Jafnrétti

Landsbankinn hlaut gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC árið 2015 og 2016

Landsbankinn hlaut í mars 2015 gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC, fyrstur banka á Íslandi. Landsbankinn hlaut aftur gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í desember árið 2016.

Gullmerki PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Hjá Landsbankanum er litið svo á að jafnrétti efli bankann og styrki stöðu hans í samkeppni um góða starfsmenn.

Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC er veitt fyrirtækjum þar sem launamunur kynja er innan við 3,5% og staðfestir viðurkenningin því að launamunur kynja hjá Landsbankanum er innan þeirra marka.

Í Jafnlaunaúttekt PwC er gerð grein fyrir mun á grunnlaunum, föstum launum og heildarlaunum eftir kyni, þar sem tekið er mið af aldri, starfsaldri, menntun, starfaflokki, stöðu í skipuriti og vinnustundum. 


Órofa hluti af starfsmannastefnu Landsbankans

Jafnréttisstefna Landsbankans er órofa hluti af starfsmannastefnu bankans. 

Lykilforsendur fyrir framúrskarandi árangri og góðum vinnustað eru þær að hver starfsmaður er metinn á eigin forsendum og að allir eiga jafna möguleika óháð kynferði, aldri, uppruna, kynhneigð, fötlun, trúarbrögðum eða annarrar menningarlegrar stöðu.

Bankinn setti sér sömu markmið og sett voru í samstarfssamningi Félags kvenna í atvinnurekstri, Samtaka atvinnulífs og Viðskiptaráðs Íslands frá maí 2009, þar sem tryggt skal að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40% í forystusveit fyrirtækja.

Hlutfall kynja í framkvæmdastjórn Landsbankans er jafnt en við bætist einn karlkyns framkvæmdastjóri frá Landsbréfum.

Innan bankans er starfrækt jafnréttisnefnd og Landsbankinn hefur unnið markvisst að því að efla jafnræði innan bankans undanfarin ár.

 


Kynjahlutföll stjórnenda og starfsmanna í lok árs 2016


Starfsfólk í fæðingarorlofi árið 2016 - skipt eftir kynjum

Nýráðnir starfsmenn í árslok 2016
  2013 2014 2015 2016 Breyting frá 2015
Meðalfjöldi kvenna í fæðingarorlofi 24,4 15,6 16,8 16,3 -3%
Meðalfjöldi karla í fæðingarorlofi 9,0 8,3 7,0 6,2 -11%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - konur 42,0 55,5 58,5 58,3 0%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - karlar 27,3 20,1 16,8 16,0 -4%

Á árunum 2015-2016 hefur hlutfall kvenna sem taka fæðingarorlof staðið í stað. Örlítil fækkun hefur orðið á þeim fjölda karla sem taka fæðingarorlof og það fæðingarorlof sem karlar taka er áfram mun styttra en kvenna.


Fræðslustundir eftir starfsheiti og kyni árið 2016

 

Landsbankinn leggur áherslu á að konur og karlar í hópi starfsmanna hafi sömu tækifæri til þátttöku í námi og fræðslu. Myndin sýnir meðalfjölda fræðslustunda eftir starfsheitum og kyni. Lítill munur er á fjölda fræðslustunda kynjanna en þó hafa karlar sótt fræðslu í sem nemur 1,7 klst. umfram konur. Kynjamunur á meðalfjölda fræðslustunda eftir starfsheiti liggur á talsvert breiðu bili, eða 0,32 – 12 klst.


Kynjamunurinn er mestur á meðal sérfræðinga í framlínu (karlar með 12 klst. umfram konur) og þjónustustjóra (konur með 9,37 klst. umfram karla). Karlar í hópi deildarstjóra sækja meiri fræðslu en konur en því er öfugt farið í hópi forstöðumanna. Í hópi sérfræðinga í höfuðstöðvum sækja karlar umtalsvert fleiri fræðslustundir en konur, eða 8 klst.


Nýráðningar í Landsbankanum 2016 - skipt eftir kynjum

Af nýráðnum starfsmönnum í árslok 2015 voru um 54 % konur og 46 % karlar.

Lausráðnir starfsmenn eru starfsmenn sem eru að hefja störf hjá Landsbankanum en þeir fá fastráðningu eftir 3 til 6 mánuði.

 

 

Jafnréttissáttmálinn

Landsbankinn hefur skrifað undir Jafnréttissáttmálann, alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. 

Nánar um Jafnréttissáttmálann