Fréttir

20. janúar 2016 17:28

Landsbankinn hagnast verulega vegna yfirtöku á Visa Europe

Landsbankinn mun hagnast verulega vegna yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe, samkvæmt ákvæðum í samningi um sölu á hlut bankans í Valitor til Arion banka frá 2014. Upplýsingar um hver endanleg fjárhæð verður liggja ekki fyrir en væntanlega er um nokkra milljarða að ræða.

Samkvæmt upplýsingum sem Landsbankinn hefur fengið byggja greiðslur frá Visa Inc. til Borgunar að mestu leyti á erlendri Visa-þjónustu Borgunar eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu árið 2014.

Þær upphæðir sem hafa verið nefndar í sambandi við yfirtöku Visa Inc. og Visa Europe koma á óvart en óhætt er að fullyrða að flestir gerðu ráð fyrir lægri fjárhæð. Landsbankinn fær töluverðar greiðslur til sín vegna hlutarins í Valitor og bankinn hefur einnig ávaxtað vel fjármuni sem fengust með sölunni á Borgun og Valitor á því rúmlega ári sem liðið er frá sölunni. Bankinn kemur vel út úr þessum viðskiptum.

Samið um að greiðslur frá Visa Inc. rynnu til Landsbankans

Í desember 2014 var tilkynnt að Landsbankinn hefði selt 38% eignarhlut sinn í Valitor Holding hf. (móðurfélagi Valitor hf.) á 3,6 ma.kr. til Arion banka. Til viðbótar var samið um að Arion banki myndi greiða Landsbankanum viðbótargreiðslu til samræmis við það sem Valitor eða Visa Ísland fengju, kæmi til þess að valréttur um viðskipti milli Visa Europe og Visa Inc. í Bandaríkjunum gengi eftir. Óvissa var um hvort og hvenær af viðskiptinum yrði, hver yrði endanleg fjárhæð viðbótargreiðslunnar og hvenær hún yrði greidd. Það skipti Landsbankann höfuðmáli að Arion banki var reiðbúinn að tryggja þessa viðbótarhagsmuni Landsbankans til langs tíma.

Þrýstingur um breytingar á kortamarkaði

Aðalástæðan fyrir því að Landsbankinn ákvað að selja hlut sinn í Borgun og Valitor á árinu 2014 var þrýstingur frá samkeppnisyfirvöldum um að breytingar yrðu gerðar á kortamarkaði.

Landsbankinn hafði fyrst og fremst gefið út Visa-kort og notað þjónustu Valitor til þess en Borgun hafði aðallega gefið út Mastercard-greiðslukort. Landsbankinn hafði átt langt viðskiptasamband við Visa og Valitor vegna útgáfu Visa-korta en ekki við Borgun. Þá ákvað Landsbankinn að semja við Valitor um kortaútgáfu fyrir bankann eftir verð- og þjónustukönnun um þjónustu til næstu ára, í tengslum við að bankinn seldi hlut sinn í félögunum. Yfirlýsing um valrétt á milli Visa í Evrópu og Bandaríkjunum snéri að því að bankar fengju hugsanlega greiðslu sem myndi miðast við viðskipti með Visa-kort, jafnt í fortíð og til næstu ára. Af þessum sökum var ekki talinn grundvöllur til samninga um viðbótargreiðslu kaupverðs í tengslum við sölu Landsbankans á hlutabréfum í Borgun, þar sem engin Visa-kortaviðskipti höfðu verið á milli þessara fyrirtækja.

Landsbankinn var í þröngri stöðu

Þegar Landsbankinn var að semja um sölu á hlut bankans í Borgun um mitt ár 2014, var samið um kaupverðið í ljósi upplýsinga sem lágu fyrir um rekstur Borgunar og rekstraráætlana fyrirtækisins. Landsbankinn hafði þó mjög takmarkaðan aðgang að Borgun eða upplýsingum um fyrirtækið vegna sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið árið 2008.

Árið 2014 lágu fyrir áætlanir Borgunar um að auka erlenda starfsemi sína sem er í eðli sínu áhættusöm, eins og reynsla íslenskra kortafyrirtækja hefur sýnt. Allt hafði þetta áhrif á verðmat og samningaviðræður um sölu á Borgun. Taldi bankinn söluverðið gott, með hliðsjón af stöðu félagsins, áformum og áhættu í framtíðarrekstri.

Frétt frá 18. desember 2014: Nýtt landslag á kortamarkaði

26. nóvember 2020 15:10

Hagsjá: Afgangur af þjónustuviðskiptum en halli á vöruviðskiptum

Útflutningur vöru og þjónustu nam 244,5 mö.kr. á þriðja ársfjórðungi borið saman við um 374,7 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 130,2 ma.kr., eða rúman þriðjung milli ára. Innflutningur vöru og þjónustu nam 258,1 mö.kr. á þriðja fjórðungi borið saman við 314,3 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hann dróst því saman um 56,3 ma.kr., eða 17,9%. Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam því 13,6 mö.kr. en á sama tíma í fyrra var afgangur upp á 60,4 ma.kr.


Nánar

25. nóvember 2020 16:30

Landsbankinn lækkar vexti

Landsbankinn lækkar vexti til einstaklinga og fyrirtækja og mun ný vaxtatafla taka gildi 1. desember nk. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,20 prósentustig. Kjörvextir óverðtryggðra útlána til fyrirtækja lækka um 0,20 prósentustig.


Nánar

24. nóvember 2020 12:31

Hagsjá: Airbnb markaðurinn mun líkast til halda áfram að smækka

Hlutfall íbúða í Airbnb með enga nýtingu er mun hærra en á síðustu árum.


Nánar

Skráðu þig á póstlista