Fréttir

15. júní 2018 14:32

Landsbankinn styrkir fimmtán framúrskarandi námsmenn

Námsstyrkir 2017

Landsbankinn úthlutaði námsstyrkjum til fimmtán námsmanna úr Samfélagssjóði bankans þann 14. júní sl. Styrkirnir voru nú veittir í 29. sinn. Heildarupphæð námsstyrkja nemur sex milljónum króna, sem er hæsta styrkveiting banka af þessu tagi á Íslandi. Alls bárust tæplega 500 umsóknir.

Veittir eru styrkir í fimm flokkum til framhaldsskólanema, iðn- og verknema, háskólanema, til háskólanema í framhaldsnámi og listnema. Landsbankinn er eini bankinn sem veitir sérstaka listnámsstyrki.

Dómnefndin leitaðist við að velja metnaðarfulla, framúrskarandi námsmenn með athyglisverða framtíðarsýn sem nefndin taldi líklega til að auðga íslenskt samfélag í framtíðinni. Einnig var litið til annarra atriða við valið, svo sem rannsókna og greinaskrifa, sjálfboðaliðastarfa, afreka í íþróttum og þátttöku í félagsstarfi, svo nokkuð sé nefnt.

Styrkþegar námsstyrkja Landsbankans 2018

Styrkir til framhaldsskólanáms – 200.000 kr. hver

Egill Bjarni Gíslason – gönguskíðabraut í Meråker Videregåendeskole í Noregi

Egill stundar framhaldsskólanám á gönguskíðabraut í bænum Meraker í Noregi. Egill er afburða námsmaður og hann er afreksmaður í skíðagöngu. Með miklum dugnaði og skipulagi hefur hann náð að tvinna saman nám og afreksíþróttir. Þegar í grunnskóla var Egill góður námsmaður, með A í öllum fögum og hann fékk við útskrift í 10.bekk viðurkenningu frá bæði danska sendiráðinu og fræðsluráði Akureyrarbæjar. Egill stefnir að því að komast á vetrarólympíuleikana í Peking árið 2022.

Halla Margrét Jónsdóttir – Fjölbrautaskóli Vesturlands

Halla Margrét stundar nám á náttúrufræðibraut við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hún útskrifaðist úr grunnskóla með hæstu meðaleinkunn í sínum árgangi og tók þátt í bæði Stærðfræðikeppni grunnskólanna og Stóru upplestrarkeppninni með góðum árangri. Hún hefur lært á píanó í 12 ár og náði öðru sæti í „Ísland - Got Talent“ keppninni. Halla Margrét hefur æft fótbolta með ÍA síðan 2004, tekið þátt í sjálfboðastarfi hjá Akraneskirkju og stofnaði í vetur Femínistafélagið Bríeti. Auk þessa hefur hún verið í Gettu betur liði FVA síðastliðin tvö ár og mun þjálfa liðið á næstu önn. Hún mun ljúka stúdentsprófi næsta vetur og stefnir á háskólanám í tölvunarfræði, með tónlist sem aukagrein, í Princeton-háskóla í Bandaríkjunum.

Urður Helga Gísladóttir – Menntaskólinn í Reykjavík

Urður er nemandi á þriðja ári við Menntaskólann í Reykjavík en hún hefur hingað til hlotið ágætiseinkunn í öllum lokaprófum í skólanum. Hún stundar einnig nám í píanóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar og stefnir á útskrift þaðan vorið 2019. Hún er virk í félagslífi, hefur tekið þátt í leikfélaginu Herranótt öll árin sín í MR, setið í ritstjórn skólablaðsins og er nú í skemmtinefnd. Urður Helga vinnur með skóla, á kaffihúsi og í ritfangaverslun. Varðandi frekara nám í framtíðinni er hún enn óákveðin en læknisfræði er henni ofarlega í huga, því hún hefur bæði áhuga á raunvísindum og mannlegum samskiptum.

