Fréttir

10. ágúst 2016 12:27

Þrjár og hálf milljón til 32 verkefna úr Menningarnæturpotti

Alls fengu 32 verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans en styrkirnir voru veittir þann 9. ágúst 2016. Hægt verður að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt þann 20. ágúst. Veittir voru styrkir á bilinu 50-250 þúsund kr. til einstaklinga og hópa, samtals þrjár og hálf milljón kr. Um er að ræða samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.

Starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana úr hópi 125 umsókna en þetta er í sjöunda skipti sem veitt er úr Menningarnæturpottinum. Við úthlutunina var lögð áhersla á að styrkja skemmtilega og frumlega viðburði sem tengjast Grandasvæðinu en helmingur verkefna sem fengu styrki eru þaðan.

Landsbankinn mun til viðbótar við þessa styrki standa fyrir árvissri dagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.

Menningarnótt verður haldin í 21. skipti laugardaginn 20. ágúst. Þá fylla stórir og smáir viðburðir götur og torg miðborgarinnar, húsasund, garða, gallerí, verslanir, menningarstofnanir og heimahús. Í lok Menningarnætur verður að vanda glæsileg flugeldasýning í boði Reykjavíkurborgar.

Grandasvæðið er áherslusvæði Menningarnætur í ár en jafnframt er vakin sérstök athygli á Grjótaþorpinu í hjarta Reykjavíkur en þar verður sett upp sýning í tilefni af 230 ára afmæli Reykjavíkur. Ísafjarðarbær sem fagnar 150 ára afmæli í ár, er gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar á Menningarnótt. Bærinn verður með viðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur auk þess sem lokaatriði Tónaflóðs Rásar 2 er tileinkað honum. Yfirskrift Menningarnætur er eins og áður ,,Gakktu í bæinn" og vísar til þeirrar gömlu íslensku venju að bjóða gesti velkomna og gera vel við þá. Menningarnótt er þátttökuhátíð sem byggir á framlagi fjölda aðila sem standa að menningarlífi í borginni og annarra sem nota þetta tækifæri til að setja svip sinn á borgarlífið. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á því fjölbreytta menningarlífi sem á sér stað í borginni og hvetja borgarbúa til þátttöku.

Styrkþegar 2016

Styrkir að upphæð 250.000 kr.

 • Melkorka Magnúsdóttir og hljómsveitin Milkywhale - Óhefðbundin hvalaskoðunarferð sem er í senn útitónleikar, sigling og danssýning.
 • Sverrir Guðjónsson – Grjótaþorp- Hjarta Reykjavíkur. Innsetning og ljósmyndasýning sem tengist fólkinu í þorpinu og vísar jafnframt til uppruna okkar í gegnum landnám Reykjavíkur.

Styrkir að upphæð 200.000 kr.

 • Heimilislausa leikhúsið "ETHOS" heldur kveðjuritúal "Svanasöng" inní og umhverfis Herkastalann í Kirkjustræti í tilefni af því að starfsemi Hjálpræðishersins flytur úr kastalanum næsta haust. Leikhópurinn nýtur leiðsagnar Rúnars Guðbrandssonar leikstjóra.
 • Spessi/Sigþór Hallbjörnsson – Custom Bike Show 2016. Rokktónleikarnir "Rokk og ról og mótorhjól" til minningar um mótorhjólafólk sem fallið hefur frá.
 • Ólafur Örn Ólafsson - KRÁS matarmarkaður í Fótgetagarðinum. Á Menningarnótt er lokadagur markaðarins og því verður mikið um húllumhæ og lokapartí.

Styrkir að upphæð 150.000 kr.

 • Spunaleikhópurinn Improv Ísland sýnir langspuna sem felur í sér eina eða fleiri senur í einni heild.
 • Tjarnarleikhópurinn verður með hjólastóladiskótek í porti Hafnarhússins.
 • Bandalag íslenskra skáta verða með skátaþrautir í Hljómskálagarðinum.

Styrkir að upphæð 100.000 kr.

