Fréttir

12. maí 2016 16:05

Landsbankinn hagnast um 3,3 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 en hagnaður á sama tímabili árið 2015 nam 6,4 milljörðum króna.

Rekstrartekjur á 1. ársfjórðungi námu 11,5 milljörðum króna samanborið við 14,7 milljarða króna á sama tímabili árið 2015. Launakostnaður hækkaði í takti við ákvæði nýrra kjarasamninga en á hinn bóginn lækkaði annar rekstrarkostnaður þannig að heildarrekstrarkostnaður bankans lækkaði um 0,5% miðað við sama tímabil 2015.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 1,9% á 1. ársfjórðungi 2016 en var 2,0% á sama tímabili árið áður.

Útlán Landsbankans jukust miðað við sama tímabil í fyrra, þrátt fyrir mikla og vaxandi samkeppni á lánamarkaði. Einnig hækkuðu þjónustutekjur vegna vaxandi viðskipta.

Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka og var 1,7% á 1. ársfjórðungi, samanborið við 2,3% á sama tímabili í fyrra.

Kostnaðarhlutfall hækkaði sem skýrist einkum af lægri tekjum af verðbréfum. Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins er 55,8% samanborið við 48% á sama tímabili árið áður.

Eigið fé Landsbankans var 267,8 milljarðar króna 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 31,2%. Landsbankinn greiðir á þessu ári 28,5 milljarða króna í arð í tveimur greiðslum, annars vegar 20. apríl og hins vegar 21. september og gætir áhrifa arðgreiðslunnar því ekki í þessu uppgjöri.

Ársreikningur samstæðu 1F 2016

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Upplýsingablað

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi 2016 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (03:56):
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir: „Afkoma Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi er viðunandi. Af hálfu bankans hefur lengi verið rætt um að vægi einskiptisliða, svo sem jákvæðra virðisbreytinga útlána, færi minnkandi og að ekki væri reiknað með áhrifum einskiptisliða til framtíðar. Sú hefur orðið raunin og uppgjörið nú lýsir reglubundnum rekstri bankans, án verulegra áhrifa frá óreglulegum liðum.

Bankinn þarf að skila viðunandi arðsemi, en á sama tíma þarf áhætta að vera innan marka. Bankinn þarf að vera traustur og reksturinn hagkvæmur. Í samræmi við stefnu Landsbankans er markvisst unnið að því að draga úr áhættu og auka skilvirkni. Í sumum tilfellum kalla hagræðingaraðgerðir á aukin útgjöld og fjárfestingu til skamms tíma en leiða til mikils sparnaðar þegar upp er staðið. Þetta á til dæmis við um endurnýjun á grunnupplýsingakerfum bankans sem nú er unnið að í samvinnu við Reiknistofu bankanna.

Landsbankinn stendur vel eins og mikil og vaxandi markaðshlutdeild, traustur efnahagur og arðgreiðslur bera glöggt merki um. Vel hefur gengið að innleiða stefnu bankans en lykilatriði í henni er að viðskiptavinir finni að með Landsbankanum nái þeir árangri og að þeir njóti ávinnings af viðskiptum við bankann.“

Helstu atriði úr rekstri á 1. ársfjórðungi (1F) 2016

Rekstur:

 • Hagnaður Landsbankans á 1. ársfjórðungi nam 3,3 milljörðum króna, samanborið við 6,4 milljarða króna á 1F 2015.
 • Arðsemi eiginfjár eftir skatta nam 5,0%, samanborið við 10,6% fyrir sama tímabil árið 2015.
 • Virðisbreytingar útlána á fyrstu þremur mánuðum ársins voru jákvæðar um 311 milljónir króna.
 • Hreinar vaxtatekjur námu 7,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í samanburði við 7,3 milljarða á sama tímabili árið 2015.
 • Hreinar þjónustutekjur námu tæpum 2 milljörðum króna en þær voru 1,6 milljarðar króna á 1. ársfjórðungi 2015. Aukning nemur um 21% frá sama tímabili árið áður sem skýrist af auknum viðskiptum.
 • Vaxtamunur eigna og skulda nemur 1,9% samanborið við 2,0% á sama tímabili árið áður.
 • Laun og launatengd gjöld nema 3,8 milljörðum króna og hækka um 1,4% á milli tímabila.
 • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum lækkar um 3,1% frá sama tímabili árið áður.
 • Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins var 55,8% samanborið við 48% á sama tíma árið áður.
 • Stöðugildi 31. mars voru 1.063 en voru 1.102 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

