Saga

Landsbankinn hf.

Landsbankinn hf. var stofnaður 7. október 2008 en saga forvera hans nær allt aftur til ársins 1886. Eigendur bankans eru ríkissjóður Íslands, með 98,2% eignarhlut og Landsbankinn hf. sem sjálfur á 1,47% hlut. Í lok árs 2016 voru eigendur bankans alls 1.003. Nánar um eignarhald.

Landsbankinn er stærsta fjármálafyrirtækið á Íslandi og veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum um allt land trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasamböndum. Landsbankinn rekur víðtækasta útibúanet banka á Íslandi. Í árslok 2016 voru útibú og afgreiðslur bankans 37 talsins.

Bankasýsla ríkisins fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum. Hún tók til starfa í janúar 2010 eftir bankahrunið til að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggja þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimilda í fjárlögum. Bankasýsla ríkisins kýs sjö stjórnarmenn á hluthafafundi.

Tíðindaríkir dagar haustið 2008

Haustið 2008 líður Íslendingum seint úr minni. Miklir erfiðleikar höfðu skapast í rekstri fjármálafyrirtækja á Íslandi og um allan heim. Þessi staða reyndist stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum ofviða og rekstur þeirra sigldi í þrot. Alþingi brást við aðstæðum með því að setja lög nr. 125/2008 þann 6. október sem oftast ganga undir nafninu Neyðarlög. Í þeim fólust víðtækar lagaheimildir íslenska ríkisins til aðgerða á fjármálamörkuðum. Lögin áttu að "gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í hvívetna, koma í veg fyrir að þjóðin verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður miðað við núverandi aðstæður" eins og þáverandi forsætisráðherra komst að orði. Lögin fólu í sér mjög víðtækar heimildir um inngrip stjórnvalda á fjármálamarkaði og var ekki síst ætlað að vernda innlent fjármálakerfi og eignir Íslendinga í fjármálafyrirtækjum.

Að kvöldi 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir rekstur Landsbanka Íslands hf. Eigendur hans og helstu stjórnendur hurfu af vettvangi. Var hluti af starfsemi Landsbanka Íslands flutt til nýs banka, Nýja Landsbankans hf., sem var að fullu í eigu íslenska ríkisins. Nýi Landsbankinn tók yfir innstæðuskuldbindingar í Landsbanka Íslands á Íslandi sem og stærstan hluta eigna bankans sem tengjast íslenskri starfsemi s.s. lán og aðrar kröfur. Aðrar eignir og skuldir urðu eftir í Landsbanka Íslands hf., en skilanefnd skipuð af Fjármálaeftirlitinu tók við stjórn hans og var ætlað að hafa umsjón með uppgjöri þrotabús bankans.

Stofnefnahagsreikningur Landsbankans

Í desember 2009 var samið um uppgjör Landsbankans (NBI hf.) og Landsbanka Íslands hf. Það fólst í því að sá fyrrnefndi gaf út 247 milljarða króna skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára til hins síðarnefnda, auk þess sem gert var ráð fyrir að gefin yrðu út hlutabréf til gamla bankans.

Með samkomulaginu var þannig gengið frá eignarhaldi á Landsbankanum. Hluthafarnir urðu nú tveir: Ríkissjóður Íslands eignaðist 81,333% og Landsskil ehf., dótturfélag Landsbanka Íslands hf., 18,667% útgefins hlutafjár, sem var 24 ma. kr. Erlend langtíma fjármögnun var jafnframt tryggð með útgáfu skuldabréfsins. Þetta var gríðarlega mikilvægur þáttur í rekstri bankans og ekki síður fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni.

Í kjölfar tilkomu stofnefnahagsreikningsins var nýtt bankaráð kjörið og tók þá m.a. fulltrúi Landsskila sæti í stjórninni.

Breyting á eignarhaldi

Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans 11. apríl 2013. 18,67% hlutur sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf. færðist þá til íslenska ríkisins og Landsbankans hf. í samræmi við samkomulag þessara aðila frá desember 2009. Íslenska ríkið átti þá 98% í bankanum og Landsbankinn hf. hélt á 2% hlut. Með því var lokið beinum afskiptum LBI hf. af stjórnun Landsbankans.

Við sama tækifæri gaf Landsbankinn hf. út skuldabréf til LBI hf. að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt. Bréfið er hluti af kaupverði þeirra eigna sem Landsbankinn keypti af LBI hf. samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í desember 2009. Þetta bréf kemur til viðbótar öðru skuldabréfi sem Landsbankinn gaf út 2009.

