Fréttir

21. apríl 2015 09:38

Tólf bestu skólarnir í Skólahreysti mætast

 

Úrslit ráðast í Skólahreysti – hreystikeppni grunnskólanna – annað kvöld þegar tólf bestu grunnskólar landsins í Skólahreysti keppa til sigurs í Laugardalshöll, miðvikudaginn 21. apríl. Alls tóku yfir 100 grunnskólar þátt í keppninni í ár, sem nú er haldin í ellefta sinn. Sigurvegarar úr tíu svæðisbundnum undankeppnum komust sjálfkrafa í úrslit en auk þess tryggðu tveir skólar sér þátttöku með bestan árangur í öðru sæti.

Landsbankinn er bakhjarl Skólahreysti og frítt er inn á keppnina í Laugardalshöll í boði bankans. RÚV sýnir beint frá keppninni og hefst útsending kl. 20.00 á morgun miðvikudag.

Skólar í úrslitum

Skólarnir tólf sem keppa til úrslita í ár eru: Breiðholtsskóli og Réttarholtsskóli frá Reykjavík, Brekkubæjarskóli á Akranesi, Dalvíkurskóli, Fellaskóli í Fellabæ, Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn í Hveragerði, Heiðarskóli og Holtaskóli úr Reykjanesbæ, Lindaskóli úr Kópavogi, Síðuskóli á Akureyri og Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi.

Skólar af Suðurnesjum af unnið fimm síðustu keppnir í Skólahreysti. Heiðarskóli í Reykjanesbæ eru ríkjandi meistarar en skólinn vann einnig árið 2010. Nágrannar þeirra í Holtaskóla unnu þrívegis í röð, árin 2011, 2012 og 2013.

Keppnisgreinarnar í Skólahreysti eru armbeygjur, dýfur, hreystigreip, upphífingar og hraðaþraut. Stúlkur keppa í armbeygjum og hreystigreip en drengir í upphífingum og dýfum. Tveggja manna lið keppa í hraðaþraut.

Vegleg verðlaun frá Landsbankanum

Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna vegleg peningaverðlaun. Keppendur sigurliðsins fá einnig sérstök verðlaun. Þá stendur bankinn einnig fyrir Instagram-myndakeppni og geta áhorfendur sent inn myndir merktar #skolahreysti. Bestu og frumlegustu myndirnar verða verðlaunaðar.

Kynningar á skólunum á mbl.is

Skráðu þig á póstlista