Fréttir

15. maí 2014 16:32

Landsbankinn hagnast um 4,3 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 4,3 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2014. Hagnaður á sama tímabili árið 2013 nam tæpum 8 milljörðum króna. Landsbankinn greiddi á fyrsta ársfjórðungi tæplega 20 milljarða króna í arð til eigenda sinna, en þrátt fyrir það er eiginfjárstaða bankans afar sterk og eiginfjárhlutfallið langt yfir kröfum eftirlitsaðila.

Árshlutareikningur samstæðu 1F 2014

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi 2014 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (03:45):Lækkun á hagnaði milli fyrsta ársfjórðungs þessa árs og síðasta árs skýrist fyrst og fremst af lækkun á vaxtamun, lækkun tekna eigna sem færðar eru á markaðsvirði og hærri sköttum. Á móti kemur jákvæð virðisbreyting útlána og hækkun á hreinum þjónustutekjum frá sama tíma árið áður. Helsta ástæðan fyrir lækkandi vaxtamun er að dregið hefur úr verðbólgu á milli tímabila.

Vegna lækkunar á tekjum hækkar kostnaðarhlutfallið töluvert milli þessara tímabila. Almennur rekstrarkostnaður hækkar lítillega vegna kjarasamninga sem gerðir voru á fyrsta ársfjórðungi. Þegar horft er framhjá sveiflum í tekjum af markaðsbréfum er rekstrarkostnaður á áætlun, en reiknað er með raunlækkun á þessu ári.

Steinþór Pálsson, bankastjóri segir: „Afkoma Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi ársins er viðunandi í ljósi þess að vaxtamunur lækkaði töluvert og verðþróun á markaði var óhagstæð. Bankinn greiddi myndarlegan arð til hluthafa í mars en heldur samt sem áður sterkri eigin- og lausafjárstöðu. Samfara batnandi efnahag hefur áfram dregið úr vanskilum. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur ekki áður mælst jafn há og nú og eins og sjá má m.a. af opnun nýrrar Fyrirtækjamiðstöðvar í Borgartúni nú í apríl, er stöðugt verið að leita leiða til að sinna þjónustu við viðskiptavini með hagkvæmari hætti en áður. Við erum bjartsýn á horfur í rekstri bankans á árinu og áfram verður unnið að hagræðingu.“

Í maí náði Landsbankinn samkomulagi við LBI hf. um breytingar á skilmálum uppgjörsskuldabréfa sem samið var um í desember 2009. Skuldabréfin voru upphaflega gefin út á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna. Fjárhæðin var ákveðin sem mismunur á virði eigna og skulda sem fluttar voru yfir til Landsbankans og honum bar að greiða upp fyrir árið 2018. Lokagjalddagi er nú 2026. Steinþór Pálsson segir þetta mikilvægan áfanga fyrir Landsbankann: „Þessi breyting styrkir stöðu bankans í nútíð og framtíð og mun m.a. auðvelda alþjóðlega lánsfjármögnun. Þá felur samkomulagið í sér að sérstökum hömlum á arðgreiðslur hefur verið hrundið úr vegi, til hagsbóta fyrir hluthafa bankans. Samkomulagið er háð því að LBI hf. fái undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál.“

