Fréttir

- Samfélagsmál

Landsbankinn veitir fimm milljónum króna í umhverfisstyrki

Fjórtán verkefni fengu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans í gær. Sex verkefni hlutu 500 þúsund krónur hvert og átta verkefni 250 þúsund krónur, samtals fimm milljónir króna. Alls hafa um sextíu verkefni hlotið umhverfisstyrki á síðustu fjórum árum, samtals 20 milljónir kr. Þetta er í fjórða sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans. Í ár bárust um 90 umsóknir.

Skoða stærri mynd
Árlegir umhverfisstyrkir Landsbankans voru afhentir 30. júní. Hér má sjá styrkþega eða fulltrúa þeirra ásamt Guðrúnu Pétursdóttur, formanni dómnefndar, lengst t.v. og Jensínu Kristínu Böðvarsdóttur framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum t.h.

Umhverfisstyrkjum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Þessir styrkir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum saman við rekstur sinn.

Dr. Guðrún Pétursdóttir formaður dómnefndar segir um styrkveitingu ársins: „Það er ánægjulegt að sjá hvað margir eru að vinna að mikilvægum verkefnum á sviði náttúruverndar um land allt og ánægjulegt að Landsbankinn leggi slíkri starfsemi lið. Ég fagna þessu framtaki og þakka öllum þeim sem sendu inn umsóknir um leið og ég óska þeim velfarnaðar.“

Jensína Kristín Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum segir: „Það er stefna Landsbankans að vinna í sátt við umhverfið. Umhverfisstyrkir eru ein leið bankans til að verðlauna góðar hugmyndir og leggja þeim lið sem vilja gera vel í umhverfismálum og náttúruvernd.“

Samfélagssjóður Landsbankans veitir ferns konar styrki á hverju ári: Námsstyrki, nýsköpunarstyrki, samfélagsstyrki, og umhverfisstyrki og afreksstyrkir eru veittir annað hvert ár.

Í dómnefnd sátu: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Eftirtaldir hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans að þessu sinni:

500 þúsund króna styrkir

 • Eyvindur ehf. – Rannsóknir á allt að tíu þjóðleiðum á Vesturlandi og ritun leiðarlýsinga með upplýsingum um náttúru, sögu og staðarhætti.
 • Landeigendur í Mörtungu í Skaftárhreppi – Bætt aðgengi að Fagrafossi, sem er mjög vinsæll áningarstaður við Lakaveg.
 • K. Hulda Guðmundsdóttir – Þróun á búnaði til forvarna vegna mögulegra gróðurelda á sumarhúsasvæðinu Fitjahlíð í Skorradal.
 • Landvernd – Þróun viðmiða fyrir Bláfánaveifu sem er viljayfirlýsing um góða umgengni á sjó, við strendur og í höfnum sem hvalaskoðunarfyrirtæki geta skrifað undir.
 • Samtökin Vakandi – Til að vinna að vitundarvakningu um sóun matvæla með gerð heimildarmyndar um málefnið.
 • Vinir Þjórsárvera – Til að stika gönguleið meðfram fossaröðinni í Þjórsá frá vegi að Dynk og Gljúfurleitarfossi og upp á veg.

250 þúsund króna styrkir

 • Brimnesskógar – Ræktun Brimnesskóga í Skagafirði en eingöngu er notað landnámsbirki og reyniviður sem vaxið hefur í Skagafirði frá öndverðu.
 • Framkvæmdahópur um verndun á náttúruperlum Skaftárhrepps – Verndun landsvæðis við Fjaðrárgljúfur sem er vinsæll áfangastaður vestan Kirkjubæjarklausturs.
 • Frístundaheimilið Draumaland – Verkefnið „Blómin á þakinu“ en markmið þess er að gefa börnum í Draumalandi innsýn í borgarbúskap, ræktun plantna og matjurta.
 • Guðmundur Örn Sverrisson – Til að koma á fót upplýsingamiðstöð á vefnum um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls og nærliggjandi svæði.
 • Helgi Torfason – Til að semja náttúrulýsingu Esju og nágrennis og lýsa gönguleiðum á svæðinu.
 • Hollvinasamtök Húna II – Til að gera skipið Húna II umhverfisvænna með því að setja í bátinn rotþró og endurnýja salerni með viðeigandi búnaði.
 • Kvenfélagið Iðunn – Til að bæta aðgengi að Vigdísarlundi á Borðeyri. Markmiðið er að koma upp varanlegri gönguleið að lundinum, vernda viðkvæma gróðurþekju og auka á virðingu staðarins.
 • Landeigendur á Daðastöðum – Til að vernda ræktarlönd í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu með girðingum. Landeigendur hafa stundað landgræðslu undanfarin 32 ár og hafa girt af 700 hektara lands og friðað fyrir beit.


Samfélagsmál - 19. júní 2020 11:17

„Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ í útibúum Landsbankans

Þann 17. júní fengu landsmenn bréf með yfirskriftinni „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ sent í aldreifingu með Morgunblaðinu. Fleiri eintök er m.a. hægt að nálgast í útibúum Landsbankans um allt land.


Nánar

Samfélagsmál - 02. júní 2020 11:17

Lindaskóli varði titilinn í Skólahreysti

Lindaskóli í Kópavogi sigraði Skólahreysti 2020 og vann þar með keppnina annað árið í röð. Úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 30. maí og var æsispennandi allt til enda.


Nánar