Engin spurning að semja svör

Leiðbeiningar um samningu svara við öryggisspurningum

Að svara svonefndum öryggisspurningum til að komast á læsta vefsíðu á borð við netbanka er ein tegund auðkenningar. Rétta svarið má vissulega ekki vera hægt að finna á netinu. Þess vegna ber að semja svörin á þann veg að svarið byggi á upplifun eða tilfinningu. Hér að neðan eru góð ráð um samningu svara og gilda þau jafnt um netbanka sem aðrar læstar þjónustuveitur.


Hvert er vandamálið?

Við auðkenningu er gjarnan spurt um uppáhalds leikara eða fallegasta blómið en ekki nafnið á fyrsta skólanum. En jafnvel það er ekki nóg. Fólk tjáir skoðun sína á eftirlætis ljóðskáldi eða mest pirrandi leikara á netinu eða öðrum opnum vettvangi – og það hamlar notkun öryggisspurninga. Fyrir vikið eru öryggisspurningar ekki fyrsti valkostur þjónustuveitenda, þeim er sjaldnast beitt nema í algjörri neyð, þegar aðrar leiðir þrýtur.


Frumleg svör eru málið

Lausnin á vandanum er að semja svar sem hefur nákvæmlega ekkert með spurninguna að gera. Ímyndum okkur spurninguna Hvar fékkstu fyrsta kossinn? sem er klassísk. Þá má svarið vera til dæmis Vá ég get flogið!. Enginn er að fara að giska á svarið eða finna það á netinu – því að það er úr algjöru samhengi við spurninguna. Veitum athygli að í huga notandans er svarið að vissu leyti satt og rétt, honum kannski raunverulega leið eins og hann gæti flogið við þennan minnisstæða atburð. Slík hugrenningatengsl hjálpa okkur að muna “rétta” svarið.

Bjóði þjónustuveitandi ekki uppá tilfinningatengdar spurningar eða býður einfaldlega uppá fáar spurningar, skaltu samt semja samhengislaust svar. Þú getur notað sama svarið við öllum spurningum, svo fremi að svarið sé ómögulegt að giska á.

Víða hefur myndast sú áhugaverða menning að nota frasa úr bíómyndum sem er óráðlegt. Meira að segja á Íslandi er fyrirsjáanlegt að notendur myndu velja eitthvað á borð við: Þungur hnífur, Dúfnahólar 10, Fru Stella jeg tharf ekki sjuss og svo framvegis.

Gjarnan nota þjónustuveitendur öryggisspurningar eingöngu í símasamskiptum við notandann. Þá gildir einu hvort hvort notuð eru sértákn eins og upphrópunar- og spurningamerki. Að öðru leyti er galdurinn fólginn í því að velja samhengislaust svar, setningarbrot eða stutta setningu sem auðvelt er að muna – og auðvitað, ef aðstæður leyfa, að hagnýta okkar hjartfólgnu og ylhýru séríslensku stafi.

Netbanki einstaklinga

Netbanki fyrirtækja

Umræðan

Á undanförnum árum hefur tilraunum til fjársvika á netinu fjölgað umtalsvert. Landsbankanum er mikið í mun að vara viðskiptavini sína og aðra við þeim hættum sem af slíkri glæpastarfsemi stafa.

Af því tilefni hafa sérfræðingar bankans birt greinar um netöryggi á Umræðunni, frétta- og efnisveitu Landsbankans. Í greinunum er fjallað um bestu venjur í tölvunotkun, breyttar áskoranir í við-skiptaháttum á netinu, vernd á réttindum notenda og margt fleira sem höfðar jafnt til einstaklinga og fyrirtækja.

Örugg meðhöndlun upplýsinga

Þegar þú opnar netbankann af vefsíðu Landsbankans sendir vafrinn notandanafn þitt og lykilorð yfir netið frá þinni tölvu til netþjóns bankans með SSL tækninni (Secure Sockets Layer). SSL dulkóðar upplýsingarnar áður en þær flytjast yfir af þinni tölvu, og tryggir þannig að eingöngu vefþjónn Landsbankans getur lesið þær.