Fréttir

11. apríl 2013 16:43

Breytt eignarhald á Landsbankanum hf.

Breyting hefur orðið á eignarhaldi Landsbankans frá og með deginum í dag. 18,67% hlutur sem verið hefur í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf. er nú kominn yfir til íslenska ríkisins og Landsbankans hf. í samræmi við samkomulag þessara aðila frá desember 2009. Íslenska ríkið á nú 98% í bankanum og Landsbankinn hf. heldur á 2% hlut.

Gengið var frá uppgjöri vegna þessa í dag en það er mikilsverður áfangi í uppbyggingu Landsbankans hf. Með þessu er lokið beinum afskiptum LBI hf. af stjórnun Landsbankans.

Frá undirrituninni
Standandi frá vinstri: Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður, Jakob Bjarnason LBI hf., Perla Ösp Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Áhættustýringar, Hreiðar Bjarnason framkvæmdastjóri Fjármála, Herdís Hallmarsdóttir slitastjórn LBI hf., Halldór Helgi Backman slitastjórn LBI hf., Þórólfur Jónsson lögmaður. Sitjandi frá vinstri: Steinþór Pálsson bankastjóri, Þórhallur Arason skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og Kristinn Bjarnason slitastjórn LBI hf.

Við sama tækifæri gaf Landsbankinn hf. út skuldabréf til LBI hf. að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt. Bréfið er hluti af kaupverði þeirra eigna sem Landsbankinn keypti af LBI hf. samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í desember 2009. Þetta bréf kemur til viðbótar öðru skuldabréfi sem Landsbankinn gaf út 2009 að andvirði 260 milljarðar króna, einnig í erlendri mynt. Vegna sterkrar lausafjárstöðu greiddi Landsbankinn fyrirfram rúma 70 milljarða króna inn á lánin um mitt ár 2012.

Skuldabréfin á milli gamla og nýja Landsbankans eru byggð á samkomulagi sem gerð voru á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008 um tilflutning á eignum og skuldum til nýja bankans. Fjárhæð skuldabréfanna réðist af mismun á virði þeirra eigna og skulda sem flutt voru. Alþingi heimilaði fjármálaráðherra að staðfesta samningana fyrir hönd íslenska ríkisins með sérstökum lögum.

Bókfært virði eignarhlutar ríkisins í Landsbankanum hf. hefur aukist um 97 milljarða króna frá haustinu 2008. Að frádregnum fjármagnskostnaði nemur ávinningur ríkisins 55 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson bankastjóri segir að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir Landsbankann og eigendur hans. „Ríkið fær í dag afhentan mjög verðmætan eignarhlut í Landsbankanum án þess að greiða fyrir hann. Bókfært verðmæti eignarhlutar ríkisins hefur hækkað töluvert og er ávinningur ríkisins eftir fjármagnskostnað 55 milljarðar króna. Það munar um minna. Eignasafn bankans verður æ sterkara og framundan er að tryggja fjárhagsstöðu enn frekar með hagkvæmri endurfjármögnun erlendra lána bankans.“

Upprunalegur samningur

Þegar samið var um tilfærslu eigna og skulda frá Landsbanka Íslands hf. til Landsbankans í desember 2009 var ákveðið að Landsbankinn myndi gefa út skuldabréf til LBI hf. og er afborgun þeirra ígildi kaupverðs eignanna. Um er að ræða tvö skuldabréf, bréf „A“ og skilyrt skuldabréf (e. Contingent Bond).

  • Skuldabréf (Bond A)
    Skuldabréfið er í EUR, USD og GBP, með ársfjórðungslegum afborgunum, fyrsti gjalddagi höfuðstóls var 2014 og lokagjalddagi er 2018. Landsbankinn mun greiða næst af bréfinu 2015 þar sem hann greiddi á öðrum ársfjórðungi 2012 fyrstu fimm gjalddaga bréfsins með fyrirframgreiðslu til LBI hf.
  • Skilyrt skuldabréf
    Skilyrta skuldabréfið var tengt mögulegri virðisaukningu á hluta af lánasafni Landsbankans. Útgefið verðmæti þess er 92 milljarðar króna og vaxtakjör og afborganaferli er hið sama og á skuldabréfi „A“. Bókfærð staða skilyrta skuldabréfsins m.v. 31. desember 2012 byggist á mati erlendra sérfræðinga og bréfið ber vexti frá ársbyrjun ársins 2013.

