Bankaþjónusta með breyttu sniði
Vegna herts samkomubanns og til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 geta viðskiptavinir aðeins fengið afgreiðslu í útibúi ef erindið er mjög brýnt og ekki er hægt að leysa úr því með öðrum hætti, þ.e. í sjálfsafgreiðslu eða með samtali við Þjónustuver. Til að fá afgreiðslu er nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram. Breytingarnar taka gildi að morgni þriðjudagsins 24. mars 2020 og gilda þar til samkomubanni stjórnvalda verður aflétt.
Þessar breytingar taka einnig til Fyrirtækjamiðstöðvar Landsbankans og afgreiðslu Bíla- og tækjafjármögnunar í Borgartúni 33 í Reykjavík.
Aðstæður í útibúum og afgreiðslum bankans eru mjög misjafnar og með því að takmarka heimsóknir í útibúin er betur hægt að uppfylla skilyrði samkomubannsins og gæta að öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Um leið fjölgar starfsfólki sem getur svarað fyrirspurnum sem koma í gegnum síma, tölvupóst og netspjall.
Frá og með 7. maí aukum við þjónustu í öllum útibúum Landsbankans og Fyrirtækjamiðstöð í Borgartúni en til að virða megi tveggja metra regluna um fjarlægð milli fólks þarf að panta tíma fyrirfram til að fá afgreiðslu.
Við aukum þjónustu í útibúum 7. maí
Bóka þarf tíma fyrir símtal
Við hvetjum viðskiptavini til að óska aðeins eftir afgreiðslu í útibúi ef erindið er mikilvægt og ekki er hægt að leysa úr því með öðrum hætti, s.s. með stafrænum þjónustuleiðum bankans, Landsbankaappinu, í netbankanum eða með samtali við Þjónustuver, með tölvupósti eða með því að senda fyrirspurn í gegnum netspjallið á landsbankinn.is.
Ef ekki reynist mögulegt að afgreiða erindið með þessum hætti þarf að bóka símtal við ráðgjafa. Hægt er að bóka símtal á vef bankans, með því að hafa samband við Þjónustuver eða í gegnum netspjallið hér á vefnum. Afgreiðsla er aðeins veitt í útibúi ef tími hefur verið pantaður fyrirfram.
Bankaþjónusta með breyttu sniði
- Í Landsbankaappinu, netbankanum og á vef bankans geta viðskiptavinir annast nánast öll bankaviðskipti sjálfir.
- Landsbankinn rekur hraðbanka út um allt land sem flestir eru aðgengilegir allan sólarhringinn. Hægt er að sjá staðsetningu og fjarlægð í næsta hraðbanka í Landsbankaappinu.
- Hægt er að fá upplýsingar og aðstoð við að sinna algengum erindum í Þjónustuveri Landsbankans í síma 410 4000, í netspjallinu og með því að senda póst á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is.
- Afgreiðslutími Þjónustuversins verður lengdur og mun breyting á afgreiðslutíma taka gildi fljótlega.
- Upplýsingar um þjónustu við fyrirtæki má finna á vef bankans.
- Aðeins er veitt afgreiðsla í útibúi í þeim tilfellum sem ekki er hægt að leysa úr brýnum erindum með öðrum hætti. Aðeins er veitt afgreiðsla ef afgreiðslutími var bókaður fyrirfram.
- Áður en hægt er að bóka afgreiðslutíma í útibúi þarf að ræða við ráðgjafa sem mun reyna að leysa úr málinu án þess að þörf sé á afgreiðslu í útibúi.
- Hægt er að panta símtal við ráðgjafa á vef bankans eða með tölvupósti á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is.
- Starfsfólk útibúanna mun sinna þjónustu, svara fyrirspurnum og veita ráðgjöf í gegnum síma og tölvupóst. Símanúmer útibúa á landsbyggðinni eru á vef bankans.
- Við hvetjum viðskiptavini sem eru óvanir að nýta sér rafrænar lausnir til að hafa samband og fá aðstoð og leiðbeiningar með því að hringja í síma 410 4000 eða senda póst á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Með því að takmarka afgreiðslu í útibúum tímabundið drögum við úr hættu á útbreiðslu Covid-19 og stuðlum að bættu öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Um leið fær starfsfólk mikilvægt svigrúm til að sinna óskum viðskiptavina um upplýsingar, úrræði og aðstoð. Við leggjum mikla áherslu á að styðja við viðskiptavini okkar um allt land á meðan þetta ástand varir. Í langflestum tilfellum má ljúka erindum með rafrænum hætti, með símtali eða tölvupósti. Við munum leysa úr málunum saman.“