Fréttir

15. mars 2019 13:59

Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans

Landsbankinn hefur gefið út nýja útgáfu af almennum viðskiptaskilmálum. Með útgáfunni eru uppfærð ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, netbanka fyrirtækja og greiðslukort. Þá eru skilmálar um kreditkort felldir inn í almennu viðskiptaskilmálana. Nýju skilmálarnir gilda frá og með 15. mars 2019 gagnvart nýjum viðskiptavinum en frá og með 15. maí 2019 gagnvart núverandi viðskiptavinum.

Helstu breytingar á almennum viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:

A. Vinnsla persónuupplýsinga og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka:

 1. Umfjöllun um vinnslu persónuupplýsinga er færð undir kafla um almenn ákvæði um viðskiptasambandið.
 2. Ákvæði um heimildir bankans til vinnslu persónuupplýsinga eru skýrð. M.a. er bætt við ákvæðum um fræðslu að því er varðar:
  • Vinnslu á grundvelli samninga, skilmála og reglna um einstaka vörur og þjónustu sem bankinn kann að veita viðskiptavini.
  • Upplýsingar sem bankinn kann að sækja með reglubundnum hætti til þriðju aðila í samræmi við persónuverndarstefnu bankans.
  • Uppflettingu í kröfupotti Reiknistofu bankanna til að bankinn geti haft virkt eftirlit með útlánum og skuldastöðu viðskiptavinar.
  • Varðveislu afrita af rafrænum skilríkjum viðskiptavinar með reglubundnum hætti til samræmis við gildistíma þeirra til að tryggja rétta auðkenningu og áreiðanleika upplýsinga um viðskiptavin.
  • Miðlun upplýsinga til erlendra samstarfsaðila til að veita viðskiptavini verðbréfaþjónustu.
  • Vinnslu upplýsinga í þeim tilgangi að vinna þarfa- og markhópagreiningu til að bjóða persónubundnar vörur og þjónustu.
  • Hljóðritun símtala.
 3. Bætt er við ákvæði um ábyrgð og skyldur viðskiptavina móttaki þeir upplýsingar sem varða þá ekki.
 4. Mælt er fyrir um skyldu raunverulegra eigenda lögaðila til að sanna á sér deili við stofnun viðskipta.

B. Greiðslukort og netbanki fyrirtækja:

 1. Skilmálar um debet- og kreditkort hafa verið sameinaðir í 5. kafla skilmálanna sem ber heitið „Greiðslukort“. Almenn umfjöllun um greiðslukort (bæði debet- og kreditkort) er að finna í undirköflum 5.1 til 5.4. en sérákvæði um kreditkort er að finna í undirkafla 5.5.
 2. Með breytingunni falla niður viðskiptaskilmálar fyrir Visa kreditkort og viðskiptaskilmálar MasterCard kreditkorta Landsbankans.
 3. Ákvæði um netbanka fyrirtækja eru skýrð. Felld eru brott ákvæði um umsóknir um netbanka fyrirtækja, tengilið fyrirtækis, starfsmenn og heimildir þeirra og ýmsar tilkynningaskyldur í tengslum við lokun fyrir aðgang starfsmanns og hámarks millifærsluheimild. Bætt er við umfjöllun um skyldur þess sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd fyrirtækis, skyldu notanda til að kynna sér Almennu viðskiptaskilmálana og að framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrirtækis hafi ákvörðunarvald aðgangsstjóra nema fyrirtæki tilgreini annan.

Í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu hefur núverandi viðskiptavinur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 15. maí 2019 ef hann samþykkir ekki breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 15. maí 2019.

Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (ný útgáfa)

 

25. mars 2019 10:43

Vikubyrjun 25. mars 2019

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu námu meðalútgjöld erlendra ferðamanna vegna Íslandsferða um 209 þúsund krónum í fyrra. Að meðaltali eyddu erlendir gestir um 54 þús. kr. í pakkaferðir, 39 þús. kr. í flug til og frá landinu og 35 þús. kr. í gistingu.


Nánar

25. mars 2019 12:44

Rekstrartruflanir vegna bilunar

Vegna bilunar hjá Reiknistofu bankanna birtast færslur ekki á reikningsyfirlitum í dag (25. mars). Þá geta greiðslur og millifærslur tekið lengri tíma en vanalega. Viðskiptavinir eru því beðnir um að gæta að því að endurtaka ekki greiðslur og/eða millifærslur þótt þær sjáist ekki á yfirliti.


Nánar

22. mars 2019 11:16

Umræðan: Nýjar lausnir Landsbankans auðvelda viðskiptavinum lífið

Fjármál hafa í síauknum mæli verið að færast yfir í snjallsíma fólks. Líklega geta fáir sagst hafa séð fyrir hversu hratt þetta myndi gerast. En hvað veldur þróuninni og hvers vegna er hún svona hröð? Um þetta er fjallað í nýrri grein á Umræðunni.


Nánar