Fréttir

27. janúar 2014 13:33

Um beingreiðslusamninga

Innheimtukerfi banka og sparisjóða (gjarnan nefnt Kröfupottur) er einn vinsælasti hluti netbankans og B2B, ekki síst vegna einfaldleika þess og sveigjanleika. Útgefendum krafna fer fjölgandi með ári hverju, ný fyrirtæki spretta fram og innheimtuþarfirnar verða sífellt fjölbreyttari. Því er ástæða til að gefa beingreiðslum sérstakan gaum. Í þessari umfjöllun fræðumst við um tilurð og eðli beingreiðslusamninga frá sjónarhóli kröfuhafa og gefum okkur jafnframt að lesandinn hafi þegar haldgóða þekkingu á innheimtukerfinu.

Byrjum á byrjuninni, skráningu beingreiðslusamninga

Greiðandi þarf að óska eftir því við sinn viðskiptabanka að vera í beingreiðslu gagnvart tilteknum kröfuhafa. Það getur gerst með tvennu móti:

 • Í bönkum og sparisjóðum að ósk greiðanda, eða að
 • Greiðandinn gerir það sjálfur í netbanka (í netbönkum heitir hnappurinn gjarnan „Beingreiða“ eða „Setja í beingreiðslu“)

Þetta gerist því ekki einhliða af hálfu kröfuhafa eða banka án undangenginnar óskar greiðanda. Það er kröfugreiðandinn sem felur sínum viðskiptabanka að greiða skuli beingreiðslukröfur af tilteknum skuldfærslureikningi og ferlið nefnist beingreiðslubeiðni. Upplýsingarnar vistar Reiknistofa bankanna hjá sér í svonefndu GR kerfi en hér hefur Landsbankinn ákveðna sérstöðu því hann vistar beingreiðslubeiðnir og -samninga ýmist í því kerfi eða eigin greiðsluþjónustukerfi sem jafnframt framkvæmir sjálfar greiðslurnar. Oftast gildir síðarnefnda leiðin.

Það sem gerist undir húddinu

Textalykill er skráður með kröfuhafanum í GR kerfið hjá RB eða í greiðsluþjónustukerfi Landsbankans. Hvort heldur er, segir þriggja stafa innheimtuauðkenni kröfuhafans til um hvaða textalykli krafan tengist, þess vegna kann beingreiðsluregluverkið ekki að gera greinarmun á innheimtuauðkennum 037, 137, 237 osfrv. Við stofnun krafna er síðan athugað hvort skuldfærslubeiðni er til á milli kröfuhafa og greiðanda. Svo telst vera ef á kröfunni finnst allt í senn;

 • Kröfubanki (*)
 • Kennitala kröfuhafa
 • Kennitala greiðanda (**)
 • Textalykill og
 • Viðskiptanúmer

... sem passar við skuldfærslubeiðnina. Viðskiptabanki kröfugreiðanda sér svo um að beingreiða kröfuna. Viðskiptanúmerið er hjartað í beingreiðslunum. Sendi kröfuhafi ekki viðskiptanúmer með í kröfustofnun, setur bankinn kennitölu greiðanda í svæðið þannig að það er ekki tómt lengur – í þeim eina tilgangi að láta beingreiðslu virka ef vera kynni að greiðandinn bæði einhvern tímann um slíkt í framtíðinni án frekari afskipta kröfuhafa.

*) Kröfubanki er reyndar ekki nauðsynlegur en veldur villuhættu í framtíðinni ef beingreiðslusamningur er fluttur oftar en einu sinni, þá finnst ekki fyrri samningur ef kröfubanka vantar.
**) Kennitala greiðanda er strangt til tekið ekki í sjálfum kröfulyklinum en þarf samt að vera til staðar.

Þá að útfærslu viðskiptanúmersins

Algengasta verklagið er að nota kennitölu greiðanda sem viðskiptanúmer, slíkt hentar fyrir einfaldari innheimtu þegar kröfuhafi er með einsleitar vörur eða eina innheimtuþjónustu.