Styrkir til iðn- og verknáms – 400.000 kr. hver

Elín Pálsdóttir – klæðskeranám og kjólasaumur við Tækniskólann

Elín hefur alltaf haft áhuga á listum og vitað að hún vildi verða listamaður frá því hún var mjög ung. Hún hóf klæðskeranám og kjólasaum í Tækniskólanum og fann þá sína listgrein. Hún er framúrskarandi nemandi, hugmyndarík, vinnusöm og jákvæð. Elín er nú í starfsþjálfun hjá hátískuhönnuðinum (Haute Coture) Iris Van Herpen í Amsterdam en það hafði verið markmið hjá henni í 4 ár að komast í þetta starfsnám. Í starfsnáminu mun hún fá innsýn í veröld tískurisanna í heiminum, en Elín stefnir sjálf að því að verða hátískulistamaður í framtíðinni og ná árangri í því að skapa og sauma einstakan og eftirsóttan fatnað.

Emil Uni Elvarsson – vélstjórnarnám við Menntaskólann á Ísafirði

Emil Uni er nemandi í vélstjórn við Menntaskólann á Ísafirði. Hann er afburðanemandi en hefur einnig verið virkur í félagsstarfi frá unga aldri. Emil hefur lagt stund á tónlistarnám frá 6 ára aldri og einbeitir sér í dag að gítar- og söngnámi. Hann hefur verið virkur í íþróttum og var m.a. fulltrúi grunnskóla síns í Skólahreysti. Emil var félagi í unglingadeild Björgunarsveitarinnar Ernis og er nú kominn í fullorðinsdeild sveitarinnar. Emil hefur tekið virkan þátt í félagslífinu í MÍ og var m.a. í Gettu betur liði skólans í vetur. Frá 12 ára aldri hefur hann unnið við beitingu á sumrin og hefur unnið bæði með skóla á veturna og á sumrin. Emil vill beina kröftum sínum í átt að náttúruvernd í framtíðinni og að vélum sem menga ekki andrúmsloftið.

Hrafnhildur Arín Sigfúsdóttir – rafvirkjun við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Hrafnhildur Arín stundar nám í rafvirkjun við Fjölbrautaskóla Vesturlands og spilar knattspyrnu með meistaraflokki ÍA. Hún stundar nám sitt af mikilli eljusemi og hefur tekið þátt í ýmsum nefndar- og félagsstörfum í gegnum árin. Hennar helsta áhugamál er fótboltinn sem hún hefur iðkað frá 6 ára aldri. Hún hefur alltaf verið staðráðin í að ná langt í knattspyrnu og stefnir nú á framhaldsnám í Bandaríkjunum á fótboltastyrk. Framtíðarsýn Hrafnhildar er að ljúka bóklegu rafvirkjanámi og tæknistúdentsprófi um næstu áramót og síðan sveinsprófi vorið 2019. Samhliða knattspyrnuiðkun í Bandaríkjunum er stefnan sett á verkfræðinám þar haustið 2019.

Styrkir til háskólanáms – 400.000 kr. hver

Aðalbjörg Egilsdóttir – líffræði við Háskóla Íslands

Aðalbjörg Egilsdóttir er á öðru ári í líffræði við Háskóla Íslands. Sem stendur er hún í skiptinámi við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum eftir tilnefningu frá Háskóla Íslands. Hún lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild I frá Menntaskólanum í Reykjavík með mjög góðum árangri og hún tók einnig virkan þátt í félagslífinu í skólanum. Við útskrift hlaut hún viðurkenningu fyrir störf sín fyrir skólann og verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Aðalbjörg á glæsilegan sundferil að baki, var í skólakór og skólahljómsveitum og hefur lokið fjögurra ára söngnámi hjá Söngskólanum í Reykjavík. Hún var í landsliðinu í ólympíukeppninni í stærðfræði árið 2013, hefur starfað innan Amnesty International og Röskvu, auk þess að hafa verið leiðbeinandi fyrir erlenda nemendur í HÍ. Hún gegnir nú svipuðu hlutverki fyrir nýja skiptinema í Cornell-háskóla. Aðalbjörg hefur sótt áfanga um frumkvöðlahæfni í lífvísindum sem og áfanga sem einblínir á konur í leiðtogastöðum á sviði vísinda. Þá hefur hún kennt aukatíma fyrir menntaskólanemendur í íslensku og stærðfræði, ásamt því að hafa sótt og verið aðstoðarkennari á Dale Carnegie námskeiði. Hún nýtur mjög góðra meðmæla frá kennurum sínum í Cornell.

