Fréttir

09. desember 2016 13:11

Landsbankinn veitir 15 milljónir króna í samfélagsstyrki

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans fimmtudaginn 8. desember sl. Alls hlutu 32 verkefni styrki að þessu sinni.

Verkefnin sem hlutu styrki eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land. Nokkur verkefni tengjast heilbrigðisþjónustu og björgunarstörfum, s.s. kaup á færanlegum gjörgæslubúnaði fyrir nýbura og hitamyndavél til leitar að týndu fólki. Sjóðurinn styrkir einnig menningarverkefni, s.s. tónlistarhátíð við Mývatn og hverfishátíðina Breiðholt festival. Einnig eru styrkt verkefni sem gagnast ungmennum og eldri borgurum og svo mætti áfram telja.

Myndir frá afhendingu styrkjanna
Styrkþegar samfélagsstyrkja Landsbankans ásamt dómnefnd og Hreiðari Bjarnasyni staðgengli bankastjóra.

Myndir frá afhendingu styrkjanna

Guðrún Agnarsdóttir, læknir og formaður dómnefndar segir: „Það var mikið vandaverk að velja þau 32 verkefni sem hlutu styrk úr þeim mikla fjölda umsókna sem barst. Umsóknirnar voru hverri annarri betri. Það er í senn ótrúlegt og ánægjulegt að verða vitni að þeim brennandi áhuga og krafti sem býr með einstaklingum og félagasamtökum sem vilja bæta samfélagið.“

Hreiðar Bjarnason, forstöðumaður Fjármála og staðgengill bankastjóra segir: „Samfélagsstyrkir Landsbankans voru nú afhentir í níunda sinn en þeir koma til viðbótar við annan stuðning bankans við samfélagið. Verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni eru einstaklega fjölbreytt og bera vott um mikinn metnað og áhuga. Fyrir hönd bankans þakka ég öllum sem sóttu um styrki og óska styrkhöfum til hamingju.“

Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð 1 milljón króna, þrjú hlutu 750.000 króna styrk, 13 verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 13 verkefni fengu 250.000 króna styrk.

Tæplega 500 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæka útgáfustarfsemi og verkefni á sviðum menningar og lista.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni, leikara, Þórmundi Jónatanssyni, sérfræðingi hjá Landsbankanum, og Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Samfélagsstyrkir Landsbankans 2016

1.000.000 kr.

 • Elinóra áhugafélag um kvikmyndagerð og fræðslu - Félagið hlýtur styrk til að vinna að verkefninu „Myndin af mér“ sem er 20 mínútna fræðslustuttmynd ætluð aldurshópnum 12-15 ára en rannsóknir sýna nauðsyn þess að fræða þennan hóp um ábyrgðina sem felst í kynferðislegum samskiptum á netinu þar sem aldurshópurinn er líklegastur til þess að valda og verða fyrir skaða af völdum þess sem í daglegu tali er nefnt hrelliklám.
 • Guðni Elísson og Sjöunda listgreinin - Verkefnið Earth101 er helgað miðlun loftslagsvísinda. Verkefnið gengur út á að þekktustu sérfræðingar heims í loftslagsmálum koma til Íslands og flytja fyrirlestra sem teknir eru upp á háskerpuvélar og glærur þeirra fléttaðar inn í. Fyrirlestrana má svo nota sem stuðningsefni við háskólakennslu, en eru jafnframt nógu aðgengilegir til þess að almenningur geti notið þeirra. Earth101 gefur einnig út stuttmyndir og viðtöl við sérfræðinga sem er ætlað að skýra á einfaldan hátt lykilatriði í loftslagsvísindum.
 • Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri - Samtökin hljóta styrk til kaupa á ferðagjörgæslu í sjúkraflug fyrir mikið veika nýbura. Það tæki sem nú er notast við er 40 ára gamalt og fagfólk hreinlega treystir ekki búnaðinum lengur. Engin vill hugsa það til enda ef núverandi útbúnaður bilar í sjúkraflugi.

750.000 kr.

 • Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave - Styrkurinn er veittur til að standa að 10 ára afmælishátíð Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave. Hátíðin býður upp á fjölbreytta dagskrá stuttmynda víðsvegar að úr heiminum, íslensk tónlistarmyndbönd, vídeóverk og stuttmyndir. Stuttmyndir eru mikilvægur þáttur í kvikmyndagerð, enda það form sem flestir kvikmyndagerðarmenn hefja feril sinn á.
 • Breiðholt Festival - Breiðholt Festival er framsækin og fjölskylduvæn menningarhátíð við Seljadal í Breiðholti, sem haldin verður sumarið 2017. Haldnir verða tónleikar, myndlistarsýningar, samflot, vatnsjóga, matarmarkaður, vinnusmiðjur o.fl. Hátíðin, sem ekki snýst bara um menningu og listir heldur einnig nýsköpun, gefur aðra mynd af Breiðholti, hverfi sem er með mjög áhugaverða sögu, en hefur á síðustu árum ekki notið sannmælis.
 • Hjálparsveit skáta í Reykjavík - Styrkurinn er veittur til kaupa á hitamyndavél til leitar og björgunar. Sveitin hefur haft slíka vél að láni undanfarið og séð að slíkur búnaður er afar notadrjúgur þar sem hann getur greint manneskjur í myrkri með mun meiri nákvæmni en mannlegt auga er fært um.

500.000 kr.

 • Alzheimersamtökin - Styrkurinn er veittur samtökunum til að koma á fleiri stuðningshópum fyrir aðstandendur fólks með heilabilun. Í dag eru samverustundir fyrir aðstandendur einu sinni í mánuði á dagvinnutíma sem stýrt er af sjálfboðaliðum. Markmiðið er að bjóða upp á stuðningshópa utan dagvinnutíma undir leiðsögn fagaðila.
 • Auðnast ehf. - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Tímamót og tækifæri sem er forvarnarmiðað verkefni sem hefur þann tilgang og hlutverk að efla, viðhalda og bæta heilsu eldri borgara. Með snemmtækri skimun og fræðslu fyrir yngsta hóp (h)eldriborgara er hugmyndin að koma í veg fyrir og milda áhrif þess að eldast, hvort sem er af líffræðilegum eða félags- og samfélagslegum árifum.
 • Ásrún Matthíasdóttir - Styrkurinn er veittur til rannsóknar á líðan og námsgengi nemenda í tækninámi en rannsókninni er ætlað að auka þekkingu á efninu með það að markmiði að stuðla að bættri líðan þeirra og betra námsgengi. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort tengsl séu á milli þess hvernig nemendum í tækninámi líður, þess náms og starfsumhverfis sem þeir lifa í og námsgengis.
 • Borgarsögusafn Reykjavíkur - Styrkurinn er veittur til að búa til gagnagrunn þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um sjóslys við Íslandsstrendur á tímabilinu 1870-2015. Tilgreind verða skipin, slysin, tildrög þeirra, veður á slysdaginn og upplýsingar um þá sem fórust, auk blaðaumfjallana um slysin og fleira.
 • Hafrún Kristjánsdóttir og Háskólinn í Reykjavík - Styrkurinn er veittur til rannsóknar á stöðu jafnréttismála í íþróttum. Til afmörkunar mun rannsóknin skoða stöðu jafnréttismála í handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu.
 • Heimili og skóli - landssamtök foreldra – Samtökin hljóta styrk til að flytja fyrirlestra fyrir alla 6. bekki í Reykjavík skólaárið 2016-2017. Í fræðsluerindinu verður farið yfir einkenni tælingarmála, alvarleika rafræns eineltis og óvarlegra samskipta og myndbirtinga á netinu. Einnig verður fjallað um slæm áhrif ofnotkunar á tölvum og neti, auk þess sem hvatt er til jákvæðrar og ábyrgrar netnotkunar.