Dæmi:

Ímyndum okkur sveitarfélag með þrjú innheimtuauðkenni; fyrir gatnagerðargjöld, útsvar og leikskólagjöld. Greiðandi ákveður að eingöngu leikskólagjaldið sé í beingreiðslu. Kröfuhafinn sér það í svari við kröfustofnun og getur sleppt prentun og póstlagningu greiðsluseðils til viðkomandi. Ári síðar ákveður greiðandinn að setja allt í beingreiðslu, aftur sér kröfuhafinn í kröfustofnunarferlinu hvers kyns er og sleppir núna öllum pappír. Í þessu ímyndaða dæmi nægir að setja eingöngu kennitölu greiðanda í viðskiptanúmer því innheimtuauðkennin byggja á ólíkum textalyklum.

Gullna reglan er, að viðskiptanúmerið verður að vera einkvæmt fyrir sérhvern greiðanda. Ef t.d. stofnaðar væru margar kröfur sem allar bæru einsleitt viðskiptanúmer á borð við „sími“ myndi bara ein beingreiðsla eiga sér stað, nefnilega sú fyrsta í röðinni – því að í öllum hinum tilvikum birtist greiðandanum villa þegar hann smellir á beingreiðsluhnappinn í netbankanum, nánar tiltekið RB villa GR0057 sem þýðir: “Beingreiðslubeiðni er til á aðra kennitölu”. Sjálfar kröfurnar myndu samt allar stofnast.

Að auki getur kröfuhafi ákveðið sjálfur uppbyggingu viðskiptanúmersins og það er einmitt það sem stærri kröfuhafar gera, til að mynda tryggingafélög og veitu- og afþreyingarfyrirtæki.

Dæmi:

Ímyndum okkur kröfuhafa þar sem uppbygging viðskiptanúmers á að vera [kt]ABCD. Þá þarf annað af tvennu að gerast:

  • Kröfuhafinn segir greiðandanum hver uppbyggingin er (skrifar það þess vegna á pappír fyrir hann) og biður greiðandann að fara með þær upplýsingar í sinn viðskiptabanka og óska eftir beingreiðslu á téða uppbyggingu, eða að
  • Greiðandinn smellir á beingreiðsluhnappinn hjá viðkomandi kröfu í netbankanum (algengasta leiðin)
Eðli málsins samkvæmt setur þetta ríkulegar kvaðir á kröfuhafann um öguð vinnubrögð við stofnun slíkra krafna allar götur upp frá því. Það er þó einfalt mál í þeim flottu bókhaldskerfum sem völ er á í dag.

Sérstaða stórra kröfuhafa

Sumir kröfuhafar búa ekki í jafn einföldum heimi og ímyndaða sveitarfélagið í dæminu að framan. Ímyndum okkur núna orkusölufyrirtæki sem býr við þann veruleika að einn og sami greiðandinn er skráður fyrir mörgum fasteignum (leigusalar til dæmis) og greiðandinn vill að gjöld vegna sumra fasteigna séu í beingreiðslu og aðrar ekki. Önnur algeng ástæða er sú að greiðandinn vill hafa mismunandi skuldfærslureikninga á mismunandi beingreiðslukröfum. Hvort heldur er, felst flækjan í því að bæði kennitala greiðanda og textalykill er hið sama á fleiri en einni kröfu. Þess vegna þarf einhverja aukalega töfra – sem framkallaðir eru með hinu fjölbreyttasta innanhús regluverki sem kröfuhafinn setur sér. Höfum hugfast að viðskiptanúmerið er strengur sem rúmar að hámarki 16 bók- og tölustafi. Sem fyrr segir, getur kröfuhafi ákveðið sjálfur hvert viðskiptanúmerið er og setur þá hin ýmsu önnur gildi aftan við t.d. kennitöluna, t.d. [kt]AAAA, [kt]BBBB eða [kt]ABAB og hvaðeina sem aðstæður krefjast.

Þetta geta verið tiltölulega óskiljanlegar tölur eða bókstafir fyrir bæði greiðandann og bankann (og það er allt í lagi) en á sama tíma verið gildishlaðnar upplýsingar fyrir kröfuhafann sem aukinheldur hafa verðmæta þýðingu fyrir bókhaldskerfi hans.