Á hluthafafundi 27. mars 2013 var samþykkt að bankanum væri heimilt að taka við hlutabréfunum frá LBI hf. en henni fylgdi kvöð um að afhenda bæri þau starfsmönnum. Við útgáfu á skilyrta skuldabréfinu til LBI hf. í apríl var ofangreind kvöð varðandi afhendingu hlutabréfanna staðfest af fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkisins.

Á hluthafafundi í Landsbankanum hf. sem haldinn var 17. júlí 2013, voru staðfestar úthlutunarreglur um afhendingu hlutabréfa til starfsmanna. Með afhendingu hlutabréfanna uppfyllti Landsbankinn þær skyldur sem samningur um fjárhagslegt uppgjör við LBI hf. og íslenska ríkið lagði honum á herðar. Til úthlutunar komu hlutabréf, sem áður voru í eigu LBI hf., alls 500.000.000 hlutir (2,08% af heildarhlutafé) en um helmingur verðmætis hlutafjár sem til úthlutunar runnutil ríkissjóðs í formi skatta. Eignarhlutur rúmlega 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmanna í Landsbankanum hf. er því innan við 1%.

Þann 29. mars 2015 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og þann 4. september 2015 var samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands samþykktur. Við þessa samruna fengu fyrrum stofnfjáreigendur sparisjóðanna hluti í Landsbankanum, þ.m.t. ríkissjóður sem átti stóran hluta stofnfjár sjóðanna. Við samrunana eignuðust fyrrum stofnfjáreigendur, aðrir en ríkið, hlut sem nemur um 0,11% af hlutafé Landsbankans.

Landsbankinn í meira en 120 ár

Fyrstu áratugirnir í 120 ára sögu Landsbankans frá stofnun hans 1. júlí 1886 einkennast af því að bankinn hafði úr litlum fjármunum að spila og var ekki ósvipaður sparisjóði. Eftir að bankinn endurheimti rétt til seðlaútgáfu á 3. áratugnum og varð þjóðbanki öðlaðist hann hins vegar traustan sess sem stærsti banki landsins. Seðlaútgáfan var skilin frá Landsbankanum 1961 með tilkomu sérstaks Seðlabanka en starf hans sem viðskiptabanki efldist og útibúanet bankans þéttist ört á næstu áratugum. Með vaxtafrelsinu 1986 fékk bankinn tækifæri til að efla starfsemi sína og tókst vel þrátt fyrir erfiðleika fyrst í stað. Landsbankinn var gerður að hlutafélagi 1997 og síðasti hlutur ríkisins í bankanum var seldur 2003.

1886-1895: Bankarekstur í hjáverkum

Landsbanki Íslands tók til starfa 1. júlí árið 1886 er hann opnaði uppi í Bakarabrekku - sem síðan kallast Bankastræti. Landsbanka Íslands var ætlað að auka peningaviðskipti landsmanna og efla atvinnuvegina. Lárus E. Sveinbjörnsson, yfirdómari og framkvæmdastjóri, þjónaði bankanum í aukavinnu rétt eins og bókarinn og féhirðirinn. Á fyrsta starfsvori hlaut bankinn í vöggugjöf Sparisjóð Reykjavíkur með gögnum og gæðum.

Mikil peningaekla einkenndi upphafsárin og þörf fyrir lánsfé var mikil. Dreifbýlismenn tóku fljótt að kvarta yfir því að ekkert bólaði á útibúunum sem landsbankalögin lofuðu. Á sama hátt þótti Reykvíkingum klént að hafa bara opið tvisvar í viku en því var kippt í lag 1889. Höfuðstaðarbúar eignuðust þá sinn daglega banka. Tveimur árum síðar voru laun bankamanna hækkuð í samræmi við lengdan vinnutíma svo að eiginleg bankamannastétt varð til.

