Dagatal 2012: Sjálfboðastarf

Dagatal Landsbankans árið 2012 er tileinkað þeim sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins með sjálfboðastarfi. Í dagatalinu er brugðið upp mynd af fimmtán sjálfboðaliðum víða um land.

Ómetanlegt sjálfboðastarf

Sjálfboðastarf er ómetanlegt í litlu landi þar sem fólk þarf að leggjast á eitt til að hjálpa náunganum, koma hlutum í verk, byggja upp og skapa gott samfélag. Að gefa vinnu sína er aldagömul hefð og hluti af hagkerfi heimsins. Víða eru samfélög svo smá að allir verða hreinlega að leggja sitt af mörkum. Í stærri byggðum dreifast verkin á fleiri hendur. Allir hafa á einhverju stigi boðið fram vinnu sína. Við gerum það á hverjum degi – jafnvel óafvitandi – með því að aðstoða okkar nánustu, vinnufélaga og vini. En svo eru þeir sem eiga það áhugamál að vinna sjálfboðastarf og gefa enn meiri tíma og orku til samfélagsins.

Dagatal Landsbankans er tileinkað öllum þeim sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins – hver með sínum hætti. Þeir sem vinna sjálfboðastarf eiga það langflestir sameiginlegt að líta á það sem brennandi áhugamál eða baráttumál sem veitir þeim lífsfyllingu og félagsskap. Starfið er í eðli sínu gefandi og sjálfboðaliðarnir njóta ekki síður góðs af því en skjólstæðingarnir. Það getur verið spennandi og skemmtilegt – en líka erfitt og krefjandi. Samfélagið allt á mikið undir því góða starfi sem einstaklingar og frjáls félagasamtök inna af hendi.


Janúar

Æskuvinkonurnar Jóhanna Júlíusdóttir og Þorbjörg Ingvadóttir starfa hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar í hlutastarfi. Hugtakið hlutastarf dugar þó skammt til að lýsa þeirri vinnu sem þær inna af hendi fyrir félagið í baráttu gegn krabbameini.

Hleð inn myndbandi

Febrúar

Gísli Sigmarsson byrjaði ungur í skátunum en hefur frá sextán ára aldri verið í björgunarsveit, fyrst í Vestmannaeyjum en síðar á Vopnafirði. Gísli segir erfitt að slíta sig frá þessu mikilvæga samfélagsstarfi, menn verði hreinlega að leggjast á árarnar.

Hleð inn myndbandi

Mars

Gunnhildur Jóhannsdóttir gekk í Kvenfélagið Hringinn árið 1981 og hefur æ síðan starfað í þágu barna. Seinni ár hefur hún helgað sig prjónaskap og selur á árlegum basar til styrktar Barnaspítala Hringsins.


Apríl

Hjónin Inga Birna Pálsdóttir og Viðar Arason eru samstiga í lífinu. Þau eru virkir félagar í Björgunarfélagi Árborgar og Rauða krossinum og láta ekki sitt eftir liggja að loknum fullum vinnudegi sem leikskólakennari og sjúkraflutningamaður.


Maí

Axel Gústafsson gekk til liðs við Rauða krossinn á Akranesi þegar fjölskylda hans gerðist stuðningsaðili fyrir flóttakonu haustið 2008. Axel hefur einnig verið heimsóknarvinur á vegum Rauða krossins og virkur í KFUM um langt árabil.


Júní

Sigurfljóð Skúladóttir hefur ásamt tólf öðrum konum unnið þýðingarmikið starf á vegum Mæðrastyrksnefndar í Kópavogi. Konurnar opna dyr sínar á hverjum þriðjudegi og veita einstaklingum margvíslega aðstoð.


Júlí

Gunnlaugur Bragi Björnsson kynntist starfi Rauða krossins þegar hann fluttist í höfuðborgina frá Hornafirði sextán ára gamall. Gunnlaugur hefur verið ötull þátttakandi í skyndihjálparhópi Rauða krossins og leitt ungliðastarf hreyfingarinnar.


Ágúst

Þorvaldur Kristinsson hefur verið einlægur baráttumaður fyrir mannréttindum samkynhneigðra í áratugi. Hann var um árabil formaður Samtakanna ´78 og í forystu Hinsegin daga sem fóru sína fyrstu gleðigöngu árið 2000.


September

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur með Sigfús Aðalsteinsson í fararbroddi ákveðið að ráðast gegn eineltisvanda og öðrum samfélagsmeinum með átaki í samvinnu við grunnskóla bæjarins. Yfirskrift átaksins „Stöðvum einelti“ prýðir búninga liðsins.


Október

Embla Ágústsdóttir er baráttukona um jafnrétti fatlaðra og hreyfihamlaðra. Embla er sjálf hreyfihömluð og telur brýnasta réttindamálið að fatlaðir fái að stýra sínu eigin lífi. Hún haldið fyrirlestra og miðlað af reynslu sinni og lífssýn.


Nóvember

Sérhvern þriðjudag allan ársins hring lokar Bergdís Jónsdóttir snyrtistofu sinni og mætir á Dagsetur Hjálpræðishersins. Bergdís þvær og snyrtir fætur heimilislausra skjólstæðinga Hjálpræðishersins og veitir þeim umönnun.


Desember

Feðgarnir Rafn Hafliðason og Gestur Rafnsson frá Patreksfirði hafa látið gott af sér leiða með tónlistarflutningi. Hjónin Rafn og Anna, börn, tengdabörn og barnabörn skipa sextán manna hljómsveit sem haldið hefur tónleika til styrktar góðum málefnum.