Fréttir

11. febrúar 2016 19:28

Landsbankinn svarar bréfi Bankasýslu ríkisins

Landsbankinn hefur sent Bankasýslu ríkisins svör við fyrirspurnum Bankasýslunnar um sölu eignarhlutar bankans í Borgun. Svör Landsbankans eru birt í heild sinni á vef bankans til að stuðla að gagnsæi og gæta að jafnræði hluthafa.

Svör Landsbankans til Bankasýslu ríkisins

Sala á eignarhlut í Borgun

Í svörunum kemur fram að Landsbankinn hafi selt eignarhlut sinn í Borgun með góðum hagnaði. Á síðustu mánuðum hafa hins vegar atburðir orðið og upplýsingar komið fram sem benda til þess að verðmæti hans reynist meira en álitið var á árinu 2014. Engir annarlegir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun bankans að selja hlutinn á þann hátt sem gert var, heldur einvörðungu hagsmunir Landsbankans eins og þeir voru metnir á þeim tíma.

Valrétturinn

Landsbankinn vissi að valrétturinn væri fyrir hendi. Bankinn bjó aftur á móti ekki yfir upplýsingum um hvort eða hvenær Visa Inc. myndi neyta kaupréttarins eða Visa Europe söluréttarins enda lá það ekki fyrir fyrr en 2. nóvember 2015 þegar upplýst var um viðskiptin. Það var hins vegar skilningur Landsbankans að vegna sögulegra tengsla Valitor við Visa Europe og yfirburða markaðshlutdeildar félagsins í útgáfu Visa-korta myndi Valitor, eitt íslenskra kortafélaga, eiga tilkall til slíks ávinnings í kjölfar hugsanlegrar nýtingar valréttarins ef til hans kæmi.

Áréttað er að Landsbankinn hafi ekki haft vitneskju um að Borgun kynni að eiga rétt til sambærilegra greiðslna við nýtingu valréttarins. Af þeirri ástæðu var ekki samið um það sérstaklega þegar eignarhlutur bankans í Borgun var seldur. Ástæðan fyrir þessum skilningi Landsbankans var jafnframt sú að þjónusta sem Landsbankinn hafði keypt af Borgun tengdist Mastercard-kortum en ekki VISA-kortaviðskiptum. Fyrir vikið þótti ekki tilefni til þess að ætla að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna nýtingar valréttarins. Eftir því sem næst verður komist var vitneskja um annað ekki á almennu vitorði.

Sala eigna

Gerð er grein fyrir stefnu bankans um sölu fullnustueigna og annarra eigna í svörum bankans. Allt frá stofnun Landsbankans árið 2008 hefur verið talið afar mikilvægt að unnið væri hratt og örugglega í endurskipulagningu þeirra eigna sem færðar voru til bankans. Löggjafinn og eftirlitsyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að hraða sölu slíkra eigna. Jafnframt er bent á það í svörum bankans að bankinn hefur ráðist í sölu eigna til að treysta fjárhagsstöðu bankans á hverjum tíma og til að tryggja að eiginfjárhlutfall væri yfir lágmarkskröfu.

Afstaða Samkeppniseftirlitsins

Í svörum bankans er fjallað um afstöðu Samkeppniseftirlitsins til sameiginlegs eignarhalds á kortafyrirtækjunum. Í mars 2013 sendi Samkeppniseftirlitið Landsbankanum andmælaskjal þar sem eftirlitið kynnti það frummat sitt að brot hefðu átt sér stað á samkeppnislögum að því er varðaði aðkomu Landsbankans að greiðslukortafyrirtækjum. Það var frummat eftirlitsins að í því samhengi væri sérstaklega varhugavert að eignarhald greiðslukortafyrirtækja væri sameiginlegt og að nauðsynlegt væri að beita úrræðum er lytu að skipulagi markaðar til þess að uppræta samkeppnisvandamál sem væru til staðar á greiðslukortamarkaði.

Í samskiptum Landsbankans við Samkeppniseftirlitið ítrekaði eftirlitið framangreinda afstöðu sína til sameiginlegs eignarhalds fjármálafyrirtækja á kortafyrirtækjunum og taldi úrbætur í þeim atriðum vera meðal forsendna fyrir sátt í málinu. Af hálfu Landsbankans var því ljóst að Samkeppniseftirlitið lagði mikla áherslu á að gerðar yrðu breytingar á eignarhaldi á kortafyrirtækjunum. Sátt náðist milli Samkeppniseftirlitsins og Landsbankans þann 15. desember 2014, eftir sölu bankans á eignarhlutum sínum í Borgun og Valitor.

Söluferlið

Í svörum bankans er athygli vakin á að engin almenn og ófrávíkjanleg krafa hafi verið gerð af hálfu löggjafans eða eftirlitsyfirvalda til þess að fara í almennt söluútboð, auglýsa eignir á markaði eða hafa sölumeðferð með öðrum hætti opna. Til marks um þetta beindi Samkeppniseftirlitið því til viðskiptabanka í eigu ríkisins að leitast við að hafa ferlið opið og gagnsætt eftir því sem kostur væri.

Landsbankinn hefur dregið lærdóm af þeirri umræðu sem orðið hefur í kjölfar sölu bankans á hlut sínum í Borgun og breytt stefnu sinni og verklagi til samræmis við hana.

Svör Landsbankans til Bankasýslu ríkisins

Spurt og svarað vegna sölu Landsbankans á hlut í Borgun

26. nóvember 2020 15:10

Hagsjá: Afgangur af þjónustuviðskiptum en halli á vöruviðskiptum

Útflutningur vöru og þjónustu nam 244,5 mö.kr. á þriðja ársfjórðungi borið saman við um 374,7 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 130,2 ma.kr., eða rúman þriðjung milli ára. Innflutningur vöru og þjónustu nam 258,1 mö.kr. á þriðja fjórðungi borið saman við 314,3 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 56,3 ma.kr., eða 17,9%. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því 13,6 mö.kr. en á sama tíma í fyrra var afgangur upp á 60,4 ma.kr.


Nánar

25. nóvember 2020 16:30

Landsbankinn lækkar vexti

Landsbankinn lækkar vexti til einstaklinga og fyrirtækja og mun ný vaxtatafla taka gildi 1. desember nk. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,20 prósentustig. Kjörvextir óverðtryggðra útlána til fyrirtækja lækka um 0,20 prósentustig.


Nánar

24. nóvember 2020 12:31

Hagsjá: Airbnb markaðurinn mun líkast til halda áfram að smækka

Hlutfall íbúða í Airbnb með enga nýtingu er mun hærra en á síðustu árum.


Nánar

Skráðu þig á póstlista