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag fyrsta ársfjórðungs 2014

 • Hagnaður Landsbankans nam 4,3 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014, samanborið við tæpa 8 milljarða króna á sama tíma á árinu 2013.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 7,3% samanborið við 14% fyrir sama tímabil árið 2013.
 • Hreinar vaxtatekjur námu 7,9 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í samanburði við 9,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2013.
 • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar, var 2,7% á fyrstu þremur mánuðum ársins en 3,6% á sama tímabili árið 2013.
 • Hreinar þjónustutekjur námu 1,5 milljörðum króna og hafa aukist um 11% frá sama tímabili árið áður.
 • Almenn rekstrargjöld standa nánast í stað milli tímabila.
 • Skattar hafa hækkað um 22% milli tímabila.
 • Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunhækkun rekstrarkostnaðar milli ára verið 3,3%.
 • Kostnaðarhlutfall fyrstu þrjá mánuði ársins nam 72,0% samanborið við 42,9% um áramótin. Rekstrarkostnaður bankans hefur lítið breyst en tekjur bankans hafa hins vegar lækkað frá áramótum sem skýrir hækkum kostnaðarhlutfalls. Markmið bankans fyrir árið 2014 er að lækka raunkostnað.
 • Stöðugildi 31. mars voru 1.178.
 • Eigið fé bankans nam í lok mars um 225,4milljörðum króna og hefur það lækkað um 7% frá áramótum. Landsbankinn greiddi eigendum sínum tæpa 20 milljarða króna í arð á fyrsta ársfjórðungi ársins sem lækkar eigið fé og eiginfjárhlutfall.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er engu að síður vel umfram kröfur FME. Það er nú 24,8% en var 26,6% í lok mars 2013.
 • Heildareignir bankans námu 1.154 milljörðum í lok mars 2014 en það er ekki mikil breyting frá áramótum.
 • Innlán viðskiptavina hafa aukist um 3% frá áramótum eða um 12 milljarða.
 • Heildarlánveitingar eru um 33 milljarðar króna, en vegna afborgana og fleiri þátta hafa heildarútlán aðeins hækkað um 1,4 milljarða á tímabilinu.
 • Lausafjárstaða bankans er sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfallið var 49% í lok mars 2014 en var 42% á sama tíma árið áður.
 • Gjaldeyrisjöfnuður bankans er í góðu horfi og eignir í erlendri mynt eru um 18,9 milljarðar króna umfram erlendar skuldir.
 • Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 5 % í lok mars 2014, og hafa farið lækkandi á árinu.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  1F 2014 1F 2013 2013 2012 2011
Hagnaður eftir skatta 4.288 7.989 28.759
25.494 16.957
Arðsemi eigin fjár 7,3% 14,0% 12,4%
12,0% 8,4%
Vaxtamunur / heildareignir 2,7% 3,6% 3,1%
3,2% 2,9%
Kostnaðarhlutfall * 72,0% 36,6% 42,9%
45,0% 40,6%
Raunbreyting rekstrarkostnaðar 3,3% -6,4% -10,1% 4,9% 13,3%
Stöðugildi 1.178 1.209 1.183
1.233 1.311

Heildareignir 1.153.804 1.085.405 1.151.516
1.084.787 1.135.482
Útlán til viðskiptavina 681.883 663.719 680.468
666.087 639.130
Innlán frá viðskiptavinum 468.661 433.647 456.662
421.058 443.590
Eiginfjárhlutfall (CAR) 24,8% 26,6% 26,7%
25,1% 21,4%
Lausafjárhlutfall 49% 42,0% 49,8% 48,4% 42,9%
Lausafjárhlutfall LCR alls 104% - 102,0% - -
Lausafjárhlutfall LCR FX 224% - 208,0% - -
Gjaldeyrisstaða 18.863 -12.272 14.457 -20.035 20.034
Vanskilahlutfall (>90 daga) 5,0% 7,3% 5,3%
8,3% 13,9%

* Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls að frátalinni gjaldfærslu vegna hlutabréfatengdra launaliða / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána)

Helstu þættir í rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins 2014

 • Hið alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtæki Standard & Poor‘s (S&P) veitti í janúar Landsbankanum lánshæfiseinkunina BB+ með stöðugum horfum.
 • Landsbankinn greiddi út arð til eigenda sinna í mars. Arðgreiðslan var í samræmi við samþykkt aðalfundar Landsbankans hf. 19. mars og nam 70% af hagnaði síðasta árs eða tæpum 20 milljörðum króna. Arðgreiðslan kom til lækkunar á eigin fé á fyrsta ársfjórðungi.
 • Útgáfa sértryggðra skuldabréfa bankans var aukin um 1,5 milljarð á tímabilinu.
 • Landsbankinn var eitt af fjórum fyrirtækjum sem tilnefnd voru til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014.
 • Landsbankinn hlaut tvær tilnefningar til Íslensku auglýsingaverðlaunanna sem veitt eru á vegum ÍMARK, félags íslensks markaðsfólks.
 • Alþjóðlega fjármálaritið Global Finance valdi Landsbankann besta bankann á Íslandi.
 • Alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance valdi Landsbankann besta bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta netbankann.
 • Í mars tók gildi nýtt skipulag útibúa Landsbankans á höfuðborgarsvæðinu og eru öll útibú bankans á því svæði eftirleiðis einstaklingsútibú. Um leið færast öll viðskipti smærri og meðalstórra fyrirtækja í nýja fyrirtækjamiðstöð í Borgartúni 33.
 • Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði samkvæmt markaðskönnunhefur hækkað nokkuð að undanförnu og mælist nú 35,4% og hefur ekki áður mælst jafn há.
 • Alþjóðlega fjármálaritið Global Finance valdi Landsbankann besta bankann á Íslandi.