 • Eigið fé Landsbankans nam í lok mars um 267,8 milljörðum króna og hefur það hækkað um 1,25% frá áramótum.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) 31. mars 2016 var 31,2% en var 26,7% í lok mars 2015. Það er vel umfram 21,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
 • Heildareignir bankans námu 1.107 milljörðum króna í lok mars 2016.
 • Innlán viðskiptavina námu 545 milljörðum króna í lok mars 2016 samanborið við 559 milljarða króna í lok árs 2015.
 • Ný útlán til viðskiptavina á fyrsta ársfjórðungi eru um 49 milljarðar króna, en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta hækka heildarútlán um 3,1 milljarða króna á tímabilinu.
 • Lausafjárstaða bankans er sterk sem fyrr, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og er vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Heildarlausafjárstaða bankans, sem og lausafjárstaða bankans í erlendri mynt er umfram lausafjárviðmið Seðlabankans. Lausafjárhlutfall (LCR) var 134% í lok mars 2016.
 • Gjaldeyrisjöfnuður bankans er sterkur en eignir í erlendri mynt eru um 17 milljörðum króna umfram skuldir í erlendri mynt.
 • Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 1,7% í lok mars 2016 samanborið við 1,8% í lok árs 2015.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  1F 2016 1F 2015 2015 2014
Hagnaður eftir skatta 3.315 6.412 36.460 29.737
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 5,0% 10,6% 14,8% 12,5%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta * 5,7% 10,0% 10,6% 7,5%
Vaxtamunur eigna og skulda ** 1,9% 2,0% 2,2% 1,9%
Kostnaðarhlutfall *** 55,8% 48,0% 43,8% 56,0%

  31.03.16 31.03.15 31.12.15 31.12.14
Heildareignir 1.106.700 1.172.380 1.118.658 1.098.370
Útlán til viðskiptavina 814.669 735.479 811.549 718.355
Innlán frá viðskiptavinum 545.208 624.063 559.051 551.435
Eigið fé 267.846 233.860 264.531 250.803
Eiginfjárhlutfall (CAR) 31,2% 26,7% 30,4% 29,5%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 133% 142% 136% 134%
Heildarlausafjárþekja 134% 118% 113% 131%
Lausafjárþekja erlendra mynta 496% 379% 360% 614%
Gjaldeyrisjöfnuður 17.071 19.905 23.795 20.320
Vanskilahlutfall (>90 daga) 1,7% 2,3% 1,8% 2,3%
Stöðugildi 1.063 1.102 1.063 1.126

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.
** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).
*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Ársreikningur samstæðu 1F 2015

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Upplýsingablað

17. október 2019 13:51

Umræðan: Sæmdarkúgun – óþægilegar en innihaldslausar hótanir

Ein tegund fjárkúgunar er svonefnd sæmdarkúgun (e. sextortion) þar sem vegið er að sæmd og friðhelgi viðkomandi í þeim tilgangi að beita kúgun. Fjallað er um sæmdarkúgun í nýrri grein á Umræðunni. Október er í Evrópu helgaður baráttu fyrir auknu netöryggi og Landsbankinn tekur þátt í átakinu.


Nánar

15. október 2019 10:30

Landsbankinn + Iceland Airwaves kynna: Tómas Welding

Landsbankinn hitar upp fyrir Iceland Airwaves með því að birta ný myndbönd og viðtöl við ungt tónlistarfólk á Iceland Airwaves-vef bankans. Nú er komið að síðasta myndbandinu sem er með söngvaranum Tómasi Welding.


Nánar

21. október 2019 09:53

Sigurður Kári Tryggvason til Landsbankans

Sigurður Kári Tryggvason, lögmaður, hefur verið ráðinn til starfa hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Sigurður Kári var áður lögfræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum frá árinu 2016. Hann starfaði sem fulltrúi hjá LEX lögmannsstofu árin 2011-2015, var í starfsnámi hjá EFTA dómstólnum á árinu 2013 og sat í stjórn Landsbréfa 2011-2012.


Nánar