Íslensku vefverðlaunin

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða.

Íslensku vefverðlaunin 2018

Landsbankaappið var valið app ársins 2018 þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 22. febrúar 2019. Appið er einfalt og þægilegt í notkun en með því geta viðskiptavinir Landsbankans sinnt bankaviðskiptum sínum hvar og hvenær sem er.

Í umsögn dómnefndar segir: „Í appinu er fljótlegt að framkvæma allar meginaðgerðir og mikil áhersla lögð á aðgengi. Valmynd er vel uppsett. Fallegt, þægilegt og gott í notkun.“

Landsbankinn kynnti á árinu 2018 fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu sem er ætlað að gera líf viðskiptavina einfaldara og bankaviðskipti auðveldari. Fjallað er um nýjungarnar í ársskýrslu Landsbankans sem kom út í febrúar.

Landsbankaappið er aðgengilegt í App Store og Google Play. Þeir sem ekki eru þegar viðskiptavinir bankans geta skráð sig í viðskipti á örfáum mínútum með því að sækja appið og auðkenna sig með rafrænum skilríkjum.

Vefur Vesturbyggðar var valinn vefur ársins.

 


Íslensku vefverðlaunin 2016

Umræðan, umræðuvefur Landsbankans, var valin besta efnis- og fréttaveitan og farsímabanki Landsbankans L.is, besta vefappið að mati dómnefndar Íslensku vefverðlaunanna fyrir árið 2016. Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 27. janúar 2017 og að þessu sinni hlaut Landsbankinn átta tilnefningar.

Netbankar Landsbankans – netbanki einstaklinga, netbanki fyrirtækja og farsímabankinn, L.is – voru allir tilnefndir í flokknum vefkerfi ársins. Farsímabankinn hlaut tilnefningu sem vefapp ársins og Sprota-app Landsbankans var sömuleiðis tilnefnt til verðlauna í þeim flokki.

Þetta er þriðja árið í röð sem netbanki einstaklinga er tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna en hann var valinn besta þjónustusvæðið árin 2014 og 2015.

Ársskýrsla Landsbankans 2015 var tilnefnd í flokknum fyrirtækjavefur ársins (fyrirtæki með 50 eða fleiri starfsmenn), Umræðan – umræðuvefur Landsbankans var tilnefnd sem efnis- og fréttaveita ársins og Iceland Airwaves vefur Landsbankans var tilnefndur í flokknum markaðsvefur ársins annað árið í röð
.

Vefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands var valinn besti íslenski vefurinn.


Íslensku vefverðlaunin 2015

Netbanki einstaklinga var valinn besta þjónustusvæðið 2015 þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 29. janúar 2016. Þetta er annað árið í röð sem netbankinn hlýtur þessa viðurkenningu.

Landsbankinn hlaut þrjár tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna að þessu sinni. Netbanki einstaklinga var tilnefndur til tvennra verðlauna, annars vegar í flokknum „aðgengilegir vefir“ og hins vegar í flokknum „þjónustusvæði viðskiptavina“. Sérvefur Landsbankans í tengslum við Iceland Airwaves tónlistarhátíðina var síðan tilnefndur í flokknum „markaðsherferðir á netinu“.

Vefurinn tix.is var valinn besti íslenski vefurinn.

Íslensku vefverðlaunin 2014

Netbanki einstaklinga var valinn besta þjónustusvæðið þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 30. janúar 2015

Landsbankinn hlaut þrjár tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna 2014. Netbankinn hlaut tilnefningu í flokknum „Besta þjónustusvæðið“ og Iceland Airwaves vefur Landsbankans hlaut tvær tilnefningar, annars vegar í flokkunum „Besta markaðsherferðin“ og hins vegar sem „Frumlegasti vefurinn“.

Vefur Heilsuveru var valinn besti íslenski vefurinn. 

Verðlaunin voru afhent í Gamla bíói föstudaginn 30. janúar 2015.

 

Íslensku vefverðlaunin 2013

Vefsvæðið Saga um fisk var tilnefnt til Íslensku vefverðlaunanna 2013 sem frumlegasti vefurinn.

Íslensku vefverðlaunin voru afhent 31. janúar 2014 í Gamla bíói. Veitt voru verðlaun og viðurkenningar í alls 14 flokkum.


Íslensku vefverðlaunin 2012

Farsímavefur Landsbankans - L.is - var valinn besti smá- eða handtækjavefurinn þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 8. febrúar 2013.

Í umsögn dómnefndar um vefinn segir: "Vefurinn ber vott um fagmennsku og metnað. Hann er úthugsaður og hnitmiðaður fyrir fólk á ferðinni. Vefurinn er léttur, lítill og ljómandi laglegur."

Vefurinn Bluelagoon.com var valinn besti íslenski vefurinn.

Það eru Samtök vefiðnaðarins sem veittu Íslensku vefverðlaunin 2012 en alls voru þau veitt í tólf flokkum.


Íslensku vefverðlaunin 2011

Vefur Landsbankans hlaut tvenn verðlaun þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 3. febrúar 2012. Vefurinn var valinn besti sölu- og kynningarvefur fyrirtækis með yfir 50 starfsmenn og besti þjónustu- og upplýsingavefurinn.

Vefur Orkusölunnar var valinn besti íslenski vefurinn.

Það eru Samtök vefiðnaðarins sem veittu Íslensku vefverðlaunin 2011 en alls voru þau veitt í ellefu flokkum.

