Örugg innskráning

Örugg innskráning (SSL)

Þegar þú opnar netbanka einstaklinga eða netbanka fyrirtækja af vefsíðu Landsbankans sendir vafrinn notandanafn þitt og lykilorð yfir netið frá þinni tölvu til netþjóns okkar með EV SSL-tækninni (Extended Validation Secure Sockets Layer). EV SSL dulkóðar þessar upplýsingar áður en þær leggja af stað frá tölvunni þinni, og tryggir þannig að enginn annar en vefþjónn Landsbankans geti lesið þær.

EV SSL öryggisskírteini veita notendum og rekstraraðilum vefsvæða aukna vernd með því að krefjast þess að útgefendur öryggisskírteina (CA) þriðja aðila fylgi ströngum útgáfu- og rekstrarferlum, sem skilgreindir eru af CA/Browser Forum.

Kostir EV SSL öryggisskírteinisins

Vafrinn ber kennsl á vefsvæðið og eiganda þess og því sjá notendur með skýrum hætti við hvern þeir eru að skipta.

Vafrinn sýnir að vefurinn hefur verið staðfestur af áreiðanlegum, löggiltum útgefanda EV skírteina með birtingu nafns útgefanda öryggisskírteinisins.

Notendur sjá strax ef þeir flytjast af staðfestu EV vefsvæði og lenda á fölsku vefsvæði, þar sem vafrinn mun þá ekki lengur birta staðfestingu á því að um öruggt vefsvæði sé að ræða.

Er tengingin örugg?

Eftir innskráningu getur þú aðgætt hvort netbankatenging þín sé tryggð með EV SSL skírteini. EV öryggi birtist með ólíkum hætti eftir því hvaða vafra þú notar:

Google Chrome

Í Chrome birtist nafn eiganda vefsins(Landsbankinn hf) ásamt lás á grænum bakgrunni, auk þess sem stafirnir „https“ verða grænir. Ef smellt er á hengilásinn opnast gluggi með upplýsingum um skírteinið og útgefanda þess. Stafirnir "https://" birtast einnig í byrjun vefslóðarinnar.

Safari

Í Safari birtist nafn eiganda vefsins (Landsbankinn hf) með grænu letri ásam lás í veffangsstikunni. Ef smellt er á nafn eiganda vefsins eða á hengilásinn opnast gluggi með upplýsingum um skírteinið og útgefanda þess.

Mozilla Firefox

Í Firefox birtist nafn eiganda vefsins (Landsbankinn hf (IS)) með grænu letri vinstra megin í veffangsstikunni. Ef smellt er á nafn eigandans opnast gluggi með upplýsingum um skírteinið og útgefanda þess. „Stafirnir https://“ birtast einnig í byrjun vefslóðarinnar

Internet Explorer 11

Í Internet Explorer 11 verður veffangsstikan græn auk þess sem lás birtist hægra megin í stikunni. Ef músarbendlinum er haldið yfir reitnum með nafni eiganda vefsvæðisins birtist gluggi með upplýsingum um útgefanda öryggisskírteinisins. Stafirnir „https://“ birtast einnig í byrjun vefslóðarinnar.

Microsoft Edge

Í Microsoft Edge birtist nafn eiganda vefsins (Landsbankinn hf [IS]) með grænu letri ásamt lás vinstra megin í veffangsstikunni. Ef músarbendlinum er haldið yfir reitnum með nafni eiganda vefsvæðisins birtist gluggi með upplýsingum um útgefanda öryggisskírteinisins.