1896-1905: Bankinn eignast stórhýsi og útibú

Rétt fyrir aldamótin 1900 reisti Landsbankinn sér glæsihýsi á norðvesturhorni Austurstrætis og Pósthússtrætis og hafa höfuðstöðvarnar verið þar síðan. Landsbankahúsið þótti "fyllilega á borð við slíkar byggingar í stórborgum". Starfseminni óx smám saman fiskur um hrygg - ekki síst við stofnun veðdeildar er tók að lána gegn veði í öðrum fasteignum en jörðum. Upp úr aldamótum var móðurbankinn í Reykjavík orðinn nógu öflugur til að geta af sér fyrstu afkvæmin, lítinn Akureyrarbanka 1902 og útibúið á Ísafirði 1904. Í upphafi aldarinnar var nýr einkabanki, Íslandsbanki, í burðarliðnum og hann hafði lofað þremur útibúum um leið og hann tæki til starfa. Samkeppnin var því að hefjast á bankamarkaði.

Landsbankinn lánaði sem hann megnaði til þilskipaútgerðar en féð var af skornum skammti á þessum árum og fjárskortur útgerðarinnar því tilfinnanlegur. Eftir að Íslandsbanki kom til sögunnar árið 1904 naut hann - þótt einkabanki væri - einkaréttar á gulltryggðri seðlaútgáfu og veitti Landsbankanum holla samkeppni.

1906-1915: Vindar blása um Landsbankann

Landsbankinn hefur ósjaldan orðið að bitbeini stjórnmálanna enda undir þing og stjórn settur. Með nýjum valdhöfum á Íslandi árið 1909 blés illa í ból Tryggva Gunnarssonar, Landsbankastjóra og heimastjórnarmanns. Tryggvi hafði sem systursonur og skoðanabróðir staðið þétt að baki Hannesi Hafstein ráðherra, svo að eitt fyrsta verk Björns Jónssonar, arftaka hans, var að víkja Tryggva úr stóli - ásamt tveimur gæslustjórum Landsbankans. Í kjölfarið var Björn Kristjánsson, kaupmaður og heimastjórnarmaður, skipaður bankastjóri og nokkru síðar var talið rétt að leggja ábyrgð og vald Landsbankans á herðar tveggja stjórnenda svo að bankastjórarnir urðu eftir það tveir.

Vorið 1915 brann miðbær Reykjavíkur og var Landsbankinn eitt þeirra tólf húsa er eyddust í eldhafinu. Bækur bankans björguðust þó, verðmæt skjöl og peningar.

1916-1925: Bankinn á hrakhólum

Eftir brunann mikla 1915 komst Landsbankinn um tíma í húsaskjól handan götu í Pósthúsinu og Reykjavíkurapóteki þótt þar væri þröngt og óhentugt. Landsbankinn óx þó enn og opnaði útibú á Eskifirði og Selfossi árið 1918 en verðbólga og efnahagserfiðleikar stríðsáranna og mikið verðfall á útflutningsafurðum Íslendinga að henni lokinni settu þó svip á starfsemina fram til 1924. Þá tók bankinn að rétta úr kútnum og opnaði í nýju og enn glæsilegra húsi Guðjóns húsameistara Samúelssonar, prýddu veggmyndum Jón Stefánssonar og Jóhannesar Kjarvals.

1926-1935: Landsins stærsti banki

Haustið 1922 hafði Íslandsbanki misst einkarétt sinn til peningaútgáfu og eftir tveggja ára þóf var þessi eftirsótti réttur fenginn Landsbankanum. Skipuðust þá skjótt veður í lofti svo að Landsbankinn taldist stærsti banki landsins er árið 1927 gekk í garð. Stuttu síðar var hann formlega gerður að þjóðbanka Íslands og hin nýja seðlabankadeild sett við hlið sparisjóðsdeildar og veðdeildar. Þá var svo komið að bankaráð skipuðu fimm manns, fjórir kosnir af Alþingi og sá fimmti - sjálfur formaðurinn - skipaður af ráðherra. Bankinn opnaði sitt fyrsta útibú í Reykjavík árið 1931 og lagði sitt af mörkum til að halda atvinnulífi landsmanna gangandi eftir að heimskreppan teygði anga sína til Íslands.

1936-1945: Kreppa og stríð

Heimskreppan lék Íslendinga grátt en með síðari heimsstyrjöldinni ók hagur Landsbankans heldur betur að vænkast. Höfuðstöðvarnar í Austurstræti stækkuðu með nýrri viðbyggingu er tekin var í notkun sumarið 1940. Þau tímamót urðu nokkru síðar að opinber viðskipti hófust með verðbréf en rétt fyrir jólin 1942 var Kaupþing Landsbanka Íslands opnað. Þenslan var slík á stríðsárunum 1939-1944 að umsetning Aðalbankans í Reykjavík tífaldaðist - sem þakka má hagstæðum viðskiptakjörum Íslendinga við bandamenn.