Íslensku vefverðlaunin 2010

Farsímavefur Landsbankans var valinn besti hand- og smátækjavefurinn á Íslensku vefverðlaununum 2010.
 
Í umsögn dómnefndar SVEF um vefinn segir: "Besti hand- og smátækjavefurinn í ár er í senn upplýsinga- og þjónustuvefur. Á vefnum geta notendur á fljótlegan og þægilegan hátt nálgast allar helstu upplýsingar fyrirtækisins. Að auki geta viðskiptavinir nýtt sér hann til að framkvæma algengar aðgerðir fljótt og örugglega. Á næstu misserum munu slíkir vefir verða æ mikilvægari og þessi vefur er fyrirtaks fyrirmynd þegar litið er til íslenskra mobile-vefsíðna."
 
Vefur Meniga var valinn besti íslenski vefurinn.
 
Það eru Samtök vefiðnaðarins sem veittu Íslensku vefverðlaunin 2010 en alls voru þau veitt í ellefu flokkum.

Íslensku vefverðlaunin 2009

Námuherferð Landsbankans var valin besta markaðsherferð á netinu á Íslensku vefverðlaununum 2009. Vefur Landsbankans var einnig tilnefndur sem besti sölu- og kynningarvefur fyrirtækis með yfir 50 starfsmenn.

Í umsögn dómnefndar SVEF um Námuherferðina segir: "Herferð Landsbankans fyrir Námuna er bæði vel útfærð og með skýran markhóp. Borðar herferðarinnar vöktu athygli fyrir gagnvirka framsetningu á myndagátum og vefsvæði herferðarinnar er til fyrirmyndar.

Textar og myndefni faglega framsett á líflegan og aðgengilegan máta og byggja á sterkum grafískum grunni sem hefur einkennt vefsvæði Landsbankans um þónokkurt skeið. Í heildina er þetta vel heppnuð og skemmtileg herferð þar sem eiginleikar netsins fá að njóta sín."

Námuherferð Landsbankans var unnin í samvinnu markaðsdeildar og vefdeildar Landsbankans og auglýsingastofunnar ENNEMM.

Vefur ja.is var valinn besti vefur landsins.

Það eru Samtök vefiðnaðarins sem veittu Íslensku vefverðlaunin 2009 en alls voru þau veitt í tíu flokkum.

Íslensku vefverðlaunin 2007

Vefur Landsbankans er tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna 2007 sem besti stofnuna- eða fyrirtækisvefurinn.

Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 1. febrúar 2008 á Hótel Sögu að lokinni vel heppnaðri vefráðstefnu SVEF. Yfir eitthundrað vefir voru tilnefndir til þátttöku og veitt voru verðlaun og viðurkenningar í alls átta flokkum.

Íslensku vefverðlaunin 2006

Vefur Landsbankans er tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna 2006 fyrir bestu útlits- og viðmótshönnun og sem besti þjónustuvefurinn.

Forsætisráðherra afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó 18. janúar 2007.

"Við erum afar þakklát fyrir tilnefningar dómnefndar" segir Snæbjörn Konráðsson deildarstjóri vefdeildar Landsbankans. "Við lítum á þær sem viðurkenningu á þeirri grundvallarstefnu að þjónusta bankans sé eins aðgengileg viðskiptavinum okkar og kostur er."

Vefur Landsbankans vann Íslensku vefverðlaunin árið 2004 í flokki fyrirtækjavefja, fyrir bestu útlits- og viðmótshönnun og sem besti íslenski vefurinn. "Við lítum á tilnefningarnar nú sem viðurkenningu á því að vefurinn hafi staðist tímans tönn og að við séum á réttri leið. Þetta er einnig frábær hvatning til að gera enn betur í þjónustu við viðskiptavini okkar" segir Snæbjörn.

Íslensku vefverðlaunin 2005

Vefur Landsbankans var tilnefndur sem besti íslenski vefurinn þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent árið 2005.

Mbl.is var valinn besti íslenski vefurinn.

Íslensku vefverðlaunin 2004

Vefur Landsbankans hlaut þrenn verðlaun þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent 30. október 2004. Vefurinn var valinn besti íslenski vefurinn, besti fyrirtækisvefurinn og hlaut ennfremur verðlaun fyrir bestu útlits- og viðmótshönnun. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin.

Í niðurstöðu dómnefndar sagði um vef Landsbankans að hann væri "markviss og notendavænn" og ennfremur "skipulagður með skilvirkt og fágað viðmót."

Við erum afar hreykin af þessum árangri sem byggir á þeirri grundvallarstefnu að öll þjónusta bankans sé eins aðgengileg viðskiptavinum okkar og kostur er. Verðlaunin eru því frábær hvatning til að gera enn betur í þjónustu við viðskiptavini okkar.

Íslensku vefverðlaunin eru veitt í fimm flokkum. Auk þeirra þriggja flokka, þar sem Landsbankinn hlaut verðlaun, voru veitt verðlaun fyrir besta einstaklingsvefinn og besta afþreyingarvefinn.

Hin íslenska vefakademía, sem skipuð er fimm reyndum einstaklingum úr vef- og markaðsiðnaðinum, valdi úr tilnefningum almennings þá fimm vefi sem komust í úrslit í hverjum flokki. Vefakademían valdi að lokum verðlaunahafa í öllum flokkunum fimm.