Fréttir

- Samfélagsmál

Skólahreysti Landsbankans hefst í dag


Keppendur og stuðningshópur Holtaskóla fagna sigri í Skólahreysti 2015.

Skólahreysti Landsbankans – hreystikeppni grunnskólanna – verður haldin í tólfta sinn á næstu vikum með þátttöku 110 grunnskóla af öllu landinu. Undankeppni Skólahreysti hefst í Reykjanesbæ í dag, fimmtudaginn 3. mars en henni lýkur á Egilsstöðum fimmtudaginn 31. mars.

Landsbankinn er áfram aðalbakhjarl Skólahreysti og þættir um undankeppnina verða sýndir á RÚV í mars og apríl. Úrslitakeppni tólf skóla sem ná bestum árangri verður í Laugardalshöll miðvikudaginn 20. apríl í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.

„Það hefur verið leiðarljós keppninnar frá upphafi að hvetja börn og unglinga um allt land til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun. Skólahreysti snýst ekki bara um að sigra eða vera bestur heldur að þroska andlegt og líkamlegt atgervi samhliða því að efla félagsleg samskipti kennara, nemenda og foreldra,“ segja hjónin Andrés Guðmundsson og Lára B. Helgadóttir, stofnendur Skólahreysti.

„Skólahreysti hefur vaxið og dafnað á síðustu árum og verið börnum og unglingum mikil hvatning. Við í Landsbankanum höfum lagt mikla áherslu á að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf og erum stolt af stuðningi okkar við keppnina síðustu ár,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.

Keppnin í ár er sú tólfta en fyrsta Skólahreystimótið var haldið vorið 2005. Vel yfir 600 krakkar keppa fyrir hönd skóla sinna og nokkur þúsund krakkar eru virk í litríkum stuðningsliðum. Fjölmargir nemendur taka þátt í valáföngum um Skólahreysti en um 70 skólar bjóða upp á slíka áfanga.

Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og Ólympíusambandsins.

Nánar um Skólahreysti?

Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Í hverju liði eru tveir strákar og tvær stelpur sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk. Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum:

  • Upphífingum (strákar)
  • Armbeygjum (stelpur)
  • Dýfum (strákar)
  • Hreystigreip (stelpur)
  • Hraðaþraut (strákar og stelpur)

Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum: Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip, en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip, en þar takast á fimm til átta skólar í einu. Í hraðaþrautinni fer stelpan fyrst af stað og þegar hún lýkur hringnum má strákurinn fara af stað í sinn hring. Samanlagður tími þeirra er keppnistími liðsins.

Þar sem mikill fjöldi skóla tekur þátt í keppninni er nauðsynlegt að halda undankeppnir til að ákvarða hvaða skólar keppa í úrslitakeppninni sjálfri í lok keppnistímabilsins. Undanriðlar eru tíu talsins og eru þær svæðisbundnar, þ.e. skólar frá sama landssvæði keppa innbyrðis sín á milli.

Dagskrá og nánari upplýsingar um Skólahreysti Landsbankans 2016

Samfélagsmál - 19. júní 2020 11:17

„Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ í útibúum Landsbankans

Þann 17. júní fengu landsmenn bréf með yfirskriftinni „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ sent í aldreifingu með Morgunblaðinu. Fleiri eintök er m.a. hægt að nálgast í útibúum Landsbankans um allt land.


Nánar

Samfélagsmál - 02. júní 2020 11:17

Lindaskóli varði titilinn í Skólahreysti

Lindaskóli í Kópavogi sigraði Skólahreysti 2020 og vann þar með keppnina annað árið í röð. Úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 30. maí og var æsispennandi allt til enda.


Nánar