Skilmálar Landsbankans fyrir notkun Apple Pay

Skilmálar fyrir notkun Apple Pay

Nr. 1535-01  |  Maí 2019

1. Gildissvið

Skilmálar þessir gilda milli Landsbankans hf. (hér eftir „Landsbankinn“ eða „bankinn“) og viðskiptavinar sem nýtir sér greiðslulausnina Apple Pay (hér eftir „viðskiptavinur“). Greiðslulausnin er aðgengileg í gegnum Landsbankaappið og smáforritið Wallet.

Viðskiptavini ber að fara með notkun Apple Pay og Wallet í samræmi við skilmála þessa. Um notkun Apple Pay og Wallet gilda einnig Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans og, eftir atvikum, ákvæði samninga, skilmála og reglna um einstakar vörur eða þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini, eins og ákvæði þeirra eru á hverjum tíma. Með því að tengja greiðslukort við Apple Wallet og nota þjónustu Apple Pay undirgengst viðskiptavinur að hlíta skilmálum þessum í hvívetna. Öll notkun á þjónustu Apple Pay og Wallet takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist, sem og þær upplýsingar og þá þjónustu sem í boði er á hverjum tíma.

Að svo miklu leyti sem ákvæði skilmála þessara falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu teljast þau ákvæði vera viðbót við rammasamning um greiðsluþjónustu milli viðskiptavinar og bankans í skilningi laga um greiðsluþjónustu, sbr. Almenna viðskiptaskilmála Landsbankans.

2. Persónuvernd og öryggi persónuupplýsinga

Í þeim tilgangi að gera viðskiptavini kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu með Apple tækjum er bankanum nauðsynlegt að vinna tilteknar persónuupplýsingar um viðskiptavin, þ.e. upplýsingar um nafn, upplýsingar um greiðslukort, s.s. greiðslukortanúmer, gildistíma og öryggisnúmer (CVC), tóka (sýndarnúmer) tengdum greiðslukortinu og fjárhagslegar upplýsingar tengdar greiðslukortinu, t.d. um færslur. Vinnsla framangreindra persónuupplýsinga er forsenda þess að viðskiptavinur geti nýtt greiðslulausnina.

Í þeim tilgangi að veita, bæta og þróa greiðslulausnina er bankanum nauðsynlegt að miðla nafni og ópersónugreinanlegum upplýsingum sem tengjast greiðslukorti til Apple, framleiðanda greiðslulausnarinnar og Valitor, útgáfuvinnsluaðila bankans.

Bankinn getur jafnframt móttekið upplýsingar frá þriðja aðila um skráningu viðskiptavinar í greiðslulausnina og til að koma í veg fyrir svik og vinna úr þeim.

Um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gilda Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans og persónuverndarstefna bankans á hverjum tíma. Um öryggi og persónuvernd í Apple Pay og Wallet er fjallað á vefsíðu Apple.

3. Tóki (sýndarnúmer)

Með því að tengja greiðslukort við Apple Pay verður til tóki (sýndarnúmer) sem Visa úthlutar greiðslukortinu. Visa notar þjónustu útgáfuvinnsluaðila bankans við úthlutun sýndarnúmera. Sýndarnúmer er staðbundið kortnúmer sem er tengt við greiðslukort. Um sýndarnúmer gilda sömu skilmálar og reglur og um debet- og kreditkort. Greiðslulausnin Apple Pay notar sýndarnúmerið við framkvæmd greiðslufyrirmæla til að tryggja öryggi í viðskiptum um greiðslukortið. Upplýsingar um sýndarnúmerið eru vistaðar hjá útgáfuvinnsluaðila bankans og í greiðslulausninni.

4. Almennt um Apple Pay

Apple Pay er smáforrit fyrir Apple tæki sem gerir viðskiptavini kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu snertilaust með snjallsíma og öðrum Apple tækjum hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við kortum. Einnig er hægt að greiða í gegnum öpp og í Safari-vafra. Viðskiptavinur tengir greiðslukort, útgefin af bankanum, við Apple Pay í gegnum Landsbankaappið eða Wallet. Bankinn áskilur sér rétt til að ákveða einhliða þá þjónustu sem í boði er í Apple Pay, sem og að breyta og/eða loka þjónustunni án fyrirvara. Viðskiptavini er algerlega óheimilt að gera eða láta gera breytingar á hugbúnaði þeim sem tengist Apple Pay eða Wallet. Viðskiptavinur notar auðkenningu til að sanna á sér deili þegar greiðslukort er tengt við Apple Pay í gegnum Wallet. Þegar greiðslukort er tengt í gegnum Wallet auðkennir viðskiptavinur sig með staðfestingarkóða frá útgáfuvinnsluaðila bankans sem viðskiptavinur fær sendan með tölvupósti eða sms skilaboðum.

