Fréttir

15. september 2016 17:10

Landsbankinn nýtir heimild til kaupa á eigin hlutum í bankanum

Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að nýta heimild til kaupa á eigin hlutum í bankanum sem veitt var á aðalfundi bankans 14. apríl 2016. Kaupin munu nema að hámarki 480 milljónum hluta eða sem nemur 2% af útgefnu hlutafé. Tilgangurinn með endurkaupaáætluninni er að lækka eigið fé bankans og um leið gefa hluthöfum kost á að selja hluti sína í bankanum með gagnsæjum hætti en hömlur á framsali hlutanna féllu niður 1. september 2016.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans er 28,6% sem er verulega umfram kröfur eftirlitsaðila. Bankinn hefur lækkað eigið fé með því að greiða stóran hluta hagnaðar undanfarinna ára út sem arð. Arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2016 nema alls 82 milljörðum króna.

Landsbankinn býðst til að kaupa hluti af hluthöfum á eftirfarandi þremur endurkaupatímabilum:1

  • 19. september 2016 – 30. september 2016
  • 31. október 2016 – 9. desember 2016
  • 13. febrúar 2017 – 24. febrúar 2017

Þeir hluthafar sem ákveða að nýta sér framangreint boð skulu senda Landsbankanum tilkynningu þar að lútandi og er eyðublað fyrir tilkynninguna aðgengilegt á vef bankans. Tilkynningar verða afgreiddar á hverju tímabili í þeirri röð sem þær berast bankanum þar til framangreindu hámarki (480 milljónir hluta) verður náð. Verði hámarkinu náð á einhverju endurkaupatímabilanna verða frekari tilkynningar því ekki afgreiddar, hvort sem það verður á fyrsta, öðru eða þriðja tímabilinu.

Í samræmi við ákvörðun aðalfundar býðst Landsbankinn til að kaupa hvern hlut á framangreindum endurkaupatímabilum á gengi sem samsvarar hlutfallinu á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og hlutafjár bankans, samkvæmt síðasta birta uppgjöri áður en viðkomandi endurkaupatímabil hefst. Kaupverð hlutanna getur þannig tekið breytingum milli endurkaupatímabila í samræmi við niðurstöður árshlutauppgjörs eða ársuppgjörs áður en viðkomandi endurkaupatímabil hefst.

Samkvæmt árshlutauppgjöri Landsbankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2016 er eigið fé sem tilheyrir hluthöfum bankans 247.249.765.805 krónur og útistandandi hlutafé 23.781.690.382. Í samræmi við framangreint býðst Landsbankinn því til að kaupa hvern hlut á genginu 10,3966 á fyrsta endurkaupatímabilinu. Landsbankinn hyggst birta árshlutareikning sinn fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2016 þann 27. október 2016 og ársreikning fyrir árið 2016 þann 9. febrúar 2017. Bankinn mun birta upplýsingar um það verð sem hann býðst til að greiða fyrir eigin hluti á næsta endurkaupatímabili í tengslum við uppgjörstilkynningar sínar. Tilkynningarnar verða birtar á vef Landsbankans og í fréttakerfi kauphallarinnar.

Á aðalfundi bankans þann 14. apríl 2016 var samþykkt að greiða 28.538 milljónir króna í arð vegna reikningsársins 2015.2 Um leið var bankanum veitt heimild til kaupa á eigin hlutum. Heimildin gaf kost á að meta síðar á árinu hvort unnt væri að færa meira fé til eigenda, í ljósi aðstæðna. Góð afkoma bankans á þessu ári veldur því að slíkt svigrúm er fyrir hendi. Kaup bankans á eigin hlutum koma þannig til viðbótar við arðgreiðsluna og lækka eigið fé bankans.

Hluthafar í Landsbankanum

Við stofnun Landsbankans 7. október 2008 lagði íslenska ríkið nýja bankanum til 775 milljónir króna í eigið fé og síðar 121,2 milljarða króna til viðbótar í formi skuldabréfs með gjalddaga árið 2018, eða samtals 122 milljarða króna. Þar með eignaðist íslenska ríkið 81,33% hlutafjár í bankanum en LBI hf. (slitabú gamla Landsbanka Íslands) átti 18,67% hlut. Í apríl 2013 gaf Landsbankinn út skilyrt skuldabréf til LBI að fjárhæð 92 milljarðar króna og við það framseldi LBI hluti sína í bankanum til íslenska ríkisins. Þar með fór eignarhlutur ríkisins í um 98%. Á sama tíma eignuðust þáverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans hluti í bankanum, sem áður voru í eigu LBI, í samræmi við samning íslenska ríkisins, bankans og LBI frá 15. desember 2009. Á þeim hlutum voru kvaðir um að ekki mætti framselja hlutina fyrr en 1. september 2016 en gert hafði verið ráð fyrir að búið yrði að skrá hlutabréf í bankanum á skipulegan verðbréfamarkað fyrir þann tíma. Árið 2015 runnu Sparisjóður Norðurlands og Sparisjóður Vestmannaeyja saman við Landsbankann og fengu þá rúmlega 400 stofnfjáreigendur endurgjald sem greitt var með hlutum í Landsbankanum. Á þeim hlutum voru samsvarandi hömlur á framsali.