Samkomulag við LBI hf.

 • Skrifað var undir nýjan samning 8. maí 2014 um breytingu á skilmálum skuldabréfa Landsbankans og LBI hf. sem samið var um í desember 2009. Lokagjalddagi skuldabréfanna verður nú 2026 í stað 2018, Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir því að endurgreiðslur verði á tveggja ára fresti og dreifist nokkuð jafnt. Landsbankinn hefur heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu upp án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu sem er mjög mikilsverður þáttur fyrir Landsbankann hf.
 • Vaxtakjör verða óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR vexti. Eftir það fer vaxtaálagið stighækkandi og verður 3,5% vegna gjalddaga 2020 og að lokum 4,05% vegna lokagjalddagans árið 2026. Hver gjalddagi á tímabilinu frá 2020 til 2026 er að jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna.
 • Við þetta lækkar greiðslubyrði Landsbankans hf. verulega og það styrkir fjárhagslega stöðu bankans. Lágmarks veðhlutfall lækkar úr 124,8% í 115% og aðgangur að alþjóðlegri lánsfjármögnun verður auðveldari. Þá verður heimilt að greiða eigendum bankans arð án þess að sambærileg greiðsla þurfi að renna til LBI hf.
 • Forsenda þess að samkomulagið taki gildi er að LBI fái tilteknar undanþágur í samræmi við lög um gjaldeyrismál.

Nýtt greiðsluferli skuldabréfa Landsbankans og LBI hf.

Helstu atriði framundan í rekstri bankans

 • Afkoma á fyrsta ársfjórðungi litaðist töluvert af neikvæðri þróun markaðseigna en horfur um afkomu ársins eru enn góðar. Áfram unnið að endurfjármögnun og skjalagerð vegna samninga við LBI hf.
 • Áfram er unnið að hagræðingu. Til skoðunar er í því sambandi bygging nýrra höfuðstöðva með það að markmiði að draga verulega úr stærð þeirra.
 • Landsbankinn hefur á síðustu fjórum árum fækkað fermetrum í útibúum bankans um tæp 30%.
 • Áhersla á að auka gæði útlána og draga úr hlutabréfastöðum.
 • Áhersla á ábyrga markaðssókn, m.a. í íbúðalánum og eignastýringu.
 • Klára leiðréttingu ólögmætra gengistryggðra lána.
 • Vinna við skuldaleiðréttingar í samræmi við aðgerðir ríkisstjórnar og lög Alþingis.

Árshlutareikningur samstæðu 1F 2014

Afkomukynning

Fréttatilkynning

19. ágúst 2019 09:59

Dagskrá í Landsbankanum á Menningarnótt

Menningarnótt verður haldin hátíðleg í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 24. ágúst 2019. Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi og býður að venju upp á fjölbreytta menningardagskrá í Austurstræti 11.


Nánar

21. ágúst 2019 10:22

Breytingar á gjaldskrá vegna Priority Pass korta

Gjald vegna heimsókna í Priority Pass biðstofur á flugvöllum mun hækka úr 2.900 kr. í 3.900 kr. frá og með 21. október 2019. Um leið leggst á 1.900 kr. gjald vegna endurútgáfu Priority Pass korta.


Nánar

21. ágúst 2019 09:14

Hagsjá: Fasteignamarkaður áfram í algerri kyrrstöðu

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 2,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði. Árshækkun íbúðarhúsnæðis hefur ekki verið lægri síðan í apríl 2011.


Nánar