 • Snorri Ástráðsson – HIP HOP Reykjavík. Tónleikar með helsta hip hop og eletronic tónlistarfólki Íslands.
 • Kaffislippur og Bókmenntaborg UNSECO standa fyrir orð- og tónadjammi á Kaffislipp í tilefni Menningarnætur.
 • KÍTÓN – Konur í tónlist – Tónleikar með íslenskum tónlistarkonum.
 • Karlakór Reykjavíkur – Skýtur upp kollinum úti um allan bæ.
 • Ásgerður Júníusdóttir – Frönsk/íslensk dagskrá í tali og tónum þar sem viðfangsefnið er hin myrka dulúð vatns og náttúruvætta.
 • Festisvall – Mucho miðbær. Hátíð með lifandi tónlist, myndlistarsýningu og fjölbreyttum uppákomum fyrir alla aldurshópa.
 • Listavinafélag Hallgrímskirkju – Sálmafoss – kórar og organistar flytja fjölbreytta kirkjutónlist eftir íslenskar skáldkonur og tónskáld.
 • Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Hrefna Lind Lárusdóttir – Mindfuckness. Gestum verður boðið upp á hljóðverk og sviðsettan jógatíma með lifandi tónlist.
 • Spor menningarmiðlun / Fríða Björk Ólafsdóttir – Verbúðarlíf á miðri síðustu öld. Dæmigert verbúðaherbergi verður til sýnis þar sem aðstæðum farandverkafólks upp úr miðri síðustu öld er lýst.
 • Steinunn Sigurðardóttir og Laufey Jónsdóttir – Síbreytileg. Á Grandanum er yfirleitt vindasamt og verkefnið mun snúast um textíl og vindinn, hvernig þetta tvennt vinnur saman og dáleiðir áhorfandann.
 • OH verkefnið – Pálmatré. Verkið samanstendur af tveimur tvívíðum pálmatrjám úr áli og verður í Marshall húsinu.
 • Sendiráð Rockall – Ungum sem öldnum er boðið að taka þátt í vinnusmiðju þar sem verða þróaðar, hannaðar og formgerðar hugmyndir fyrir samfélag morgundagsins.
 • Huldufugl – Askur Yggdrasils. Yggdrasill er völundarhús fyrir alla fjölskylduna, sem hefur ýmislegt að geyma.
 • Víkin Kaffihús – Grandafjölskyldufjör í Víkinni. Skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna og ball með Royal um kvöldið.
 • Félagið Ísland Ungverjaland – Ungverska þorpið. 1000 ára menning Ungverjalands sögð í gegnum tónlist, söng og dans.

Styrkir að upphæð 50.000 kr.

 • I. Magnússon – Blúshátíð á Grandanum.
 • Sumarópera unga fólksins – Verkefnið "Töfranótt" á vegum Óperuakademíu unga fólksins. Létt og skemmtileg dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
 • Ostabúrið– Allt fyrir ostana - Söngdagskrá um osta og ást.
 • Álfheiður Erla Guðmundsdóttir – Kvöldtónar í Dómkirkjunni í Reykjavík. Flutt verða söngljóð og óperuaríur.
 • Salsa Iceland – Salsadans á Menningarnótt. Boðið veður upp á prufutíma í salsadansi, auk þess sem sýningarteymi Salsa Iceland munu bjóða upp á sýningar og salsadansgólf fyrir salsadansara.
 • Ós pressan – UPPLIFÐU ÓS. Ós pressan mun breyta venjulegum 40 feta gámi í hlýlegt upplestrarrými með glitrandi lýsingu, þægilegum stólum og teppum.
 • Elín Edda Pálsdóttir – Sagnaflóð í Bókabúð Forlagsins. Skáld lesa upp úr bókum sínum. Hljómsveitirnar Boogie Touble og Teitur Magnússon spila skemmtileg dægurlög.
 • Hulda Hreindal Sigurðardóttir – "Fléttum saman hið gamla og nýja í öllum regnbogans litum". Ungir sem gamlir flétta saman gamla og nýja tímanum.
 • Borgarsögusafn Reykjavíkur – "Bátasmiðja og veiðarfæri" í Sjóminjasafninu í Reykjavík þar sem gestum gefst kostur á að prófa sig áfram í bátasmíði.

17. september 2019 13:27

Umræðan: Fyrirtæki metin út frá samfélagsábyrgð

Í nýju viðtali á Umræðunni ræðir Tom Haas Carstensen, framkvæmdastjóri hjá LGT Capital Partners um mikilvægi þess að taka mið af umhverfislegum og félagslegum sjónarmiðum í fjárfestingum. LGT hefur þróað aðferð til að meta fyrirtæki út frá því hvernig þau standa sig í samfélagsábyrgð.


Nánar

12. september 2019 10:24

Ferðaþjónusturáðstefna Landsbankans haldin 26. september

Landsbankinn stendur fyrir opinni ráðstefnu um stöðu og framtíðarhorfur ferðaþjónustu á Íslandi fimmtudaginn 26. september 2019 í Silfurbergi Hörpu.


Nánar

05. september 2019 16:33

Landsbankinn + Iceland Airwaves kynna: Una Schram

Landsbankinn hitar upp fyrir Iceland Airwaves með því að birta ný myndbönd og viðtöl við ungt tónlistarfólk á Iceland Airwaves-vef bankans. Að þessu sinni mun bankinn birta eitt myndband í einu og fyrsti tónlistarmaðurinn í ár var Krassasig. Nú er komið að myndbandi númer tvö í röðinni og er það með söngkonunni Unu Schram.


Nánar