Í samkomulagi fjármálaráðuneytisins, Landsbankans hf. og LBI hf. frá desember 2009 fólst jafnframt að LBI hf. myndi halda 18,67% hlut í Landsbankanum þar til verðmæti skilyrta skuldabréfsins væri ljóst. Síðan myndi LBI hf. láta þann eignarhlut af hendi í hlutfalli af endanlegu mati á tilgreindum eignum. Endanlegt mat liggur nú fyrir af hendi óháðra matsaðila og verður skilyrta skuldabréfið gefið út miðað við fulla fjárhæð, samtals 92 milljarða króna og því lætur LBI hf. af hendi öll hlutabréfin í Landsbankanum.

Eftir eignabreytingarnar á íslenska ríkið 98% hlut í Landsbankanum en Landsbankinn sjálfur hefur tekið við 2% eignarhlut. Þeim eignarhlut fylgja þau skilyrði að honum verði dreift til starfsmanna en fyrirkomulag þess liggur ekki fyrir. Slíkt fyrirkomulag er háð samþykki hluthafafundar Landsbankans auk þess sem hún þarf að vera í samræmi við reglur FME um slíkar ráðstafanir.

Þróun á verðmæti eignar ríkisins í Landsbankanum
  Tölur í milljónum króna
* Miðað við hlutdeild í bókfærðu virði eiginfjár Landsbankans
Upphafleg fjárfesting 122.000
Verðmæti eignarhlutar 2012* 218.822
Virðisbreyting 96.822
Greiddir vextir 36.495
Greiddur arður -
Núvirðing vaxta- og arðgreiðslna 5.090
Fjármagnskostnaður 41.585
Hrein afkoma ríkisins 55.237

Ávinningur ríkisins 55 milljarðar

Ríkissjóður greiddi fyrir sinn hlut í Landsbankanum með útgáfu skuldabréfs að nafnvirði 122 milljarða króna haustið 2008. Frá þeim tíma hefur ríkissjóður greitt um 36,5 milljarða í vexti af skuldabréfinu en núvirði vaxtakostnaðarins er um 41,5 milljarðar króna. Hlutdeild ríkisins í bókfærðu eigin fé hefur aukist um 97 milljarða króna frá stofnun bankans,að teknu tilliti til hlutabréfa sem nú renna til ríkisins frá LBI hf. við útgáfu skilyrta skuldabréfsins. Ávinningur ríkisins er því jákvæður um 55 milljarða króna þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar.

Aukið verðmæti lánasafns fyrirtækja

Þessi mikli ávinningur skýrist af breytingum á verðmæti lánasafns fyrirtækja en á haustdögum 2008 ríkti mikil óvissa um stöðu þeirra og vegna þess var endanlegt kaupverð eignasafns bankans háð þeim árangri sem endurskipulagning eigna myndi skila. Nú liggur fyrir endanlegt uppgjör, byggt á mati óháðra sérfræðinga frá Deloitte, og niðurstaða þess er að allur eignarhluti gamla bankans gengur nú til ríkisins og Landsbankans hf. án þess að frekara endurgjald komi fyrir.

04. desember 2020 13:37

Jólin koma – með Gunna og Felix

Félagarnir Gunni og Felix bjóða börnum á öllum aldri á skemmtilega jólasýningu á Facebook-síðu Landsbankans, sunnudaginn 6. desember kl. 14.00.


Nánar

04. desember 2020 13:00

Landsbankahúsið við Pólgötu á Ísafirði til sölu

Hús Landsbankans við Pólgötu 1 á Ísafirði verður auglýst til sölu um helgina. Húsið, sem var reist á árunum 1956-1958, setur sterkan svip á umhverfi sitt og er almennt talið eitt af fallegustu húsum miðbæjarins.


Nánar

04. desember 2020 12:20

Hagsjá: Mánaðaryfirlit yfir gjaldeyrismarkaðinn

Evran lækkaði um 3,2% og Bandaríkjadalur um 5,6% gagnvart krónunni í nóvember. Velta á gjaldeyrismarkaði í nóvember var 32,5 ma.kr. (201 m.evra). Hlutdeild Seðlabankans var 43%


Nánar

Skráðu þig á póstlista