- Fjárfestatengsl
Landsbankinn gefur út skuldabréf fyrir 300 milljón evrur
Landsbankinn lauk 21. nóvember sölu á nýjum 5,5 ára skuldabréfaflokki að fjárhæð 300 milljónir evra með lokagjalddaga í maí 2023 og bera skuldabréfin fasta 1,00% vexti. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 85 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði. Heildareftirspurn nam yfir 600 milljónum evra frá 70 fjárfestum. Skuldabréfin voru seld til stofnanafjárfesta í Bretlandi, meginlandi Evrópu, Norðurlöndum og Asíu.
Andvirði skuldabréfaútgáfunnar verður meðal annars nýtt til endurfjármögnunar evru-útgáfu bankans á gjalddaga í október 2018 í framhaldi af endurkaupatilboði bankans sem lýkur á föstudag, 24. nóvember 2017.
Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN-útgáfuramma bankans og er stefnt að því að skuldabréfin verði tekin til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 29. nóvember 2017.
Umsjónaraðilar sölunnar voru Citigroup, Deutsche Bank, Morgan Stanley og Nomura.
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála hjá Landsbankanum:
„Mikil eftirspurn breiðs hóps fjárfesta í útgáfunni er til vitnis um mikið traust fjárfesta til Landsbankans og íslensks efnahagslífs. Útgáfan kemur í kjölfar nýlegrar hækkunar S&P Global Ratings á lánshæfiseinkunn bankans og er bankinn nú að fjármagna sig í erlendri mynt á betri kjörum og til lengri tíma en áður.“
Fjárfestatengsl - 24. október 2019 16:04
Afkoma Landsbankans var jákvæð um 14,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 samanborið við 15,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 7,9% á ársgrundvelli samanborið við 8,8% á sama tímabili 2018.
NánarFjárfestatengsl - 25. júlí 2019 16:03
Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 11,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,1% á ársgrundvelli, samanborið við 9,9% á sama tímabili 2018. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 2% á milli tímabila.
NánarFjárfestatengsl - 23. júlí 2019 18:23
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti þann 23. júlí 2019 óbreytta lánshæfiseinkunn Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri og skemmri tíma (BBB+/A-2) en breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar.
Nánar