Alls eru hluthafar Landsbankans 1.833 talsins. Íslenska ríkið er stærsti hluthafi bankans og á 98,2% hlut. Bankinn á sjálfur 0,91% hlut. Þá eiga um 870 núverandi starfsmenn bankans, um 530 fyrrverandi starfsmenn og um 430 fyrrum stofnfjárhafar í tveimur sparisjóðum samtals 0,89%. Bankaráðsmenn Landsbankans eiga ekki hluti í bankanum.

Að loknu hverju endurkaupatímabili mun Landsbankinn upplýsa um heildarfjölda seldra hluta og hvort bankastjóri eða framkvæmdastjórar hjá bankanum hafi selt hluti í bankanum.

Landsbankinn mun senda hluthöfum bréf með upplýsingum um endurkaupaáætlunina.

Landsbankinn.is/endurkaup

Nánari upplýsingar um eignarhald Landsbankans

1. Dagsetningar annars og þriðja endurkaupatímabils taka mið af áætlaðri tímasetningu á birtingu fjárhagsuppgjöra bankans þann 27. október 2016 og 9. febrúar 2017. Gerður er sá fyrirvari að þessar dagsetningar annars og þriðja endurkaupatímabils kunna að breytast ef breytingar verða á tímasetningu á birtingu fjárhagsuppgjöra bankans.

2. Á aðalfundinum 14. apríl 2016 var samþykkt að greiða arð til hluthafa með tveimur jöfnum greiðslum og var gjalddagi fyrri greiðslunnar 20. apríl 2016. Gjalddagi seinni greiðslunnar er 21. september 2016 og miðast sú greiðsla við hlutaskrá í lok 14. apríl 2016 nema bankanum berist tilkynning um að arður hafi verið framseldur með framsali hlutabréfs. Þeir hluthafar sem selja hluti á grundvelli endurkaupaáætlunarinnar munu við framsal hluta ekki framselja seinni arðgreiðsluna sem tengist þeim hlutum og munu því halda rétti til seinni arðgreiðslunnar þótt þeir selji hluti á fyrsta endurkaupatímabilinu.

02. júlí 2020 14:49

Landsbankinn styrkir fimmtán framúrskarandi námsmenn

Landsbankinn úthlutaði námsstyrkjum til fimmtán námsmanna úr Samfélagssjóði bankans þann 1. júlí sl. Styrkirnir voru veittir í þrítugasta og fyrsta skipti. Heildarupphæð námsstyrkjanna nemur sex milljónum króna. Alls bárust rúmlega 500 umsóknir í ár en Landsbankinn er eini bankinn sem veitir námsstyrki.


Nánar

29. júní 2020 18:24

Umræðan: Fjármálageirinn og loftslagsvandinn

Hlutverk fjármálageirans í baráttunni við loftslagsvandann er til umfjöllunar í nýrri greinaröð Ara Skúlasonar hagfræðings á Umræðunni. Landsbankinn telur mikilvægt að fjalla um loftslagsmál og hið mikilvæga hlutverk sem fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaðir munu gegna í þeim breytingum sem framundan eru.


Nánar

29. júní 2020 10:48

Hagsjá: Vinnumarkaðskönnun - áframhaldandi merki um veikari vinnumarkað

Starfandi fólki hefur fækkað töluvert á undanförnum mánuðum. Þá hefur vinnutími líka styst, sem þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur farið minnkandi. Sé vinnuaflsnotkun nú borin saman við stöðuna fyrir ári kemur í ljós að breytingin síðustu 3 mánuði er veruleg miðað við síðustu ár og allt fram á þetta ár þegar vinnuaflsnotkun var almennt að aukast. Í maí minnkaði vinnuaflsnotkun um 8,8% miðað við maí 2019, bæði vegna fækkunar starfandi fólks og styttri vinnutíma. Í apríl dróst vinnuaflsnotkunin hins vegar saman um rúm 13%, aðallega vegna fækkunar starfandi fólks, en vinnutími styttist einnig á milli ára.


Nánar

Skráðu þig á póstlista