Tölvupóstur og SMS

Svik í gegnum tölvupóst og smáskilaboð

Vefveiðar

Vefveiðar (e. phishing) er það kallað þegar svikarar senda tölvupósta eða smáskilaboð með það fyrir augum að komast yfir upplýsingar. Skilaboðin geta virst vera frá viðskiptabankanum þar sem óskað er eftir því að spurningum er lúta að öryggisupplýsingum viðtakanda sé svarað. Í sumum tilfellum innihalda skilaboðin einnig vefslóð og ef smellt er á hlekkinn og öryggisupplýsingar slegnar inn geta svikarar komist yfir þær upplýsingarupplýsingar.

Smáskilaboð geta falið í sér beiðni um að viðskiptavinur hringi í tiltekið símanúmer og því haldið fram að um sé að ræða viðskiptabanka viðtakanda. Oft kostar meira að hringja í númerið en venjulegt símanúmer og það tengir þig beint við fjársvikara. Svikarar geta einnig sent þér smáskilaboð um að þú munir innan skamms fá símtal frá viðkomandi fyrirtæki. Til þess að láta smáskilaboðin líta út fyrir að vera ósvikin, nota fjársvikarar sérstakan hugbúnað sem breytir auðkenni sendandans þannig að nafn viðkomandi fyrirtækis birtist sem sendandi. Textinn getur þannig birst á smáskilaboðaþræði sem fyrir er í símanum þínum frá viðkomandi fyrirtæki. Í reynd er það samt svikarinn sjálfur sem hringir og reynir að komast yfir öryggisupplýsingar þínar.

Einnig hefur borið á að tilraunir til svika felast í því að brotist er inn í tölvupóstsamskipti milli tveggja fyrirtækja eða jafnvel innan fyrirtækis og reynt að fá starfsmann fyrirtækis til að millifæra inn á ranga bankareikninga. Þessar tilraunir hafa einkum verið gerðar í tengslum við viðskipti á milli landa. Afar erfitt getur reynst fyrir fyrirtæki sem millifærir fjármuni inn á ranga erlenda bankareikninga að endurheimta fjármunina.

Besta vörnin við svikum sem þessum er að fá ávallt staðfestingu með því að hringja beint í tengil hjá viðkomandi fyrirtæki áður en upplýsingar eru sendar með tölvupósti eða smáskilaboðum eða breytingar gerðar á bankareikningum.

Spilliforrit

Algengt er að reynt sé að blekkja fólk með trúverðugum skilaboðum í tölvupósti sem líta út eins og þau séu frá lögmætum fyrirtækjum. Markmið skilaboðanna eru hins vegar að fá þig til að smella á slóð, hlaða niður hugbúnaði fjársvikara eða opna viðhengi og þannig komast yfir upplýsingar eða fjármuni.

Hvernig má koma í veg fyrir svik sem þessi?

  • Verndaðu tölvuna þína, síma og spjaldtölvur með því að sækja og setja upp nýjustu hugbúnaðar- og öryggisuppfærslur.
  • Afritaðu mikilvæg skjöl og vistaðu fyrir utan þitt eigið netkerfi.
  • Hafðu varann á þér þegar þú opnar viðhengi, slóð í tölvupósti eða smáskilaboð sem þú átt ekki von á eða ert óviss um.
  • Ekki deila öryggisupplýsingummeð öðrum s.s. í svari við tölvupóstum, smáskilaboðum eða á vefsíðu sem þú hefur fengið aðgang að í gegnum tölvupóst eða smáskilaboð.
  • Ef tilkynnt er um breytingar á greiðsluupplýsingum eða óskað er eftir millifærslu af bankareikningum í gegnum tölvupóst er mikilvægt að leita staðfestingar, s.s. með símtali til viðkomandi fyrirtækis. Staðfesting með tölvupósti er aldrei nægjanleg.

Hafðu samband

Ef þú telur að þú hafir orðið fyrir fjársvikum hvetjum við þig til að láta okkur vita og eftir atvikum kæra málið til lögreglu.

Þú getur sent tölvupóst til Þjónustuvers í netfangið landsbankinn@landsbankinn.is eða hringt í síma 410 4000.

Verum vakandi

Landsbankinn vill stuðla að auknu netöryggi. Á sérstöku svæði á Umræðunni má finna aðgengilega umfjöllun um netöryggi og ráðleggingar um hvernig forðast má netsvik.

Lesa á Umræðunni