Hjalti Þór Ísleifsson – stærðfræði við Háskóla Íslands

Hjalti Þór er á öðru ári í stærðfræði við Háskóla Íslands. Að loknum 120 ECTS einingum er hann með 9,97 í meðaleinkunn. Hjalti lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild 1 frá Menntaskólanum í Reykjavík með mjög góðum árangri. Stærðfræði hefur átt huga hans en áhuginn jókst verulega í MR þar sem hann sótti laugardagsæfingar í þrautastærðfræði öll árin. Hjalti tók virkan þátt í og bar sigur úr býtum í Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema á lokaári sínu. Tvívegis fékk hann heiðursviðurkenningu á Ólympíuleikunum í stærðfræði og þrívegis hefur hann verið í liði Íslands í Eystrasaltskeppni í stærðfræði. Hann hefur einnig mikinn áhuga á eðlisfræði og keppti m.a. á Ólympíuleikum í eðlisfræði og hlaut bronsverðlaun. Að loknu BS-námi í stærðfræði ætlar Hjalti Þór að bæta við sig einu ári til viðbótar til að ljúka námi í eðlisfræði og útskrifast með tvær BS gráður. Því næst stefnir hann á framhaldsnám til Sviss eða Bandaríkjunum. Samhliða námi sínu í stærðfræði hefur hann verið aðstoðarkennari í Háskóla Íslands. Í framtíðinni stefnir hann að því að starfa innan tækni- og vísindageirans.

Ísak Valsson – stærðfræði við Háskóla Íslands

Ísak Valsson er á fyrsta ári í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands og eftir fyrstu önnina er hann með 10 í meðaleinkunn. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands með 9,70 í meðaleinkunn og var dúx skólans. Hann tók þátt í eðlisfræði landskeppninni árið 2016 og komst þá einnig á ólympíuleikana í eðlisfræði sem haldnir voru í Sviss, þar sem hann lenti í þriðja sæti af Íslendingunum sem tóku þátt. Hann tók virkan þátt í félagslífinu í Versló, en þar sat hann í hinum ýmsu nefndum, var í kór skólans og tók þátt í leikriti nemendafélagsins. Hann æfði körfubolta í sjö ár og vann m.a. tvo Íslandsmeistaratitla með KR. Samhliða náminu hefur hann síðustu tvö ár starfað sem forfallakennari í eðlisfræði, í bæði Verslunarskóla Íslands og Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Nú er hann á leið í sumarnám við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Í framtíðinni stefnir hann á framhaldsnám sem tengir saman stærðfræðigreiningu, eðlisfræði og forritun og er draumur hans að komast inn í Stanford-háskóla.

