Fréttir

30. september 2013 14:31

Bætt álagsstýring í B2B vefþjónustum

Í sumarbyrjun innleiddi Landsbankinn nýtt kerfi sem hægir á samskiptum við B2B-kerfi viðskiptavina sem ekki höndla inn- og útskráningar með réttum hætti. Tilgangur breytinganna er að lágmarka truflanir á samskiptum við kerfi sem rétt eru upp sett. Um leið hvetjum við viðskiptavini sem verða fyrir hraðatakmörkunum í kerfum sínum til  að gera lagfæringar sem munu skila eðlilegum afgreiðslutíma aðgerða.

Álag á vefþjónustur Landsbankans (B2B og B2Bws) hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Því hefur hingað til verið svarað með stöðugri endurnýjun á tækjakosti. Nú er hins vegar svo komið að nýr búnaður einn og sér dugir ekki til að viðhalda stöðugum, viðunandi hraða. Þess vegna höfum við  leitað annarra leiða til að bæta þjónustuna.

Ástæður vandans

Tvennt kemur til í uppsetningu bókhalds- og upplýsingakerfa viðskiptavina (e. ERP) sem valdið getur óþarfa álagi: 

  1. Útskráningar eru gjarnan of fátíðar og eru jafnvel dæmi um að fyrirtæki útskrái sig aldrei. Fyrir vikið „lifa“ tengingar of lengi og taka pláss sem öðrum býðst ekki á meðan.
  2. Sum kerfi framkvæma inn- og útskráningar fyrir sérhverja aðgerð. Oft er um að ræða hundruð eða þúsundir sjálfvirkra aðgerða í röð, sem getur valdið miklu óþarfa álagi. Rétt aðferð er að búa aðeins til eina tengingu (e. session) þegar farið er inn í kerfið, en skrá svo kerfið út þegar allar aðgerðir hafa verið framkvæmdar. 

Þriðja afbrigðið er svo blanda hvoru tveggja (1 og 2) þar sem innskráningar eru stöðugt framkvæmdar fyrir smæstu aðgerðir og útskráningar sjaldan eða aldrei.

Áhrif á notendur annarra fyrirtækja

Síðastliðin þrjú ár hefur í vaxandi mæli borið á því að fyrirtæki með „rétta“ uppsetningu bankasamskiptakerfisins líði fyrir aukið álag í kerfinu. Í verstu tilfellum getur  tekið margar mínútur að stofna tiltölulega fáar innheimtukröfur eða senda fáein hundruð rafrænna skjala til birtingar í netbönkum. 

Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að minnka tafir í kerfinu. Á hverri nóttu rýfur bankinn t.d. tengingar sem varað hafa frá því fyrr um daginn svo tenging nær aldrei að lifa milli tveggja daga. Þar til árið 2010 nægði slíkt fyrirkomulag enda var ekki búist við að skeytanotkun yrði svo mikil hérlendis sem raun ber vitni. Þetta er ein af ástæðum þess að undirliggjandi vandi hefur ekki verið nægilega sýnilegur fram til þessa.

Lausnin

Í byrjun síðasta sumars innleiddi Landsbankinn Tarpit kerfi sem hægir á afgreiðslutíma kerfa þar sem inn- og útskráningar eru ekki eins og skyldi. Þetta er gert með það að markmiði að aðrir viðskiptavinir verði ekki fyrir truflunum. 

Tarpit kerfið leysir ekki vandann að fullu, en miðlar álaginu yfir á þau kerfi sem valda því á hverjum tíma. Fyrirtæki sem upplifa seinagang við notkun kerfanna um þessar mundir eru því að öllum líkindum að verða fyrir álagsstýringu Tarpit kerfisins. Í fyrstu var kerfið stillt þannig að eingöngu var gripið til hraðatakmarkana í verstu tilfellum, viðmiðunarmörkin hafa svo verið færð neðar stig af stigi  og verður þannig haldið áfram næstu mánuði.

Með því að gera viðeigandi lagfæringar á kerfum sínum geta viðskiptavinir sem verða nú fyrir þessum hraðatakmörkunum náð aftur fyrri skilvirkni við framkvæmd aðgerða. 

Við erum til taks

Sérfræðingar Landsbankans eru að sjálfsögðu til þjónustu reiðubúnir og veita viðskiptavinum og hugbúnaðarfyrirtækjum allar þær upplýsingar og ráðgjöf sem þarf til að færa hlutina til betri vegar. Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við þig til að senda okkur skilaboð og við höfum samband um hæl.

Við vonum að þessar breytingar skili sér í bættum gagnasamskiptum og betri þjónustu og verði til hagsbóta fyrir alla okkar viðskiptavini.


Fréttasafn


B2B - 24. mars 2020 10:48

Breyting á dráttarvaxtareglum

Miðvikudaginn 25. mars verður gerð breyting á dráttarvaxtareglum og samhliða verður þeim fækkað úr tólf í sjö.


Nánar