þessum skilmálum er vísað til ákvæða í almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans, sem og skilmála sem gilda um einstaka greiðslureikninga eða greiðslumiðla. 

Frumrit skilmálanna er á íslensku og skulu boðskipti vera í samræmi við það. Skilmálar þessir skulu lagðir fram á pappír eða öðrum varanlegum miðli ef viðskiptavinur æskir þess. 

Greiðslureikningur

Greiðslureikningur er samkvæmt ákvæðum laga um greiðsluþjónustu reikningur á nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu sem notaður er við framkvæmd greiðslu. Greiðslureikning má nota til að taka við greiðslum frá einstaklingum og lögaðilum innanlands sem utan og greiða fé af reikningnum til innlendra og erlendra einstaklinga og lögaðila. Til að greiða fé á annan innlendan reikning þarf kennitölu og reikningsnúmer viðtakanda. Landsbankinn þarf sömu upplýsingar til að taka við greiðslum sem berast á reikning viðskiptavinar. Til að greiða fé á erlenda reikninga þarf viðskiptavinur að gefa upp IBAN reikningsnúmer móttakanda greiðslu, SWIFT númer móttöku banka og fullt nafn og heimilisfang móttakanda greiðslu.

Greiðslufyrirmæli 

Fyrirmæli um framkvæmd greiðslna má gefa í munnlega í útibúum bankans, í gegnum síma, með tilgreiningu á leyninúmeri eða í netbanka með notkun auðkennislykils. Greiðslufyrirmæli sem berast fyrir lokun bankaútibús á bankadegi teljast móttekin á þeim bankadegi. Greiðslufyrirmæli sem berast eftir þann tíma teljast til næsta bankadags á eftir. Greiðslufyrirmæli í netbanka fyrirtækja sem berast fyrir miðnætti teljast móttekin á þeim bankadegi.

Viðskiptavinur getur með sérstökum samningi við Landsbankann ákvarðað sérstakt útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með tilteknum greiðslumiðli á greiðslureikningi hans. Greiðslumiðill er hvers kyns persónubundinn búnaður og/eða verklag sem Landsbankinn og viðskiptavinur koma sér saman um og viðskiptavinurinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli. Greiðslur með kortum og greiðslur sem framkvæmdar eru í netbanka falla undir skilmála þessa en um notkun korta og netbanka gilda jafnframt þeir sérstöku skilmálar sem við eiga.

Viðskiptavinur getur afturkallað greiðslufyrirmæli fram að þeim tíma sem greiðslufyrirmæli teljast óafturkallanleg, samkvæmt 61. gr. laga um greiðsluþjónustu, eftir þann tíma getur viðskiptavinur ekki afturkallað greiðslufyrirmæli. Viðskiptavinur getur afturkallað greiðslufyrirmæli þegar um beingreiðslu er að ræða í síðasta lagi í lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn gjaldfærsludag fjármuna.  

Framkvæmd greiðslna

Við framkvæmd einstakra greiðsla sem falla undir þessa skilmála skal Landsbankinn veita viðskiptavini, hvort sem hann er greiðandi eða móttakandi greiðslu, eftirfarandi upplýsingar um greiðsluna: Tilvísun sem gerir viðskiptavininum kleift að bera kennsl á hverja greiðslu, fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem greiðsla er framkvæmd í, fjárhæð gjalda vegna greiðslu og sundurliðun þeirra ef við á og gildisdag gjaldfærslu eða eignfærslu vegna greiðslunnar.

Miðað er við að greiðsla innanlands í íslenskum krónum taki að hámarki einn bankadag frá móttöku greiðslufyrirmæla. Berist greiðslufyrirmæli bréfleiðis eða á tölvutæku formi kann framkvæmdin að taka tvo bankadaga. 

Bráðabirgðaákvæði nr. I í lögum um greiðsluþjónustu, greinir að þrátt fyrir ákvæði laganna, gildi um greiðsluþjónustuveitendur og notendur greiðsluþjónustu takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum sem settar eru með stoð í þeim, á hverjum tíma.

Miðað er við að greiðsla í erlendum gjaldmiðli innanlands taki að hámarki einn bankadag frá móttöku greiðslufyrirmæla. Berist greiðslufyrirmæli bréfleiðis eða á tölvutæku formi kann framkvæmdin að taka tvo bankadaga.

Miðað er við að greiðsla í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum inn á greiðslureikning utanlands taki að hámarki tvo bankadaga frá móttöku greiðslufyrirmæla. Þó er Landsbankanum heimilt að semja um það við viðskiptavini við framkvæmd einstakra færslna að slíkar greiðslur taki allt að þremur bankadögum fram til 1. janúar 2012, eins og heimilt er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. II í lögum um greiðsluþjónustu. 

Verðskrá (gjaldtaka bankans)

Landsbankanum er heimilt að taka gjald fyrir greiðslur af greiðslureikningnum. Einnig er bankanum heimilt að taka gjald vegna aðstoðar við að endurheimta fé sem greitt var fyrir mistök, t.d. vegna þess að greiðslufyrirmælum fylgdu rangar upplýsingar um móttakanda greiðslu. 

Um gjöld fyrir þjónustu samkvæmt þessum skilmálum fer samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni og skilmálum viðkomandi greiðslureikningsins. Hægt er að fá upplýsingar um innlenda og erlenda verðskrá á vef Landsbankans www.landsbankinn.is, hjá þjónustuveri hans og hjá gjaldkerum eða þjónustufulltrúum í útibúum bankans. 

