API-vörur

API-vörur Landsbankans gera bankanum kleift að eiga í virku samstarfi við fyrirtæki á fjártæknimarkaði. Þannig býður bankinn viðskiptavinum að njóta sérsniðinna fjártæknilausna í opnu bankakerfi.

Skapaðu nýja vöru með þjónustum okkar

API-vörur Landsbankans eru aðgengilegar á markaðstorgi bankans. Aðilar á fjártæknimarkaði geta þar hagnýtt mismunandi vörur og skapað ný viðskiptatækifæri með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Eftirfarandi vörur eru aðgengilegar á markaðstorginu sem er í sífelldri þróun og fleiri lausnir munu verða aðgengilegar þar.

Samningsbundnar API-vörur

  • A2A-greiðslulausn (millifærslur): Greiðslulausnin gerir viðskiptavinum bankans kleift að gefa greiðslufyrirmæli í appi eða á vef frá þriðja aðila, fyrir allt að 200.000 krónur á sólarhring. Viðskiptavinur bankans getur þannig til dæmis notað app frá þriðja aðila til að millifæra íslenskar krónur af bankareikningi hjá Landsbankanum inn á bankareikninga hjá innlendum bönkum án þess að nota debet- eða kreditkort. Með sömu aðferð má greiða beint út af bankareikningi með því að bera símann að posa úti í búð.

    Landsbankinn lítur svo á að um langtímasamband sé að ræða og vill aðstoða fyrirtæki á fjártæknimarkaði sem hafa einsett sér að sækja fram á þessum vettvangi. Greiðslulausnin er því ætluð fyrirtækjum sem eru að undirbúa sig fyrir ný lög um greiðsluþjónustu, PSD2, og hyggjast sækja um leyfi sem greiðsluvirkjendur samkvæmt þeim (PISP). Þá þurfa þau að uppfylla önnur skilyrði bankans svo sem um fjárhagslegt hæfi, öryggisþætti hugbúnaðalausnar og orðsporsáhættu. Landsbankinn hefur einnig ávallt til hliðsjónar stefnu um samfélagslega ábyrgð og góða viðskiptahætti. Gjaldtaka er samkvæmt verðskrá Landsbankans.

    Greiðslulausnin er tímabundin þar til PSD2 löggjöfin kemur. Þá munu ítarlegri en áþekkar API-vörur koma í stað þessara.

Ósamningsbundnar API-vörur

  • Gjaldmiðlagengi: Sýnir gengi gjaldmiðla með 15 mínútna seinkun.
  • Vaxtakjör: Sýnir inn- og útvaxtakjör Landsbankans.
  • Verðskrá: Sýnir gildandi verðskrá bankans hverju sinni.

Nánari tækniupplýsingar eru á markaðstorgi Landsbankans.

Markaðstorg

Hvað er API?

API stendur fyrir Application Programming Interface sem má útleggja sem forritaskil. API er viðmót sem bankinn býður upp á fyrir ytri aðila til að tengja sig á móti með það að markmiði að þróa nýjar vörur og þjónustu fyrir viðskiptavina Landsbankans og aðra.

Fjármálaþjónusta á tímamótum

Í ársbyrjun tók gildi í Evrópusambandinu ný tilskipun um greiðsluþjónustu (PSD2) sem felur í sér miklar breytingar á umhverfi bankastarfsemi og hvernig fólk og fyrirtæki geta framkvæmt bankaviðskipti. Hvað felst í þessum breytingum og eru bankar og almenningur tilbúin fyrir þær?

Lesa á Umræðunni