Fréttir

22. janúar 2016 08:55

Byggðum verðmat á Borgun á bestu fáanlegum upplýsingum

Steinþór Pálsson,
bankastjóri Landsbankans

Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um sölu Landsbankans á hlutum sínum í kortafyrirtækjunum Borgun og Valitor í lok árs 2014. Tilefni umræðunnar nú eru greiðslur sem eru væntanlegar vegna samruna Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum.

Vegna samrunans mun söluandvirði Visa Europe renna til um 3.000 fyrirtækja sem hafa átt í viðskiptum við Visa Europe. Hlutur hvers og eins mun fara eftir því hversu mikil viðskiptin voru, í fortíð en einnig á næstu árum. Landsbankinn hefur átt í löngu viðskiptasambandi við Visa og þannig tekið þátt í uppbyggingu Visa Europe, enda hefur bankinn í gegnum tíðina nánast eingöngu gefið út Visa-kort. Þegar bankinn hugði á sölu á hlut sínum í Valitor var ljóst að í þessum valrétti gætu legið veruleg verðmæti. Því var samið um það við Arion banka að auk kaupverðsins myndi Arion banki greiða Landsbankanum viðbótargreiðslu, kæmi til þess að valrétturinn yrði nýttur. Það skipti einnig miklu máli að Landsbankinn samdi um leið um að hann myndi áfram gefa út Visa-kort með samningi við Valitor. Þannig var hagur bankans til greiðslna sem byggja á notkun Visa-korta í fortíð og framtíð tryggður. Landsbankinn býst við að fá nokkra milljarða í sinn hlut vegna þessara viðskipta.

Upphaflega var samið um ramma valréttarins milli Visa Inc. og Visa Europe á árinu 2007. Valrétturinn var ótímabundinn og ekki ljóst hvort hann yrði að veruleika, hvenær eða hversu háar fjárhæðir yrði um að tefla. Endanlega var samið um valréttinn í nóvember 2015.

Gjörólík viðskiptasaga

Gagnrýnt hefur verið að ekki var gerður sambærilegur samningur um viðbótargreiðslur við Borgun og þetta sagt til marks um lítið viðskiptavit starfsfólks Landsbankans. Í ljósi þess hversu vel hefur gengið hjá Borgun undanfarið ár má sjálfsagt færa rök fyrir því að betra hefði verið að bíða með söluna. Slík rök eiga á hinn bóginn við í nánast öllum hlutabréfaviðskiptum og má t.d. benda á að mörg félög í íslensku kauphöllinni hafa hækkað um meira en 50% á rúmlega ári. Slíkt sáu fáir fyrir, eins og eðlilegt er.

Skýringin á því að ekki var gerður samningur um viðbótargreiðslur við Borgun, líkt og gert var varðandi Valitor, er í stuttu máli sú að viðskipti Landsbankans við fyrirtækin voru og eru gjörólík. Borgun hafði fyrst og fremst annast útgáfu Mastercard-korta á Íslandi og Landsbankinn hafði aldrei gefið út Visa-kort hér á landi fyrir milligöngu Borgunar. Þar með hafði Landsbankinn ekki rök eða forsendur til greiðslna samkvæmt fyrrnefndum valrétti, líkt og í tilfelli Valitor. Af þessum sökum kom ekki til álita að gera sambærilegan samning við Borgun um viðbótargreiðslur.

Bankinn taldi áætlanir Borgunar áhættusamar

Við mat á virði Borgunar í tengslum við söluna lá fyrir að félagið hafði áform um að auka erlenda starfsemi sína. Bankinn taldi þessa útrás áhættusama, m.a. í ljósi fyrri tilrauna íslenskra kortafyrirtækja við að hasla sér völl erlendis. Viðskipti sem þessi heppnast ekki alltaf. Landsbankinn taldi sér ekki hag í að taka þessa áhættu, enda hefur bankinn frá endurreisn 2008 markvisst reynt að draga úr áhættu sinni, m.a. með sölu á hlutabréfum. Við söluna á eignarhlutnum í Borgun lá ekki fyrir að hvaða marki áformin um aukin erlend viðskipti yrðu í samstarfi við Visa eða við önnur erlend kortafyrirtæki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsbankinn hefur fengið, byggja greiðslur til Borgunar vegna valréttarins að mestu leyti á erlendum Visa-umsvifum fyrirtækisins eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn.

Fengum gott verð

Það er ekki óeðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort Landsbankinn hafi orðið af fjármunum vegna þess að hann er ekki lengur eigandi að Borgun. Því er til að svara að við töldum okkur hafa fengið gott verð fyrir hlut bankans í Borgun, eða 2,2 milljarða fyrir 31,2% hlut. Söluverðið var 88% hærra en eigið fé Borgunar og eiginfjármargfaldarinn er því 1,88 sem telst hátt fyrir fjármálafyrirtæki. Þegar tilboðið barst frá stjórnendahópnum, var það bæði í hluti Íslandsbanka og Landsbankans. Íslandsbanki ákvað að taka ekki því tilboði og þá kannaði Landsbankinn hvort Íslandsbanki hefði áhuga á að eiga viðskipti við Landsbankann með hluti í Borgun. Íslandsbanki hafði ekki áhuga á því. Í kjölfarið var kannað hvort stjórnendahópurinn vildi eingöngu kaupa hlut Landsbankans. Þeir buðu sama gengi og fyrr í hlut Landsbankans eingöngu. Að því tilboði gekk bankinn, eftir að hafa kannað rekstrarupplýsingar og áætlanir félagsins. Bankinn taldi verðið hagstætt, m.a í ljósi þess að um minnihlutaeign var að ræða.