 • Hugrún – Geðfræðslufélag - Styrkurinn er veittur til geðfræðslufélagsins Hugrúnar en félagið samanstendur af nemendum í sálfræði, læknisfræði og hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands ásamt öðru áhugafólki um geðheilbrigðismál. Markmið félagsins er að bæta fræðslu um geðheilbrigði og auka vitund um úrræði hjá ungu fólki ásamt því að draga úr fordómum gagnvart andlegum veikindum. Með fræðslu má draga úr fordómum gagnvart geðröskunum og auka líkurnar á að fólk leiti sér fyrr hjálpar.
 • Höfundamiðstöð Rithöfundasambands Íslands - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Skapandi lestur - skapandi skrif sem samanstendur af bókmenntadagskrá og ritsmiðjum fyrir öll grunnskólastig haustið 2017. Markmið verkefnisins er að kynna skapandi skrif með virkri þátttöku nemenda og kennara og að veita innsýn í daglegt líf og starf höfundarins. Eitt aðalmarkmiðið er að sýna nemendum á öllum grunnskólastigum að þeir geti líka skrifað og skapað, fundið sína rödd og haft eitthvað til málanna að leggja.
 • Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur - Kraftur ætlar að boða til vitundarvakningar um krabbamein og ungt fólk í janúar 2017. Birtar verða tölur um greinda, aldur þeirra og tegund krabbameins, ásamt lifun. Átakið fer fram í formi mynda sem birtar verða á áberandi stöðum á Reykjavíkursvæðinu, ásamt því sem leitað verður eftir samvinnu við fjölmiðla. Á þessu ári stóð félagið fyrir herferðinni „Share your scar“ sem vakti mikla athygli.
 • Ljósmyndarafélag Íslands - Ljósmyndarafélag Íslands fagnar 90 ára afmæli á árinu og er styrkurinn veittur til útgáfu menningar- og listarits um ljósmyndun síðastliðinna 90 ára. Þar verður fjallað um ljósmyndun og áhrif ljósmyndunnar á breiðum grundvelli á íslenskt samfélag. Ritið er mikilvægt innlegg í skráningu á íslenskri menningarsögu og færir þessa mikilvægu grein nær almenningi.
 • Marín Hrafnsdóttir og Kristín Sigurrós Einarsdóttir - Styrkurinn er veittur til sýningar um ævi og störf skáldkonunnar Guðrúnar frá Lundi, sem var gríðarlega vinsæll rithöfundur, en átti ekki upp á pallborðið hjá því sem stundum er nefnt „menningarelítan“. Þó er ljóst að sögur hennar höfðuðu til margra og eru merk heimild um líf til sveita á tíma rithöfundarins. Sýningin verður sett upp af sérfræðingum í bókmenntum og sögu svæðisins og er gott innlegg í bókmenntasögu utan höfuðborgarsvæðisins. Þess má geta að Marín er langömmubarn skáldkonunnar.
 • Rannveig Gústafsdóttir - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Vinnumansal eða kjarasamningsbrot en markmið þess er að finna leiðir til að ráða niðurlögum á misnotkun vinnuafls. Misnotkun á vinnuafli hefur ekki aðeins slæmar afleiðingar fyrir starfsfólk heldur einnig fyrir vinnumarkaðinn í heild, og þar af leiðandi hagsæld. Rætt verður við starfsfólk, atvinnurekendur og fræðilegar heimildir skoðaðar.
 • Skákakademía Reykjavíkur - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Talað og teflt sem Skákakademían ætlar að setja á laggirnar fyrir sýrlenskt flóttafólk. Með því verkefni er ætlunin að kynna Sýrlendingunum nýtt áhugamál sem á auðveldan og uppbyggilegan hátt má rækta innan skáksamfélagsins. Um leið og þau læra skák er ætlunin með verkefninu að efla möguleika þeirra á að læra íslensku. Við verkefnið mun m.a. starfa skákfólk sem talar í senn ensku, arabísku og íslensku.