Bankinn sendir viðskiptavini sjálfvirkar tilkynningar (e. push notification) í tengslum við þjónustuna með rafrænum hætti, t.d. í snjalltæki, Landsbankaappi eða netbanka.

5. Ábyrgð og skyldur

Eftir að viðskiptavinur hefur tengt greiðslukort við Apple Pay og Wallet ber viðskiptavinur ábyrgð á og er bundinn af öllum greiðslum og öðrum aðgerðum sem framkvæmdar eru með Apple Pay og/eða Wallet. Viðskiptavini ber að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti sem hann notar til auðkenningar í Apple tæki, t.d. fingrafar, andlitsgreiningu og leyninúmer. Til að tryggja öryggi skal viðskiptavinur virkja læsingar á Apple tækjum.

Bankinn ber ekki ábyrgð á notkun viðskiptavinar á Apple Pay eða Wallet. Þá ber bankinn ekki ábyrgð á tjóni sem notkun Apple Pay eða Wallet kann að valda. Láni viðskiptavinur, selji eða heimili öðrum umráð yfir tækjum sem Apple Pay hefur verið virkjað í skuldbindur hann sig til að fjarlægja greiðslukort úr Apple Pay og/eða Wallet. Hafi verið átt við Apple tæki með þeim hætti að öryggi þess hafi á einhvern hátt verið ógnað, t.d. með uppsetningu óöruggra forrita, er notkun Apple Pay á Apple tækinu ekki örugg og því óheimil með öllu.

Verði viðskiptavinur var við misnotkun eða óheimila notkun á Apple Pay ber honum að tilkynna það tafarlaust til bankans á afgreiðslutíma bankans en í neyðarsíma greiðslukortafyrirtækis utan afgreiðslutíma bankans. Bankanum er heimilt, fyrirvaralaust og án tilkynningar, að loka aðgangi viðskiptavinar að Apple Pay eða takmarka notkun, í heild eða að hluta, tímabundið eða varanlega, í eftirfarandi tilfellum: (a) ef grunur leikur á um óheimila eða sviksamlega notkun Apple Pay eða brot á lögum, reglum eða skilmálum bankans, (b) vegna uppfærslu skráa, kerfisbreytinga eða annarra tæknilegra ástæðna eða öryggisástæðna eða (c) ef bú viðskiptavinar er tekið til gjaldþrotaskipta, ef viðskiptavinur leitar nauðasamninga, greiðslustöðvunar, eða ef fyrir hendi eru aðrar sambærilegar ástæður. Viðskiptavini er gert viðvart eins fljótt og kostur er. Séu ástæður fyrir lokuninni ekki lengur fyrir hendi skal bankinn opna fyrir notkunina. Upplýsingar um viðskipti, þ.m.t. stöðu viðskiptafyrirmæla, kunna að verða óaðgengilegar tímabundið í Apple Pay vegna álags á viðkomandi tölvu- og/eða viðskiptakerfi. Ákveðin þjónusta eða aðgerðir í Apple Pay sækja staðsetningu tækis út frá GPS hnitum, netkerfum eða dreifikerfi símafyrirtækja, t.d. upplýsingar um afgreiðslustaði. Hægt er að stýra aðgengi að slíkum þjónustum í Apple tækinu sjálfu. Bankinn sækir ekki upplýsingar um staðsetningar úr Apple tæki nema með heimild viðskiptavinar.

6. Lokaákvæði

Allur hugverkaréttur sem tengist þjónustunni er eign Landsbankans eða þriðja aðila. Í hugverkarétti felst m.a. höfundaréttur, hönnunarréttur, eignaréttur að atvinnuleyndarmálum og sérfræðiþekking, vörumerkjaréttur, einkaleyfaréttur, sem og skyld réttindi hvaða nafni sem þau nefnast, bein eða óbein. Notkun þjónustunnar er óheimil ef átt hefur verið við stýrikerfi viðkomandi Apple tækis eða öryggi þess er ógnað af öðrum ástæðum.

Viðskiptavinur greiðir gjöld fyrir vörur og þjónustu bankans og útlagðan kostnað í tengslum við veitta þjónustu í samræmi við verðskrá bankans eins og hún er á hverjum tíma. Um verðskrá, breytingar á skilmálum þessum, uppsögn og lok viðskipta er að öðru leyti vísað til ákvæða Almennra viðskiptaskilmála Landsbankans.