Skattar og gjöld

Skattar og gjöld

Auk rekstar- og tryggingarkostnaðar af bifreiðum, þá eru ýmis gjöld og skattar sem fylgja því að eiga, leigja eða yfirhöfuð hafa umráð yfir bifreið.

Það er því ágætt að kynna sér þessa kostnaðarliði áður fjárfest er í bifreið.


Hér eru nokkrir gjalda- og skattaliðir sem vert er að kynna sér nánar.

Bifreiðagjöld

Greiða þarf bifreiðagjöld af flest öllum ökutækjum en þó eru nokkur sem eru undanþegin þessari greiðslu. Upphæð bifreiðagjalds miðast við skráða losun koltvísýrings (CO2) ökutækis, en hún er mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Sérstök gjaldtaka er þó fyrir bifreiðar sem eru að eigin þyngd meira en 3.500 kg. Gjaldtímabil eru tvö, 1. janúar til 30. júní og 1. júlí til 31.desember. Eigendaskipti geta ekki farið fram nema bifreiðagjöld séu í skilum.

Bifreiðahlunnindi

Þeir sem hafa full og ótakmörkuð umráð yfir bifreið sem þeim er látið í té af atvinnurekanda ber að greiða hlunnindaskatt af bifreiðinni. Ákveðinn prósentuhluti af verðmæti bifreiðarinnar reiknast sem hækkun á tekjustofni. Greiði umráðamaður sjálfur rekstarkostnað bifreiðarinnar sem hann hefur til umráða skal lækka fjáhæð hlunnindanna samkvæmt reglum í skattmati ríkisskattstjóra. Ef um takmörkuð afnot bifreiðarinnar er að ræða eru hlunnindin metin til tekna miðað við ákeðna krónutölu á hvern ekinn kílómetra, sem ákvörðuð er árlega í skattmati.

Ökutækjastyrkur

Þeir sem hafa fasta mánaðarlega eða árlega fjárhæð í ökutækjastyrk þurfa að greiða staðgreiðslu af þeirri upphæð. Nauðsynlegt er að halda aksturbók, halda saman kvittunum um rekstur og þess háttar svo hægt sé að óska eftir frádrætti á móti ökutækjastyrk.

Virðisaukaskattur af bifreiðum

Almennt innskattsbann er á hefðbundum fólksbifreiðum. Almenna reglan er sú að aðeins er hægt að nýta sér innskatt á svokölluðum vsk-ökutækjum sem oftast bera rauðar númeraplötur og þær þurfa að uppfylla kröfur ríkisskattstjóra sem gerðar eru til slíkra ökutækja.