Fréttir

19. mars 2014 18:27

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2014

Aðalfundur Landsbankans hf. fyrir rekstrarárið 2013 var haldinn í Silfurbergi, Hörpu í Reykjavík 19. mars 2014. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf. Helstu niðurstöður fundarins voru þessar:

  • Fundurinn samþykkti tillögu bankráðs um greiðslu arðs sem nemur 0,84 krónum á hlut, eða sem svarar til um 70% af hagnaði ársins. Hagnaður var 28,8 milljarðar króna. Miða skal við hlutaskrá í lok 19. mars 2014 og að útborgunardagur verði 26. mars 2014. Arðgreiðslan nemur 20 milljörðum króna.
  • Jóhann Hjartarson hdl. var kjörinn í bankaráð í stað Þórdísar Ingadóttur sem setið hefur í ráðinu undanfarin fjögur ár. Ragnar Lárus Gunnarsson var kjörinn varamaður í bankaráði í stað Helgu Loftsdóttur.
  • Bankaráð Landsbankans er kosið til eins árs og það skipa þau: Tryggvi Pálsson, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Danielle P. Neben, Helga Björk Eiríksdóttir, Jón Sigurðsson, Kristján Þ. Davíðsson og Jóhann Hjartarson. Varamenn eru þau Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Ragnar Lárus Gunnarsson. Tryggvi Pálsson var endurkjörinn formaður bankráðs Landsbankans.
  • Þóknun til bankaráðsmanna er óbreytt frá fyrra ári.
  • Hluthöfum var kynnt ný arðgreiðslustefna sem samþykkt hefur verið í bankaráði. Samkvæmt henni verður að jafnaði meirihluti hagnaðar greiddur hluthöfum í arð.

Helstu atriði úr ræðu formanns bankaráðs á aðalfundi

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, flutti aðalfundi skýrslu stjórnar. Hann fagnaði nýjum hluthöfum, en þeir eru nú 1394, í stað tveggja áður
Í ræðu hans kom m.a. fram að bankaráð hefði sett sér arðgreiðslustefnu til næstu ára og hann sagði um það: ,,Stefnumótun bankans ber með sér að vöxtur verði hóflegur á komandi árum. Lögð er áhersla á hagkvæmni í rekstri umfram hraðan vöxt og að eigendur njóti ávinnings með öruggum arðgreiðslum. Bankaráð hefur sett sér það viðmið að Landsbankinn stefni að árlegri arðgreiðslu til hluthafa sem nemur að jafnaði meirihluta hagnaðar fyrra árs. Við ákvörðun um fjárhæð arðgreiðslu verði tryggt að bankinn viðhaldi sterkri fjárhagsstöðu.“

Tryggvi fjallaði almennt um rekstur bankans og sagði ánægjulegt hversu traustur hann væri: „Bankarekstur snýst um árangur og öryggi. Árangur og öryggi fyrir viðskiptavini, bankann, eigendur hans og samfélagið í heild. Bankahrunið og endurreisnin eftir það hefur staðfest þessi sannindi með óyggjandi hætti. Við mælum því ekki árangur Landsbankans einungis út frá rekstrar- og efnahagsreikningi hans heldur ekki síður með tilliti til þess sem starfið hefur skilað fyrir viðskiptavinina og samfélag okkar.“
Tryggvi nefndi að Landsbankinn hefði lánað á síðasta ári rúmlega 140 milljarða króna í nýjum lánum. Innan við 10% allra lánsbeiðna var hafnað og sagði Tryggvi það til merkis um að bankinn sinnti vel kalli viðskiptavina sinna.

Tryggva varð tíðrætt um hagræðingu í rekstri og hagkvæmni og benti á að bankinn hefði aukið hagkvæmni í rekstri sínum verulega á undanförnum árum. Þetta hefði hann gert ,,...m.a. með því að draga úr umfangi útibúakerfisins, með því að einfalda starfsemi í höfuðstöðvum og með margvíslegum öðrum skipulagsbreytingum. Fyrir dyrum standa veigamiklar breytingar á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki með opnun fyrirtækjamiðstöðvar í Borgartúni 33 nú á vormánuðum... Stefnt var að því árið 2013 að lækka rekstrarkostnað um 5% að raunvirði. Ánægjulegt er að greina frá því að tekist hefur að ná því markmiði og gott betur, því lækkunin er 10% eða sem svarar til rétt tæpra 2 milljarða króna.“

Um húsnæðismál bankans sagði formaður bankaráðs:

„Æskilegt er að ná fram aukinni skilvirkni og minnka verulega það pláss sem bankinn nýtir. Mat bankans er að það sé hagkvæmt að flytja starfsemi höfuðstöðva í húsnæði sem sniðið er að þörfum hans og koma starfseminni undir eitt þak að stærstum hluta. Með því verður hægt að hagræða til lengri tíma litið og efla um leið rekstur Landsbankans. Sama gildir í raun um höfuðstöðvarnar eins og útibúin. Bankinn þarf nú minna og hentugra húsnæði. Endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar í þessu máli en bankaráðið er einróma þeirrar skoðunar að núverandi húsnæðisvanda þurfi að leysa.“

Fundargögn má nálgast á síðu aðalfundarins hér á vefnum

19. ágúst 2019 09:59

Dagskrá í Landsbankanum á Menningarnótt

Menningarnótt verður haldin hátíðleg í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 24. ágúst 2019. Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi og býður að venju upp á fjölbreytta menningardagskrá í Austurstræti 11.


Nánar

21. ágúst 2019 10:22

Breytingar á gjaldskrá vegna Priority Pass korta

Gjald vegna heimsókna í Priority Pass biðstofur á flugvöllum mun hækka úr 2.900 kr. í 3.900 kr. frá og með 21. október 2019. Um leið leggst á 1.900 kr. gjald vegna endurútgáfu Priority Pass korta.


Nánar

21. ágúst 2019 09:14

Hagsjá: Fasteignamarkaður áfram í algerri kyrrstöðu

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 2,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði. Árshækkun íbúðarhúsnæðis hefur ekki verið lægri síðan í apríl 2011.


Nánar