Fréttir

14. október 2014 17:58

S&P breytir horfum Landsbankans úr stöðugum í jákvæðar

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor’s (S&P) hefur í dag, 14. október 2014, breytt horfum lánshæfiseinkunnar Landsbankans úr stöðugum í jákvæðar og staðfest ‘BB+/B’ lang- og skammtímaeinkunn bankans.

Í fréttatilkynningu segist S&P búast við traustum hagvexti á Íslandi næstu tvö árin og að áfram muni draga úr ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. S&P breytir einnig horfum um þróun efnahagsáhættu á Íslandi úr stöðugum í jákvæðar og býst við að eignagæði í bankakerfinu haldi áfram að aukast.

S&P segir jafnframt að jákvætt mat fyrirtækisins á horfum í rekstri Landsbankans endurspegli í megindráttum þá skoðun S&P að bankakerfið sé að styrkjast og að jákvæðar horfur séu varðandi lánshæfismat ríkissjóðs. Þann 18. júlí 2014 breytti S&P horfum ríkissjóðs í jákvæðar vegna aukins hagvaxtar og lækkandi opinberra skulda. Langtímaeinkunn Íslands, ‘BBB-’,  er skör hærra en einkunn bankanna. Það er þó skoðun S&P að lánshæfiseinkunn ríkisins,og mat fyrirtækisins á bankakerfinu, líði enn fyrir þá áhættu sem fylgja muni afnámi fjármagnshafta, en fyrirtækið gerir hins vegar ráð fyrir að yfirvöld muni sýna aðgát við afnám hafta til að draga úr áhrifum á hagkerfið og gengi krónunnar.

S&P telur einnig að staða Landsbankans – sem býr að sterkri eiginfjárstöðu - gæti batnað enn frekar ef lánshæfiseinkunn ríkissjóðs myndi hækka og mat S&P á áhættu vegna ójafnvægis í bankakerfinu yrði breytt í meðaláhættu úr mikilli áhættu.

Jákvætt mat á horfum í rekstri Landsbankans endurspeglar þá skoðun S&P að bankinn einn og sér (e. stand-alone credit profile) muni líklega eflast samfara auknum bata í efnahagsumhverfinu á Íslandi. S&P segist greina jákvæða tilhneigingu þegar litið er til efnahagslegrar áhættu í íslenska bankakerfinu og telur líklegt að lánshæfiseinkunn Landsbankans hækki ef  staða bankakerfisins heldur áfram að styrkjast að mati S&P.

Einnig býst S&P við því að samkomulag Landsbankans við LBI hf. (gamla Landsbanka Íslands) muni lengja endurgreiðsluferli skuldabréfa sem Landsbankinn gaf út vegna uppgjörs bankanna tveggja.

Tilkynning Standard and Poor’s

19. ágúst 2019 09:59

Dagskrá í Landsbankanum á Menningarnótt

Menningarnótt verður haldin hátíðleg í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 24. ágúst 2019. Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi og býður að venju upp á fjölbreytta menningardagskrá í Austurstræti 11.


Nánar

21. ágúst 2019 10:22

Breytingar á gjaldskrá vegna Priority Pass korta

Gjald vegna heimsókna í Priority Pass biðstofur á flugvöllum mun hækka úr 2.900 kr. í 3.900 kr. frá og með 21. október 2019. Um leið leggst á 1.900 kr. gjald vegna endurútgáfu Priority Pass korta.


Nánar

21. ágúst 2019 09:14

Hagsjá: Fasteignamarkaður áfram í algerri kyrrstöðu

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 2,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði. Árshækkun íbúðarhúsnæðis hefur ekki verið lægri síðan í apríl 2011.


Nánar