Fréttir

12. september 2017 13:41

Landsbankinn opnar gjaldeyrishraðbanka í Hamraborg - sex aðrir bætast við á næstu vikum

Gjaldeyrishraðbanki hefur verið tekinn í notkun í útibúi Landsbankans í Hamraborg og á næstu vikum mun bankinn opna slíka hraðbankar á sex öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Í gjaldeyrishraðbankanum í Hamraborg er hægt að taka út erlenda seðla í evrum, Bandaríkjadölum, sterlingspundum og dönskum krónum. Hægt er að nota bæði debet- og kreditkort til að taka út úr hraðbönkunum. Sama verðskrá gildir um úttektir úr gjaldeyrishraðbönkum eins og úr öðrum hraðbönkum og því er ódýrara að nota debetkort.

Gjaldeyrishraðbankinn í Hamraborg er aðgengilegur á opnunartíma útibúsins.

Á næstu vikum verða gjaldeyrishraðbankar opnaðir í útibúum Landsbankans í Austurstræti, Grafarholti, Borgartúni, Hafnarfirði, Mjódd og Vesturbæ.

Sífellt fleiri viðskiptavinir nýta sér rafræna þjónustu eða sjálfsafgreiðslulausnir til að sinna sínum bankaviðskiptum. Með því að taka gjaldeyrishraðbankana í notkun vill Landsbankinn gera viðskiptavinum sínum auðveldara að nálgast erlendan gjaldeyri.