1946-1955: Haftaárin

Eftir stríðið varð gjaldeyrisskorturinn svo tilfinnanlegur að rétt þótti að leggja margvísleg höft á verslun og viðskipti. Efnahagsvandræðin voru mikil, gengið var fellt en erfiðlega gekk að ráða bót á viðskiptahallanum. Húsnæðisskortur var áberandi, sett voru lög um húsnæðismálastjórn og veðlánadeild bankans var efld til að reyna að ráða bót á ástandinu.

Af ótta við minnkandi hagvöxt studdu stjórnvöld hvað þau gátu við atvinnuvegina - og sáu að síst mátti draga úr framleiðslu sjávarfangs. Í þessu augnamiði var stofnlánadeild sjávarútvegsins sett upp við Landsbankann. Hún var óspör á fé til útgerðarinnar enda tvöfaldaðist hlutur sjávarútvegs af útlánum næstu áratugi - óx úr 23% árið 1941 í 46% árið 1960. Speglaði þessi þróun stóraukinn hlut sjávarútvegs í framleiðslu landsmanna.

1956-1965: Þorskastríð og viðreisnarár

Árið 1957 taldist Landsbankinn það þróttmikill tvíhöfði að rétt væri að kljúfa hann niður í tvo íslenska fjármálarisa - seðlabanka og viðskiptabanka. Fjórum árum síðar var svo endanlega skorið á hin gömlu vensl við Landsbankann með stofnun sjálfstæðs Seðlabanka. Ráðsmennska gamla Landsbankans yfir verslun með gjaldeyri hvarf við þetta alfarið yfir til Seðlabanka sem varð eiginlegt yfirvald banka og sparisjóða í landinu.

Þrátt fyrir aðskilnaðinn efldist móðurbankinn á þessum árum. Austurbæjarútibú fékk nýtt stórhýsi við Laugaveg 77 og Vesturbæjarútibú var opnað í Háskólabíó við Hagatorg. Auk þess átti bankinn, er hér var komið sögu, útibú við Laugaveg 15 og Langholtsveg 43 og þjónaði því höfuðstaðarbúum í fjórum útibúum. Jafnframt var opnað útibú á Húsavík, hið fyrsta á landsbyggðinni síðan 1918.

1966-1975 Kreppa og uppbygging

Á síðari hluta 7. áratugar kreppti að í íslenskum fjármálum. Svo illa viðraði í heimi viðskiptanna, er síldin hvarf á árunum 1967-1968, að verð á útflutningsafurðum fór lækkandi. Stjórnvöld urðu því að fella gengið til að rétta kúrs þjóðarskútunnar, sem kom illa við hrekklausa sparifjáreigendur er kunnu ekki að spila á verðbólguna. Landsbankinn sigldi þó þöndum seglum sem fyrr og efldi þjónustu í dreifbýli og höfuðstað enn með útibúum. Jafnframt fleygði tækninni fram í bankakerfinu. Við upphaf 8. áratugarins tók útgerð landsmanna svo nýjan vaxtakipp með öflugri fjárfestingu í fiskiskipum og vinnslustöðvum, sem lesa má úr útlánasögu Landsbankans.

1976-1985: Ólgandi verðbólga enn

Á áttunda ártugnum missti sparnaður fótanna í gljúpri verðbólgunni. Klókir mötuðu krókinn á kostnað sparifjáreigenda með óverðtryggðum lánum banka og lífeyrissjóða. Lánin brunnu upp á verðbólgubálinu eða hlupu sem ull í þvottavél. Loks var tekið fyrir þetta ófremdarástand með verðtryggingu sparifjár og lánsfjár með svokölluðum "Ólafslögum" árið 1979. Bankarnir reru lífróður til að halda í sparifé landsmanna sem dregið höfðu út fé sitt er þeir sáu það skreppa saman í verðbólgunni. Ekki var síður þörf á að hamla gegn offjárfestingu og óarðbærum framkvæmdum sem þrifist höfðu í skjóli neikvæðra raunvaxta. Verðbólgan geisaði enn en skjaldborg verðtryggingar, er bankarnir reistu um starfsemi sína, dró úr skaða hennar. Gerð var gjaldmiðilsbreyting, ýmiskonar tæknibreytingar riðu yfir í bankakerfinu og þjónusta jókst á sviði fjármála.

