Fréttir

- Samfélagsmál

Skólar fá tölvubúnað til að auðvelda talþjálfun

Landsbankinn hefur fært nokkrum leikskólum og skólum að gjöf notaðan en nýlegan tölvubúnað með innbyggðri myndavél sem notaður verður við talþjálfun fyrir börn og fullorðna í gegnum fjarbúnað. Leikskólar á sjö stöðum, einn grunnskóli og eitt hjúkrunarheimili fá búnað til þessara nota. Verkefnið er unnið í samstarfi við ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið Tröppu en talmeinafræðingar á þeirra vegum hafa veitt rúmlega 100 börnum talþjálfun.

Fjórir leikskólar og einn grunnskóli á Vestfjörðum fá búnað en þeir eru Araklettur á Patreksfirði, Tjarnarbrekka á Bíldudal, Lækjarbrekka á Hólmavík og Tjarnarbær á Suðureyri en einnig fær Grunnskólinn á Suðureyri tölvubúnað. Leikskólinn Gefnarborg í Garði, Leikskólinn á Stokkseyri og Lindarborg og Njálsborg í Reykjavík (hluti af leikskólanum Miðborg) fá einnig tölvubúnað að gjöf. Loks fær Hjúkrunarheimilið Mörk í Reykjavík tölvubúnað.

Landsbankinn endurnýjar tölvubúnað reglulega og hefur í gegnum tíðina fært ýmsum skólum, samtökum eða stofnunum tölvubúnað að gjöf. Stefna bankans er að tölvubúnaður sem bankinn gefur komi fyrst og fremst að gagni í skólum landsins eða í verkefnum sem unnin eru í samstarfi við skólana.

Tölvugjöf
Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans færir Erlu Ósk Sævarsdóttur aðstoðarleikstjóra á leikskólanum Miðborg tölvubúnað sem nýttur verður til talþjálfunar.

Talþjálfun með fjarbúnaði afar gagnleg

Ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið Trappa býður upp á talþjálfun fyrir börn og fullorðna í gegnum fjarbúnað. Talþjálfun hefur verið veitt í mörg ár í Bandaríkjunum með aðstoð tölvu og er nú orðin að veruleika á Íslandi. Einstaklingar setjast niður í leik- eða grunnskóla, heima eða á stofnun og geta talað við talmeinafræðing þar sem þeir hafa aðstöðu. Aðgengi eykst til muna og tími talmeinafræðinga og aðstandenda nýtist betur. Þá yfirfærist þekking sérfræðinga til starfsfólks í skólum og heilbrigðisstofnunum sem eiga í samstarfi við Tröppu.

Löggiltir talmeinafræðingar Tröppu hafa síðastliðið ár veitt börnum með framburðar- og/eða málþroskafrávik þjálfun í gegnum netið. Við fjarþjálfunina starfa auk þess náms- og starfsráðgjafi, atferlisfræðingur, sálfræðingur, íslenskukennari og sérkennari hjá Tröppu. Rúmlega 100 börn hafa fengið aðstoð hjá Tröppu, mest hjá talmeinafræðingum. Rannsóknir hafa sýnt að notkun fjarþjálfunar við meðferð á málþroskafrávikum, raddmeinum og stami gefur góða raun.

Þessar stofnanir fengu búnað til að auðvelda talþjálfun

  • Leikskólinn Araklettur á Patreksfirði
  • Leikskólinn Tjarnarbrekka á Bíldudal
  • Leikskólinn Lækjarbrekka á Hólmavík
  • Leikskólinn Tjarnarbær á Suðureyri
  • Grunnskólinn á Suðureyri
  • Leikskólinn Gefnarborg í Garði
  • Leikskólinn á Stokkseyri
  • Lindarborg (hluti af leikskólanum Miðborg) í Reykjavík
  • Njálsborg (hluti af leikskólanum Miðborg) í Reykjavík
  • Hjúkrunarheimilið Mörk í Reykjavík

Samfélagsmál - 19. júní 2020 11:17

„Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ í útibúum Landsbankans

Þann 17. júní fengu landsmenn bréf með yfirskriftinni „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ sent í aldreifingu með Morgunblaðinu. Fleiri eintök er m.a. hægt að nálgast í útibúum Landsbankans um allt land.


Nánar

Samfélagsmál - 02. júní 2020 11:17

Lindaskóli varði titilinn í Skólahreysti

Lindaskóli í Kópavogi sigraði Skólahreysti 2020 og vann þar með keppnina annað árið í röð. Úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 30. maí og var æsispennandi allt til enda.


Nánar