Fréttir

31. maí 2016 13:00

Nýjung í B2B: Hægt er að stofna kröfur í nafni annars kröfuhafa

Í vetur tók gildi ný virkni í Landsbankaskema (B2B skema) sem nefnd er umboðsinnheimta. Hún felst í því að fyrirtæki B getur stofnað innheimtukröfur fyrir hönd fyrirtækis A með notanda fyrirtækis B en ekki A eins og venjan hefur verið frá öndverðu.

Ennfremur getur fyrirtæki B:

  • Breytt kröfum fyrir hönd fyrirtækis A
  • Veitt greiðslufrest fyrir hönd fyrirtækis A
  • Framkvæmt kröfufyrirspurnir fyrir hönd fyrirtækis A
  • Lesið kröfugreiðslur (innborganir) fyrir hönd fyrirtækis A
  • Niðurfellt kröfur fyrir hönd fyrirtækis A

Fyrirtæki A er áfram kröfuhafi en fyrirtæki B er umboðsaðili af því að það hefur umboð til að koma fram í nafni kröfuhafa.

Hingað til hefur gilt, að umboðsaðilinn hefur þurft að innskrá sig með sérstökum gestanotanda í eigu kröfuhafa (fyrirtækis A). Það þýðir að ef umboðsaðilinn sýslar með kröfusafn fjölda annarra fyrirtækja, hefur hann hingað til þurft að innskrá sig í kerfi bankans jafn oft og fjöldi kröfuhafa segir til um. Nú þarf umboðsaðilinn því eingöngu að innskrá sig einu sinni með eigin notanda.

Nýja virknin í hnotskurn

Frá upphafi B2B hefur kennitala kröfuhafa verið skilyrt svæði í B2B skeytum og einungis mátt setja innskráðu kennitöluna í það svæði. Breytingin nú er tvíþætt:
  • Setja má aðra kennitölu í svæðið “kenni­tala kröfu­hafa” og
  • Lands­bankinn heldur utan um svonefndan hvítlista (e. White-list) yfir kröfuhafa sem umboðsaðilinn hefur aðgang að

Umboðið þarf ekki endilega að spanna allar innheimtuþjónustur kröfuhafans. Útfærslan er sveigjanleg og býður m.a. uppá að umboðsaðili megi aðeins sýsla með eina tiltekna innheimtuþjónustu kröfuhafans eða tiltekið safn innheimtuþjónusta.

Þannig getur kröfuhafi haft marga umboðsaðila á sinni könnu, einn með hverja innheimtuþjónustu. Af öryggis- og hagkvæmnisástæðum getur aðeins einn umboðsaðili verið skráður á eina og sömu innheimtuþjónustuna.

Lausnin er útfærð án skemabreytingar í þeim mikilvæga tilgangi að lágmarka tæknilegar aðgangshindranir og þar með kostnað viðskiptavina. Fyrri útfærsla verður auðvitað áfram í boði og viðskiptavinir velja þann háttinn sem betur hentar.

Hverjum hentar þessi snilld?

Lausnin þjónar stórum hópi viðskiptavina en tilgangur hennar er þó að koma til móts við einkum tvenns konar notkunarþarfir:
  • Annars vegar skyld félög sem stofna kröfur í hvers annars nafni (móður-/dóttur-/systurfélög).
  • Hins vegar verktaka sem stofna kröfur fyrir hönd sinna viðskipta­vina (innheimtufélög, bókhaldsþjónustur o.þ.h.).

Ástæða þess að lausnin virkar ekki í sambankaskema (B2Bws, IOBWS) er að í þeim skeytum er kennitölu kröfuhafa sjaldnast að finna.

Óbreyttir samningar og umsóknarferli

Núverandi samningur kröfuhafa og umboðsaðila við bankann taka engum breytingum enda er viðskiptasambandið ekki að breytast, heldur einungis tæknin sem notuð er. Sem fyrr hafa áhugasöm fyrirtæki samband við Fyrirtækjamiðstöð í síma 410 5000 eða næsta útibú.

Fréttasafn


B2B - 24. mars 2020 10:48

Breyting á dráttarvaxtareglum

Miðvikudaginn 25. mars verður gerð breyting á dráttarvaxtareglum og samhliða verður þeim fækkað úr tólf í sjö.


Nánar