Fréttir

27. nóvember 2014 07:50

Kauptilboð í Promens lagt fram

Eigendur Promens hf., Eignarhaldsfélag Landsbankans, dótturfyrirtæki Landsbankans hf., sem á 49,9% hlut og Framtakssjóður Íslands (FSÍ), sem á 49,5% hlut, hafa fengið álitlegt kauptilboð frá RPC Group plc í Bretlandi í allt útgefið hlutafé Promens Group AS sem er dótturfélag Promens hf. og heldur utan um allan rekstur þess.

RPC er skráð breskt fyrirtæki sem framleiðir plastumbúðir fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað, neytenda- og iðnaðarmarkað.

Tilboð RPC nemur 236 milljónum evra eða 36,5 milljörðum króna fyrir allt hlutafé í Promens Group AS. Tilboðið er háð ákveðnum fyrirvörum. Það felur í sér að kaupverð verði greitt með reiðufé við fullnustu samninga og er tilboðið nú til skoðunar hjá hluthöfum.

Promens er leiðandi fyrirtæki á sviði umbúða- og plastframleiðslu fyrir fjölmargar iðngreinar og rekur 41 verksmiðju í Evrópu, Norður Ameríku, Asíu og Afríku. Starfsmenn Promens eru um 3800 og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Kópavogi.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og LOGOS lögmannsþjónusta eru ráðgjafar seljenda.