Tíðni beingreiðslutilrauna

Hér hefur Landsbankinn sett sína eigin reglu; hann reynir alltaf fyrst að greiða á eindaga. Aftur á móti við smíði Kröfupottsins var þeirri almennu reglu komið á að bankar reyna fyrst að greiða 3 dögum fyrir eindaga, nema ef:

 • Kröfuhafi hefur beðið um skuldfærslu á gjalddaga, eða ef
 • Eindagi og gjalddagi er einn og sami dagurinn.

Í slíkum tilvikum hefjast greiðslutilraunir á gjalddaga. Hvenær bankar og sparisjóðir hefja beingreiðslutilraunir er ekki regla, heldur viðmið sem kann að vera breytilegt á milli fjármálastofnana. Víðast hvar er reglulega reynt áfram að greiða, með smám saman lengra millibili eða allt þar til krafan er greidd eða kröfuhafinn fellir hana niður. Landsbankinn framkvæmir beingreiðslurnar tvisvar alla virka daga, fyrst milli klukkan 7 og 8 að morgni, og svo aftur milli klukkan 18 og 19 síðdegis. Þess má geta að hægt er að dráttarvaxtareikna beingreiðslukröfur.

Hlutverk bankanna

Auk þess sem að framan er rakið, er það hlutverk bankanna að kunngjöra kröfuhafa um hvaða kröfur eru í beingreiðslu hverju sinni. Slíkar upplýsingar fást með þrennum hætti úr GR kerfinu:

 • Með niðurhali textaskrár úr netbanka
 • Með B2B skeytum (fyrirspurn og svari)
 • Í viðbrögðum bankans við kröfustofnun – en bæði textaskráarsvarið og B2B svarskeytið innihalda upplýsingar um hvaða kröfur hafa skráðan beingreiðslusamning.

Beingreiðslukröfur eru auðkenndar með bókstafnum „Q“. Oftast hagnýta kröfuhafar vitneskjuna til að sleppa prentun greiðsluseðla til viðkomandi greiðenda nema þeirra sem óskað hafa sérstaklega eftir því við kröfuhafann – þá skráir kröfuhafinn það sjálfur hjá sér, t.d. á viðskiptamannaspjaldið í bókhaldskerfi sínu. Bankarnir gera það ekki.

Þá er vert að geta þess að kröfuhafi þarf ekki að gera sérstakan samning um beingreiðslur við hvern banka heldur bara við viðskiptabanka sinn. Landsbankinn hefur þann háttinn á, að allir kröfuhafar í innheimtuþjónustunni eru sjálfgefið merktir með leyfi til móttöku beingreiðslna og kröfuhöfum er ekki boðið upp á að hafna beingreiðslum. Litið er svo á, að val greiðandans á greiðsluaðferð sé kröfuhafanum óviðkomandi.

Ögn um endurgreiðslukröfur

Rúsínan í pylsuendanum eru síðan endurgreiðslukröfurnar, sem byggja alla sína tilvist á beingreiðslusamningum. Eins og nafngiftin felur í sér, eru endurgreiðslukröfur notaðar þegar kröfuhafi þarf að endurgreiða viðskiptavini sínum án þess fá uppgefnar frekari bankaupplýsingar. Þá stofnar kröfuhafi kröfurnar með kröfuskrá (txt / xml), með sérstakri endurgreiðslutegund krafna. Fjárhæð kröfunnar er í raun endurgreiðslufjárhæðin sem tekin er út af bankareikningi kröfuhafa. Þessar kröfur er eingöngu hægt að stofna ef greiðandi er skráður með beingreiðslubeiðni; Kröfupotturinn leggur endurgreiðslufjárhæðina inn á viðskiptareikning greiðenda sem eru með beingreiðslusamning og skilar öðrum kröfum samdægurs aftur til kröfuhafa. Tryggingafélög og veitufyrirtæki eru meðal þeirra sem helst nýta sér þennan kost.

Fréttasafn


B2B - 24. mars 2020 10:48

Breyting á dráttarvaxtareglum

Miðvikudaginn 25. mars verður gerð breyting á dráttarvaxtareglum og samhliða verður þeim fækkað úr tólf í sjö.


Nánar