1986-1995: Vaxtafrelsi og þjóðarsátt

Lög um viðskiptabanka og sparisjóði 1986 færðu innlánsstofnunum aukið sjálfstæði frá Seðlabankanum. Nú tóku þær sjálfar að ráða inn- og útlánsvöxtum sem og þjónustugjöldum. Frjáls samkeppni varð í sviphendingu staðreynd á sviði fjármála og Landsbankinn kallaði á nýja sérstöðu undir slagorðinu "banki allra landsmanna". Upp úr þessu urðu snögg umskipti í verðlagsmálum landsins sem sýndu sig best í kjölfar kjarasamninganna 1990 sem kenndir eru við þjóðarsátt. Upp úr því hjaðnaði landlæg verðbólgan svo hratt að á síðari hluta árs var hún orðin sem í nálægum löndum. Innlánsstofnanir tóku enda óbeinan þátt í kjarasamningum í byrjun árs með yfirlýsingu um hraðari lækkun nafnvaxta en ella hefði orðið. Tímar langþráðs stöðugleika voru að renna upp. Viðskiptahættir breyttust og urðu nútímalegri og rafræn viðskipti tóku að setja svip á bankastarfsemina.

1996-2008 Landsbanki Íslands hf.

Haustið 1997 hófst einkavæðing bankans er Landsbanki Íslands hf. var formlega stofnaður. Farið var varlega af stað með útboð hlutafjár en stóra skrefið stigið í árslok 2002 er 45,8% hlutur fór til Samson ehf. Þá kusu hluthafar bankaráð, skipað hluthöfum úr hópi einstaklinga, sem starfaði undir forystu Björgólfs Guðmundssonar.

2008 til dagsins í dag

Þann 7. október 2008, samfara versnandi ástandi á fjármálamarkaði, ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir rekstur Landsbankans.

Bankanum var í kjölfarið skipt í tvennt. NBI hf., sem var alfarið í eigu íslenska ríkisins, var stofnaður utan um innlendar innstæður og meirihluta íslenskra eigna gamla bankans. Aðrar eignir og skuldir urðu eftir í Landsbanka Íslands hf., en skilanefnd skipuð af Fjármálaeftirlitinu tók við stjórn gamla bankans af þáverandi bankaráði.

Í desember 2009 var samið um uppgjör Landsbankans (NBI hf.) og Landsbanka Íslands hf. Það fólst í því að sá fyrrnefndi gaf út 247 milljarða króna skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára til hins síðarnefnda, auk þess sem gert var ráð fyrir að gefin yrðu út hlutabréf til gamla bankans.

Með samkomulaginu var þannig gengið frá eignarhaldi Landsbankans. Hluthafarnir urðu nú tveir: Ríkissjóður Íslands eignaðist 81,333% og Landsskil ehf., dótturfélag Landsbanka Íslands hf., 18,667% útgefins hlutafjár, sem var 24 ma. kr. Erlend langtíma fjármögnun var jafnframt tryggð með útgáfu skuldabréfsins. Þetta var gríðarlega mikilvægur þáttur í rekstri bankans og ekki síður fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni.

Í mars 2011 sameinuðust Landsbankinn og Spkef. Starfsmenn Spkef urðu starfsmenn Landsbankans og allur rekstur á ábyrgð hins sameinaða félags.

Á aðalfundi í apríl 2011 var lögheiti bankans breytt í Landsbankinn hf. og nafnið NBI hf. lagt niður

Í mars 2015 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og í september sama ár var samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands samþykktur.