Greiðsluyfirlit og ábyrgð á greiðslum

Viðskiptavinir með aðgang að netbanka Landsbankans sjá yfirlit yfir allar millifærslur í netbankanum. Viðskiptavinir sem ekki hafa aðgang að netbanka fá reglulega send yfirlit á pappír. 

Viðskiptavini ber að yfirfara reikningsyfirlit sín reglulega og fylgjast með færslum inn á og út af greiðslureikningum sínum. Viðskiptavini ber að hafa samband við bankann eins fljótt og kostur er ef hann verður var við rangar eða ósamþykktar greiðslur. 

Vilji viðskiptavinur vefengja greiðslu þarf slíkt að eiga sér stað innan 13 mánaða frá því að upphæð var skuldfærð af reikningnum, eins og nánar er kveðið á um í lögum um greiðsluþjónustu. 

Viðskiptavinur ber tjón vegna óheimilaðra greiðslna sem nemur allt að jafnvirði 150 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni sem rekja má til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða stafar af óréttmætri nýtingu greiðslumiðils sem leiðir af því að greiðandi hefur ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu til að tryggja persónubundna öryggisþætti greiðslumiðilsins.

Þegar um óheimilaða greiðslu er að ræða í skilningi 55. gr. laga um greiðsluþjónustu, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum og að teknu tilliti til annarra ákvæða laganna skal Landsbankinn þegar í stað endurgreiða greiðanda fjárhæð óheimilaðrar greiðslu og ef við á bakfæra eignfærslu á greiðslureikninginn til sömu stöðu og hann hefði verið í ef óheimilaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.

Viðskiptavinur getur einnig átt rétt á endurgreiðslu frá Landsbankanum vegna heimilaðrar greiðslu, sbr. 57. gr. laga um greiðsluþjónustu, ef viðtakandi greiðslu hefur átt frumkvæði að eða haft milligöngu um greiðslu og greiðslan hefur þegar verið framkvæmd. Hafi viðskiptavinur veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu beint til Landsbankans og, ef við á, Landsbankinn eða viðtakandi greiðslu veitti upplýsingar um greiðslur í framtíðinni eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt að minnsta kosti fjórum vikum fyrir gjalddaga á viðskiptavinur ekki rétt á endurgreiðslu samkvæmt þessu ákvæði laga um greiðsluþjónustu.

Ef Landsbankinn er ábyrgur fyrir því að greiðsla er ekki framkvæmd eða er gölluð, hvort sem viðskiptavinur er greiðandi eða móttakandi greiðslu, sbr. ákvæði 69. gr. laga um greiðsluþjónustu, skal Landsbankinn  endurgreiða viðskiptavini fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað eða setja fjárhæð greiðslunnar til ráðstöfunar viðtakanda greiðslu og, ef við á, eignfæra samsvarandi fjárhæð á greiðslureikning viðtakandans.

Lokun greiðslureiknings og uppsögn

Viðskiptavinur getur lokað greiðslureikningi fyrirvaralaust, sér að kostnaðarlausu. Landsbankanum er heimilt að loka reikningi viðskiptavinar með tveggja mánaða fyrirvara, samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, nema að samið hafi verið um annað.

Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur á samningstímanum, fyrir greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi, skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings. Ef gjöld vegna greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd notanda hlutfallslega, með tilliti til gildistíma uppsagnar.

Breytingar á skilmálum

Landsbankanum er heimilt að breyta skilmálum þessum fyrirvaralaust séu breytingarnar viðskiptavinum í hag. Að öðrum kosti eru breytingar háðar tveggja mánaða fyrirvara. Viðskiptavinum er tilkynnt um breytingar með rafrænum hætti og með auglýsingum á vef Landsbankans. Við skilmálabreytingar ber viðskiptavini að tilkynna bankanum áður en breytingarnar öðlast gildi vilji hann ekki gangast undir hina breyttu skilmála. Ef engar athugasemdir berast telst viðskiptavinur hafa samþykkt hina breyttu skilmála. Tilkynni viðskiptavinur bankanum að hann hafni hinum breyttu skilmálum er greiðslureikningi hans lokað þegar breytingarnar öðlast gildi. 

Viðmiðunarvextir og viðmiðunargengi

Vextir greiðslureikninga eru breytilegir nema annað sé tiltekið eða umsamið. Vextir ákvarðast og breytast án nokkurs fyrirvara í samræmi við vaxtaákvörðun Landsbankans á hverjum tíma. 

Hægt er að fá upplýsingar um inn- og útlánsvexti á vef bankans www.landsbankinn.is, hjá þjónustuveri hans og hjá gjaldkerum eða þjónustufulltrúum í útibúum bankans.  Þegar sérstaklega stendur á eru vaxtabreytingar bankans tilkynntar opinberlega, t.d. með fréttatilkynningum. 

Ef greiðslufyrirmæli fela í sér að kaupa þarf gjaldmiðil fyrir íslenskar krónur eða annan gjaldmiðil skal miða við kaup- og sölugengi Landsbankans á viðkomandi gjaldmiðlum. Kaup og sölugengi Landsbankans ákvarðast daglega og kann að breytast fyrirvaralaust. Upplýsingar um kaup- og sölugengi má nálgast í útibúum og á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is.

Breytingar á vöxtum eða gengi sem notað er í greiðslum skulu framkvæmdar og reiknaðar á hlutlausan hátt þannig að notendum greiðsluþjónustu sé ekki mismunað.

Kvartanir og ábendingar

Hvað varðar kvartanir og ábendingar sem og úrlausn ágreiningsmála er vísað til ákvæða í Almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans.

Prentvæn útgáfa