Fréttir

24. maí 2012 16:57

Landsbankinn hagræðir í rekstri

Landsbankinn hefur ákveðið að hagræða í rekstri bankans með aðgerðum sem ná jafnt til höfuðstöðva og útibúa, landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þær fela í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Bankinn áætlar að um 400 milljónir króna sparist á ári með þessum breytingum. Þrátt fyrir þessar aðgerðir mun Landsbankinn eftir sem áður reka víðfeðmasta útibúanet landsins með 38 afgreiðslur og útibú. Mikil áhersla er lögð á að þjónusta við viðskiptavini raskist sem minnst.

Starfsmönnum bankans mun fækka um 50 við þessar aðgerðir, 29 starfsmönnum hefur verið sagt upp en 15 verið boðinn starfslokasamningur vegna aldurs og verða tryggð full réttindi. Aðrir sem nú hætta höfðu áður sagt upp störfum.

Spurt og svarað um hagræðingu í Landsbankanum

Rekstur til stöðugrar endurskoðunar

Rekstur Landsbankans er til stöðugrar skoðunar með það fyrir augum að hagræða þar sem því verður við komið og leggja niður óhagkvæmar einingar ef þarf, án þess að því fylgi umtalsverð skerðing á þjónustu. Þessar aðgerðir fylgja þeirri stefnu. Lögð verður áhersla á halda áfram úti þjónustu á þeim stöðum sem afskekktastir eru með þjónustuheimsóknum en sambærileg aðferð hefur gefist vel þar sem henni hefur verið beitt. Þá hefur tæknilausnum í bankaþjónustu fleygt gríðarlega fram og samgöngur verða æ betri á landinu.

Á síðustu árum hefur yfirstjórn bankans lagt mikla áherslu á að vernda störf, bjóða eldri starfsmönnum starfslokasamninga ef komið hefur til fækkunar eða láta eðlilega starfsmannaveltu sjá um nauðsynlega fækkun þegar hennar hefur verið þörf. Það hefur gengið vel fram að þessu. Á síðasta ári bættust um 200 starfsmenn við þegar bankinn tók yfir rekstur Spkef, SP - Fjármögnunar og Avant og fyrirséð var að einhver breyting yrði á starfsmannahaldi í kjölfarið.

Meira en helmingur af rekstrarkostnaði fjármálafyrirtækja eru launakostnaður. Hagræðingu verður því tæplega náð fram án þess að henni fylgi fækkun starfsmanna. Landsbankinn hefur sett sér skýr markmið um lækkun rekstrarkostnaðar sem hlutfall af tekjum og þessi aðgerð er þáttur í að uppfylla þau.

Breytingar í höfuðstöðvum

Breytingar í höfuðstöðvum skýrast fyrst og fremst af skipulagsbreytingum og tilfærslu verkefna. Fækkun starfsmanna verður á ýmsum sviðum bankans en viðskiptavinir eiga ekki að verða varir við neinar breytingar á þjónustu. Helstu breytingar verða í bakvinnslu á Fjármálasviði, en þar er verið að hagræða og samþætta vinnulag. Öll lánavinnsla bankans verður sameinuð á einn stað og allt reikningshald einnig. Á sama tíma hefur verið gengið frá starfslokasamningum vegna aldurs við nokkra starfsmenn. Þá verður hagrætt hjá Viðskiptabanka, Þróun og víðar.

Breytingar á útibúanetinu

Sú breyting sem verður á útibúanetinu skýrist af stórum hluta af þróun og breytingu á viðskiptaháttum, en um 80% allra samskipta við banka eru orðin rafræn eða um síma. Heimsóknum í útibú hefur því fækkað hratt á síðustu árum. Þau útibú sem eftir standa verða stærri en þau sem fyrir eru og munu geta veitt betri og viðtækari þjónustu.

Breytingarnar fela í sér að afgreiðslu eða útibúi á átta stöðum verður lokað eða starfsemin sameinuð öðru útibúi. Afgreiðslum bankans í Flateyri og Súðavík verður lokað en útibúið á Ísafirði og afgreiðsla á Þingeyri veita þjónustu á þessu svæði. Afgreiðslu á Bíldudal er lokað en útibúin á Patreksfirði og Tálknafirði annast þjónustu. Þá er afgreiðslunni á Króksfjarðarnesi lokað en stefnt að áframhaldandi þjónustuheimsóknum á Reykhóla. Afgreiðsla í Grundarfirði verður sameinuð útibúi Landsbankans í Snæfellsbæ. Þá verða útibú á Eskifirði og Fáskrúðsfirði sameinuð útibúinu á Reyðarfirði sem verður í lykilhlutverki í Fjarðabyggð og nágrenni. Einnig verða breytingar í Reykjavík, útibúið í Árbæ verður sameinað útibúinu í Grafarholti við Vínlandsleið en áfram starfrækt afgreiðsla í Árbænum.

Síðasti starfsdagur í útibúum sem lögð verða niður er fimmtudagurinn 31. maí.

Útibú Landsbankans frá 1. júní 2012

Breytingar hluti af viðvarandi þróun

Þessar breytingar sem nú eru boðaðar eru í raun hluti af þróun sem staðið hefur um langa hríð. Frá árinu 1998 hefur afgreiðslustöðum Landsbankans t.a.m. fækkað úr 64 í 38 (fjölgaði tímabundið árið 2011 vegna samruna við Spkef). Með þessum aðgerðum hefur útibúum Landsbankans og Spkef fækkað um 30% á síðustu þremur árum. Sú fækkun sem nú verður er því í eðlilegu samhengi við það sem áður hefur gerst víðs vegar um land, nú síðast með yfirstandandi sameiningu útibúa á Laugavegi 77 og í Holtagörðum á einn stað í Reykjavík og í Hafnarfirði þar sem útibú voru sameinuð á síðasta ári. Fjöldi útibúa í íslenska bankakerfinu er þó enn mikill miðað við önnur Norðurlönd og umfang útibúanetsins verður því óhjákvæmilega áfram til skoðunar.

Spurt og svarað um hagræðingu í Landsbankanum

11. júní 2019 13:36

Umræðan: Viðskiptavinir Landsbankans tóku Apple Pay fagnandi

Apple Pay fór fyrst í loftið í Bandaríkjunum í október 2014. Fyrir um einum mánuði, í byrjun maí 2019, þegar Landsbankinn og Arion banki buðu viðskiptavinum sínum að nota lausnina, varð Ísland 38. Apple Pay-landið. En hvað er Apple Pay og af hverju var lausnin svo lengi að ná Íslandsströndum?


Nánar

14. júní 2019 10:58

Svana Huld Linnet nýr forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans

Svana Huld Linnet hefur verið ráðin í starf forstöðumanns Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans.


Nánar

14. júní 2019 08:59

Hagsjá: Spáum 3,4% verðbólgu í júní

Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) milli mánaða. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 3,6% í 3,4%.


Nánar