Nokkur mikilvæg ártöl í sögu Landsbankans

 • 1886 Landsbankinn hefur starfsemi. 
 • 1887 Sparisjóður Reykjavíkur sameinast Landsbankanum. 
 • 1899 Landsbankinn flytur í nýtt hús á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. 
 • 1900 Veðdeild tekur til starfa við bankann. 
 • 1902 Fyrsta útibúið opnað - á Akureyri. 
 • 1915 Hús Landsbankans brennur í miðbæjarbrunanum mikla. 
 • 1918 Landsbankinn hefur opnað útibú í öllum landsfjórðungum. 
 • 1924 Bankinn flytur í nýtt og enn stærra hús við Austurstræti. 
 • 1927 Landsbankinn gerður að seðlabanka. 
 • 1928 Starfsmenn Landsbankans koma á fót Félagi starfsmanna Landsbanka Íslands. 
 • 1934 Nýir peningaseðlar Landsbankans settir í umferð. 
 • 1942 Kaupþing Landsbanka Íslands opnað. 
 • 1946 Stofnlánadeild sjávarútvegsins sett á laggirnar við Landsbankann. 
 • 1954 landsbankinn stendur fyrir sparifjársöfnun skólabarna. 
 • 1957 Landsbankanum skipt upp í tvær deildir sem munu í raun starfa sem aðskildir bankar; viðskiptabankinn og seðlabankinn. 
 • 1959 Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn koma sér saman um rekstur bankamannaskóla. 
 • 1960 Stjórnvöld fela gjaldeyrisbönkunum, Landsbankanum og Útvegsbankanum, að sjá um allar gjaldeyrisveitingar. 
 • 1961 Fullur aðskilnaður seðlabanka og viðskiptabanka Landsbankans verður með lögum um sjálfstæðan seðlabanka og seðlabanki Landsbankans því lagður niður. 
 • 1967 Landsbankinn tekur í notkun nýtt og mjög fullkomið vélabókhald sem unnið er í IBM-vélum 360/20. 
 • 1970 Landsbanki Ísland gerist hluthafi í Scandinavian Bank Ltd. í London. 
 • 1976 Útibú Landsbankans á Húsavík tengist sameiginlegum rafreikni bankanna í Reiknistofu bankanna og er það fyrsta bankaútibúið á Íslandi sem er tengt með slíkum hætti. 
 • 1977 Könnun sýnir að nærri hvert mannsbarn í Reykjavík komi tvisvar á mánuði í Landsbankann. 
 • 1980 Fyrsta verkfall bankamanna háð í desember. 
 • 1983 Fimm bankar, þar á meðal Landsbankinn, hafa efnt til samstarfs um greiðslukort undir nafninu VISA Ísland. 
 • 1985 Landsbankinn er einn af stofnaðilum Verðbréfaþings Íslands (Kauphallar Íslands) sem hóf starfsemi á árinu. 
 • Ný lög um viðskiptabanka öðlast gildi en með þeim ákveða innlánsstofnanir sjálfar m.a. alla inn- og útlánsvexti (nema vanskilavexti) og þjónustugjöld. 
 • 1989 Landsbréf stofnað. 
 • 1991 Landsbankinn og Samvinnubankinn sameinast og ákveðið að rekstrarlegri sameiningu bankanna skuli að fullu lokið fyrir árslok. 
 • 1997 Landsbanki Íslands hf. formlega stofnaður. 
 • 1997 Landsbankinn kaupir hlut í VÍS. 
 • 1998 Landsbanki Íslands hf. skráður á VÞÍ (nú Kauphöll Íslands). 
 • 2000 Landsbankinn kaupir 70% hlut í Heritable Bank. 
 • 2001 Starfsemi Landsbankans og Landsbréfa sameinuð. 
 • Tæplega helmingshlutur ríkisins í Landsbanka Íslands hf. var seldur í árslok. Kaupandi var Samson ehf. 
 • 2002 Landsbankinn kaupir 51% hlut í SP-fjármögnun hf. 
 • 2003 Landsbankinn kaupir Landsbanki Luxembourg S.A. 
 • 2005 Landsbankinn stofnar útibú í London og fær starfsleyfi í byrjun árs. 
 • Landsbankinn kaupir breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood í febrúar. 
 • Landsbankinn kaupir 81% hlut í franska verðbréfafyrirtækinu Kepler Equities í september. 
 • Landsbankinn kaupir 50% hlut í írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital í desember.
 • 2008 Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Landsbanka Íslands hf.
 • Landsbankinn, NBI hf. stofnaður og tekur yfir innlenda starfsemi Landsbanka Íslands hf. Landsbankinn, NBI hf. er að fullu í eigu íslenska ríkisins.
 • 2009 Stofnefnahagsreikningur Landsbankans samþykktur. Hluthafarnir nú tveir: Ríkissjóður Íslands með 81,333% og Landsskil ehf., dótturfélag Landsbanka Íslands hf., með 18,667% útgefins hlutafjár, sem var 24 ma. kr.
 • 2011 Landsbankinn og Spkef sameinast. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók Landsbankinn við rekstri Spkef 7. mars 2011.
 • 2015 Í mars 2015 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og í september sama ár var samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands samþykktur.