Styrkir til háskólanáms á framhaldsstigi – 500.000 kr. hver

Einar Bjarki Gunnarsson – doktorsnám í aðgerðagreiningu við Minnesota-háskóla

Einar Bjarki stundar doktorsnám í aðgerðagreiningu við iðnaðar- og kerfisverkfræðideild Minnesota-háskóla. Hann var dúx Menntaskólans í Reykjavík árið 2007 og lauk B.Sc. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 með meðaleinkunnina 9,90. Einar tók þátt í Ólympíuleikunum í eðlisfræði fyrir Íslands hönd árin 2006 og 2007. Samhliða námi kenndi hann við Menntaskólann í Reykjavík og dæmatíma við HÍ og skrifaði þá á þriðja tug greina um stærðfræði fyrir Vísindavef HÍ. Í kjölfar stærðfræðinámsins aflaði Einar Bjarki sér kennsluréttinda frá Háskóla Íslands og kenndi við MR. Í rannsóknum hans við Minnesota-háskóla er fókusinn á stærðfræðilegar aðferðir og líkön við að greina sjaldgæfa slembiatburði, sérstaklega í samhengi fjármála og heilbrigðisvísinda. Að loknu námi er stefnt á störf innan háskólastigsins og að úrlausnum verkefna sem geta leitt til framþróunar og bættrar ákvarðanatöku á mikilvægum sviðum samfélagsins í samstarfi við hagsmunaaðila.

Kolbrún Jónsdóttir – meistaranám í iðnaðarverkfræði við Cambridge-háskóla

Kolbrún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2014 með meðaleinkunnina 9,3 og er nú að útskrifast með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Youngstown State-háskóla í Bandaríkjunum. Þar hefur hún notið þess heiðurs að vera á forsetalista sex sinnum. Hún hefur verið fyrirliði í sundliði skólans og starfað innan stúdentaráðs við skólann, auk þess að vera boðin aðild að tveimur heiðursfélögum nemenda, Phi Kappa Phi og Tau Beta Pi, vegna framúrskarandi námsárangurs. Þessi félög taka þátt í margvíslegum sjálfboðastörfum. Kolbrún mun hefja M.Sc.-nám í iðnaðarverkfræði við Cambridge-háskóla nú í haust en hún hyggst nýta menntun sína til að bæta heilbrigðiskerfið á Íslandi. Hún mun leggja áherslu á straumlínustjórnun innan spítala og hyggst afla sér starfsreynslu í London áður en hún snýr aftur heim til að nýta menntun sína og reynslu til ávinnings fyrir samfélagið.

Kristín María Gunnarsdóttir – doktorsnám í heilbrigðisverkfræði við John Hopkins-háskóla

Kristín María var semidúx Verzlunarskóla Íslands árið 2010. Hún lauk B.Sc.-námi í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hún var á forsetalista með meðaleinkunnina 9,53. Meðfram náminu var hún aðstoðarkennari í stærðfræði II og reglunarfræði. Kristín María lauk svo M.Sc.-gráðu í heilbrigðisverkfræði frá John Hopkins-háskólanum í Bandaríkjunum árið 2016 með góðum árangri. Í náminu vann hún að mestu við svefnrannsóknir sem snerust um að bæta þær aðferðir sem beitt er við greiningu svefnsjúkdóma á borð við svefnleysi (e. insomnia). Haustið 2016 hóf hún svo doktorsnám við sama háskóla í heilbrigðisverkfræði. Í doktorsnáminu ætlar Kristín María að sameina þekkingu sína á gagnavísindum, reglunarfræði og lífeðlisfræði og rannsaka flogaveiki. Meðfram doktorsnámi situr hún einnig í stjórn nefndar sem kallast „Women of Whiting (School of Engineering)“, en helsta markmið nefndarinnar er að sameina og efla tengsl kvenna sem stunda raunvísinda- og tækninám við skólann. Kristín María hefur einnig tekið þátt í ýmsu starfi til að vekja áhuga ungra stúlkna á raunvísinda- og tæknigreinum. Kristín telur það forréttindi að fá að stunda nám við John Hopkins-háskóla þar sem rannsóknir eru á heimsmælikvarða og tækifærin leynast víða en hlakkar þó einnig til að flytja aftur heim að námi loknu og starfa sem heilbrigðisverkfræðingur við rannsóknir og þróun hér á landi.

