Fréttir

19. desember 2014 14:28

Landsbankinn styður áfram við Ísland – allt árið

Landsbankinn hefur endurnýjað stuðning sinn við markaðsverkefnið Ísland allt árið. Það hefur nú staðið í þrjú ár og hefur bankinn stutt við það frá upphafi. Skrifað var undir nýjan samning 18. desember og gildir hann út árið 2016. Stjórnvöld munu leggja til allt að 200 milljónir á ári gegn jafn háu mótframlagi frá samstarfsaðilunum; Icelandair, Landsbankanum, Reykjavíkurborg og Samtökum ferðaþjónustunnar. Tilgangurinn er að festa ferðaþjónustu enn betur í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi með það fyrir augum að skapa meiri gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.

Þátttakendur í Ísland - allt árið eru sammála um að mikill ávinningur hafi verið af verkefninu sem er á margan hátt einstætt samstarfsverkefni þar sem samkeppnisaðilar vinna að sameiginlegu markmiði. Markaðssetningin fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmdina.

xx
Frá vinstri: Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Jón Ásbergsson forstjóri Íslandsstofu, Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.