250.000 kr.

 • Bryndís Guðmundsdóttir - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Íslenski málhljóðamælirinn, sem er skimunarpróf fyrir spjaldtölvur, sem skimar framburð og hljóðkerfisþætti hjá börnum. Rannsóknir sýna að slík próf hafa forspárgildi fyrir læsi og frekara nám. Til þess að finna börn í áhættu þarf að vera til skimunartæki sem metur fljótt og vel hvaða börn þurfa sérstök úrræði en löng bið er eftir fyrstu skimun hjá talmeinafræðingum.
 • Daníel Sigríðarson - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Spítalablöðrur en síðastliðin 4 ár hefur Daníel farið í vikulegar heimsóknir á Barnaspítala Hringsins og útbúið blöðrudýr fyrir börnin sem þar dvelja. Einnig hefur hann útvegað blöðrur, pumpur og kennslubók til að hafa á staðnum svo börnin geti útbúið blöðrur þegar þau vilja.
 • Félag lesblindra á Íslandi – Styrkurinn rennur til verkefnisins Lesblinda á vinnustaðnum en tilgangur verkefnisins er að jafna stöðu lesblindra á vinnumarkaðnum með því að þróa og koma á námskeiði fyrir vinnustaði um lesblindu og áhrif hennar á vinnustaðnum.
 • Finnur Friðriksson – Styrkurinn er veittur til að halda ráðstefnuna Mál og kyn við Háskólann á Akureyri á næsta ári. Ráðstefna þessi er á vegum norræns tengslanets um rannsóknir á sviði máls og kyns og er ætlað að styrkja íslenskar undirstöður rannsóknarsviðs sem hefur lítt verið sinnt hér á landi til þessa.
 • Guðrún Ósk Guðjónsdóttir – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Tákn með tali - spilið. Verkefnið gengur út á að hanna og framleiða 600 eintök af spilinu Tákn með tali en tilgangur þess er að kenna einstaklingum með málörðugleika og aðstandendum þeirra tákn með tali á auðveldan og skemmtilegan hátt.
 • Kammersveit Reykjavíkur – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Þegar draumarnir rætast þar sem markmiðið er að skrá og gefa út sögu Kammersveitarinnar frá stofnun sveitarinnar til dagsins í dag. Á þessum áratugum hafa orðið algjör umskipti í tónleikahaldi á Íslandi, í fjölgun tónlistarmanna og tónlistarhópa og tónskáldin hafa þar fundið sinn vettvang.
 • Miðstöð foreldra og barna –Styrkurinn er veittur til verkefnisins Ungbarnafjölskyldur til að gefa foreldrum ungbarnabókina „Fyrstu 1.000 dagarnir – barn verður til“. Miðstöð foreldra og barna veitir sérhæfða meðferð fyrir ungbörn og foreldra þeirra. Þunglyndi og önnur vanlíðan móður hefur mikil áhrif á þroska, vellíðan og heilsufar barnsins fram á fullorðinsár.
 • Músík í Mývatnssveit – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Músík í Mývatnssveit, árleg tónlistarhátíð sem er haldin á páskunum, nú áætluð í tuttugasta sinn. Tónlistarhátíðin er eina klassíska tónlistarhátíðin á landsbyggðinni sem á sér stað að vetri til. Það er þýðingarmikið (fyrir flytjendur) að halda tónleika utan höfuðborgarsvæðisins, það aflar tónlistinni nýrra njótenda og er auk þess mikilvægt atvinnutækifæri fyrir tónlistarmenn.
 • Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Hlýtur styrk fyrir verkefnið Helgarnámskeið fyrir fjölskyldur barna með langvinna sjúkdóma eða fötlun. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjardals og Greiningarstöðvar ríkisins. Fjölskyldum fatlaðra barna með alvarlega sjúkdóma verður boðið upp á helgarnámskeið þar sem markmiðið er að skapa vettvang fyrir fjölskyldur sem er í senn fræðsla og skemmtun.
 • Sögufélag – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Hinsegin saga – greinasafn þar sem sjö sagnfræðingar, kynjafræðingar og bókmenntafræðingar leiða saman hesta sína og taka skref í átt að ritun hinsegin sögu á Íslandi. Greinarnar fjalla m.a. um bókasafn Samtakanna '78, þýðingar á ljóðum Saffóar á íslensku, orðræðuna um samkynhneigð á 20. öld, kossa íslenskra karla og hugmyndina um Ísland sem hinsegin útópíu.
 • Þorgrímur Þráinsson – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Skapandi skrif sem ætlað er að efla læsi meðal nemenda á miðstigi, 5.-7. bekk, með því að hvetja þá til að skrifa sögur, ljóð og texta.
 • Þuríður Helga Kristjánsdóttir – Styrkurinn er veittur til að framleiða fuglalímmiðabók, límmiðabók með myndum af íslenskum varpfuglum. Á möppunni eru myndir af þremur ólíkum kjörlendum fugla og er fuglalímmiðunum raðað á viðeigandi stað. Bókin er unnin í samstarfi við Fuglavernd og Landvernd.
 • Öldrunarheimili Akureyrar - Styrkurinn er veittur til að útbúa fræðsluefni fyrir börn um heilabilun. Heilabilun er algengur sjúkdómur meðal aldraðra í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að fræða aðstandendur og almenning um heilabilun til að koma í veg fyrir fordóma og hræðslu við einstaklinga með heilabilun.

Myndir frá afhendingu styrkjanna

09. júlí 2020 12:28

Opnað fyrir umsóknir um stuðningslán og viðbótarlán

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um stuðningslán og viðbótarlán fyrir fyrirtæki. Nánari upplýsingar um úrræði fyrir fyrirtæki sem verða fyrir áhrifum af heimsfaraldri Covid-19 eru á vef bankans.


Nánar

09. júlí 2020 11:09

Hagsjá: Verðbólgan áfram við markmið

Hagstofan birtir júlímælingu vísitölu neysluverðs (VNV) föstudaginn 24. júlí. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% lækkun milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar verðbólgan úr 2,6% í 2,5%.


Nánar

06. júlí 2020 09:10

Umræðan: Hvort borgar sig að leigja eða kaupa?

Stundum eru notaðar einfaldar aðferðir til þess að meta hvort hagstæðara sé að leigja eða kaupa húsnæði. Þá er markaðsverði eignarinnar oft stillt upp á móti ársleigu reiknað á fermetra.


Nánar

Skráðu þig á póstlista