Styrkir til listnáms – 500.000 kr. hver

Ásta Kristín Pjetursdóttir – B.A. nám í víóluleik við Det Konglige Danske Musikkonservatorium

Ásta Kristín stundar nú B.A.-nám í víóluleik við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og stefnir á meistarnám í víoluleik við sama skóla. Ásta skartar mjög tilkomumikilli ferilskrá og hefur tekið þátt í mjög áhugaverðum tónlistarverkefnum þar sem saman tvinnast klassísk tónlist og nútíma popp. Ásta hlaut glæsilega umsögn í „menningar-gagnrýni“ Fréttablaðsins nú í byrjun árs fyrir tónleika þar sem hún var einleikari með kammersveitinni Elju. Hún hefur tekið þátt í og sigrað ýmsar tónlistarkeppnir undanfarin ár og nú síðast í haust 2017 þar sem hún bar sigur úr býtum í “Ungir einleikarar, einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands”.

Ólafur Ingvi Ólason – meistaranám í leikstjórn við Columbia-háskóla

Ólafur Ingvi stundar nám í leikstjórn við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. Ólafur er með sérlega góð meðmæli frá prófessorum sínum við Columbia, þar segir ma: „textar hans og leikstjórn er sett fram á einstaklega mannlegum nótum“ (“his writing and directing is exeptionally human”) og „að Ólafur Ingvi sé að rísa up – birtast – sem kvikmyndagerðarmaður með fágæta hæfileika sem binda megi miklar vonir við“ (“emerging filmmaker of unique talent and great promise”). Ólafur hefur fengið viðurkenningar fyrir stuttmyndir sem hann hefur unnið að í náminu og þær verið sýndar á virtum kvikmyndahátíðum en stuttmynd hans “Viktoría” vann Shortfish verðlaunin á Stockfish hátíðinni í Reykjavík nú nýverið. Þegar hann hefur lokið námi stefnir hann á að gera mynd í fullri lengd og er nú hann nú þegar farinn að þróa handritið að henni.

Petra Hjartardóttir – meistaranám í skúlptúrdeild Yale School of Art

Petra stundar mastersnám við skúlptúrdeild Yale School of Art í Bandaríkjunum. Námið er af mörgum talið vera kröfuharðasta listnám sem fyrirfinnst í Bandaríkjunum og hvert ár komast aðeins innan við 4% umsækjanda inn í fjórar deildir þess. Petra lauk B.A.-námi frá Hunter College í New York árið 2016 og þar áður stúdentsprófi frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Petra stundar námið við Yale við góðan orðstýr og hefur þegar hlotið tvær viðurkenningar frá skólanum vegna góðs gengis. Petra hlýtur sérlega góð meðmæli og þykir afar efnileg. Verkaskrá hennar (portfolio) sýnir áhugaverð tök á skúlptúr og hún þykir hafa mjög frumlegan og sérstakan stíl.


Í dómnefnd sátu: Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Háskóla Íslands, Jakobína H. Árnadóttir, mannauðsráðgjafi hjá Capacent, Guðrún Norðfjörð, viðskiptastjóri hjá Íslensku auglýsingastofunni, Baldur G. Jónsson, mannauðsstjóri Landsbankans og Halla Jónsdóttir, fræðslustjóri Landsbankans.


19. október 2020 13:36

HEIMA fékk Gulleggið í ár

Viðskiptahugmyndin Heima sigraði í Gullegginu 2020, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og huglægu byrðinni af heimilishaldi jafnt á milli sambýlinga.


Nánar

19. október 2020 07:59

Vikubyrjun 19. október 2020

Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum hér á landi jókst um 7% milli ára í september, sé miðað við fast verðlag. Síðan í maí, þegar fyrsta bylgja faraldursins var að líða undir lok, hefur mælst stöðug aukning á kortaveltu Íslendinga innanlands samanborið við sama mánuð í fyrra.


Nánar

16. október 2020 14:02

Hagsjá: Spáum 3,5% verðbólgu í október

Hagstofan birtir októbermælingu vísitölu neysluverðs (VNV) fimmtudaginn 29. október. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,35% hækkun milli mánaða. Gangi spáin eftir verður verðbólgan óbreytt í 3,5%.


Nánar

Skráðu þig á póstlista