Við í Landsbankanum sáum ekki fyrir að Borgun fengi svona háar viðbótargreiðslur vegna samruna Visa Europe og Visa Inc. eins og nú stefnir í, enda byggir sú fjárhæð að mestu á umsvifum fyrirtækisins eftir að við seldum. Á hinn bóginn er ljóst að hefði útrás Borgunar endað illa hefði bankinn getað tapað miklum fjármunum. Viðskiptum fylgir áhætta. Okkar verðmat byggði á bestu fáanlegum upplýsingum á þeim tíma.

Þrýstingur frá Samkeppniseftirlitinu

Það er heldur ekki hjá því komist að nefna að frá árinu 2013 höfðu bankarnir verið undir miklum þrýstingi frá Samkeppniseftirlitinu um að breyta eignarhaldi á kortafyrirtækjunum, þannig að aðeins einn banki kæmi að hverju fyrirtæki. Í bæði Valitor og Borgun var Landsbankinn minnihlutaeigandi á móti keppinautum og var því í veikari stöðu. Meirihlutaeigendur gátu verið með háða stjórnarmenn en við aðeins með óháða stjórnarmenn. Fyrir vikið hafði Landsbankinn litla sem enga innsýn í rekstur fyrirtækjanna, hvorki um stöðu þeirra né stefnu til framtíðar, þrátt fyrir að eiga verulegan hluta af báðum félögum.

Samkeppniseftirlitið hafði reyndar ekki gert neinar athugasemdir við það að fáum árum fyrr höfðu keppinautar Landsbankans, Íslandsbanki og Arion banki, eignast ráðandi hluti í kortafyrirtækjunum með því að taka yfir sparisjóði. Afstaða Samkeppniseftirlitins um að aðeins einn banki mætti eiga hlut í hverju kortafyrirtæki kom ekki fram fyrr en seinna. Það hefði verið betra fyrir hagsmuni Landsbankans ef þessi afstaða Samkeppniseftirlitsins hefði legið fyrir áður en þessar yfirtökur gengu í gegn.

Gagnrýni vegna söluferlis

Í tengslum við sölu Landsbankans á Borgun hefur verið gagnrýnt að það hafi ekki verið gert í opnu söluferli. Fyrir því voru ákveðnar ástæður sem við í Landsbankanum höfum áður greint ítarlega frá. Á fjármálafyrirtækjum hvílir rík ábyrgð varðandi sölu á óskráðum hlutabréfum og leiðbeiningarskyldu bankans til kaupenda. Við höfðum lítinn aðgang að upplýsingum um fyrirtækið og það var því mat bankans að erfitt yrði að tryggja eðlilega upplýsingagjöf og aðgengi annarra hugsanlegra tilboðsgjafa en stjórnenda að gögnum til að vinna áreiðanleikakannanir. Það var því ákveðnum annmörkum háð að efna til opins söluferlis. Við teljum óvíst að við hefðum fengið betra verð fyrir hlut okkar með því móti eða að staða okkar gagnvart mögulegum viðbótargreiðslum hefði orðið önnur. Það má líka benda á að enginn lýsti áhuga á kaupum á hlut Landsbankans í Valitor, þótt það hefði verið opinbert að bankinn vildi selja.

Við hlustum og lærum af gagnrýninni

Á Alþingi hefur undanfarna daga verið kallað eftir rannsókn Fjármálaeftirlitsins á sölu Landsbankans á Borgun og að stjórnendur bankans komi fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ef FME ákveður að rannsaka málið þá gerum við auðvitað engar athugasemdir við það en rétt er að benda á að bankinn sendi FME umbeðin gögn um söluna í desember 2014 en hefur ekki fengið frekari viðbrögð úr þeirri átt. Ef óskað verður eftir að við skýrum málið fyrir nefnd Alþingis, gerum við það að sjálfsögðu.

Við í Landsbankanum höfum hlustað og tekið mark á gagnrýninni á söluferlið á Borgun. Við höfum sagt að við hefðum betur haft söluferlið opið, þrátt fyrir annmarka. Það er ljóst að verði bankinn aftur í sömu eða svipaðri aðstöðu munum við fara öðruvísi að og hafa söluferlið opið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2016.

26. nóvember 2020 15:10

Hagsjá: Afgangur af þjónustuviðskiptum en halli á vöruviðskiptum

Útflutningur vöru og þjónustu nam 244,5 mö.kr. á þriðja ársfjórðungi borið saman við um 374,7 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 130,2 ma.kr., eða rúman þriðjung milli ára. Innflutningur vöru og þjónustu nam 258,1 mö.kr. á þriðja fjórðungi borið saman við 314,3 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 56,3 ma.kr., eða 17,9%. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því 13,6 mö.kr. en á sama tíma í fyrra var afgangur upp á 60,4 ma.kr.


Nánar

25. nóvember 2020 16:30

Landsbankinn lækkar vexti

Landsbankinn lækkar vexti til einstaklinga og fyrirtækja og mun ný vaxtatafla taka gildi 1. desember nk. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,20 prósentustig. Kjörvextir óverðtryggðra útlána til fyrirtækja lækka um 0,20 prósentustig.


Nánar

24. nóvember 2020 12:31

Hagsjá: Airbnb markaðurinn mun líkast til halda áfram að smækka

Hlutfall íbúða í Airbnb með enga nýtingu er mun hærra en á síðustu árum.


Nánar

Skráðu þig á póstlista