Fréttir og útgáfuefni

- Fjárfestatengsl

Landsbankinn hagnast um 16,4 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2016

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 16,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 samanborið við 24,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2015.

Hreinar vaxtatekjur voru 26,2 milljarðar króna og hækkuðu um 4,7% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 5,9 milljörðum króna og hækkuðu um 15% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 12,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 4,7 milljörðum króna samanborið við 8,4 milljarða króna ári fyrr og skýrist lækkunin aðallega af minni hagnaði af hlutabréfum. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 8,5% á ársgrundvelli samanborið við 13,5% á sama tímabili 2015.

Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 41,2 milljörðum króna samanborið við 50,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2015. Rekstrarkostnaður samtals lækkaði um 0,4% á milli ára og er 17,6 milljarðar króna, þar af var launakostnaður 10,4 milljarðar og annar rekstrarkostnaður 7,2 milljarðar. Heildareignir Landsbankans í lok september voru um 1.134 milljarðar króna samanborið við 1.176 milljarða króna ári fyrr og hefur því efnahagur bankans dregist saman um tæp 4% síðustu 12 mánuði. Landsbankinn greiddi á þessu ári 28,5 milljarða króna í arð í tveimur greiðslum, í apríl og september. Þann 15. september birti Landsbankinn tilkynningu um að bankinn byðist til að kaupa hluti af hluthöfum samkvæmt endurkaupaáætlun á þremur tilgreindum endurkaupatímabilum. Á fyrsta endurkaupatímabili keypti Landsbankinn um 120 milljón hluti eða 0,5% af útgefnum hlutum og nam kaupverð þeirra 1,2 milljörðum króna. Endurkaupin geta að hámarki numið samtals 480 milljónum hluta eða sem nemur 2% af útgefnu hlutfé. Í lok september var eigið fé bankans 251,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfallið var 29,1% samanborið við 29,2% á sama tíma árið áður.

Árshlutareikningur samstæðu 9M 2016

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (03.34).
Steinþór Pálsson bankastjóri segir: „Landsbankinn heldur áfram að styrkja stöðu sína sem leiðandi fjármálafyrirtæki hér á landi og hefur markaðshlutdeild aldrei mælst hærri en á árinu. Gæði eigna hafa batnað sem og fjármögnun, þökk sé vel heppnuðum skuldabréfaútgáfum erlendis á árinu. Enn eru töluverðar sveiflur í einskiptisliðum, það er í virðisbreytingum á útlánum og hlutabréfum. Ef horft er framhjá þessum liðum batnar afkoman frá fyrra ári þar sem aðrar tekjur hafa aukist vegna aukinna viðskipta og á sama tíma höfum við náð að lækka rekstrarkostnað.

Landsbankinn hefur greitt verulegar fjárhæðir í arð til eigenda á árinu, hærri en nokkru sinni fyrr. Nýtt og hærra lánshæfismat frá Standard & Poor‘s nú í október staðfestir sterka stöðu bankans. Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins er gott og afkoma er umfram væntingar okkar. Það er ánægjulegt að viðskiptavinir sjá sér hag í að beina viðskiptum í auknum mæli til bankans og að traust fjárfesta á bankanum fer vaxandi.“

Helstu atriði úr rekstri á þriðja fjórðungi (3F) 2016

 • Hagnaður Landsbankans á 3F 2016 nam 5,1 milljarði króna samanborið við 12 milljarða króna á sama fjórðungi 2015.
 • Hreinar vaxtatekjur lækkuðu á milli tímabila, námu 8,6 milljörðum króna á 3F 2016 en voru 8,8 milljarðar króna á 3F 2015.
 • Virðisbreyting útlána var jákvæð um 2,1 milljarð króna á 3F 2016 en var jákvæð um 10,5 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2015.
 • Hreinar þjónustutekjur hækkuðu á milli tímabila vegna aukinna viðskipta og voru 2 milljarðar króna á 3F 2016 samanborið við 1,7 milljarð króna á sama tímabili árið áður sem er aukning um 15%.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% á 3F 2016 samanborið við 19,5% á sama ársfjórðungi 2015.

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag á fyrstu níu mánuðum ársins 2016

Rekstur:
 • Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 nam 16,4 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 24,4 milljarða króna á sama tímabili 2015.
 • Hreinar vaxtatekjur námu 26,2 milljörðum króna og hækkuðu um 4,7% milli tímabila.
 • Virðisbreytingar útlána á tímabilinu voru jákvæðar um 4,4 milljarða króna samanborið við 12,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2015.
 • Hreinar þjónustutekjur námu 5,9 milljörðum króna og jukust um 15% frá sama tímabili árið áður sem skýrist af auknum viðskiptum.
 • Aðrar rekstrartekjur námu 4,7 milljörðum króna samanborið við 8,4 milljarða króna á sama tímabili á árinu 2015 sem er lækkun um 44%. Skýrist þetta að mestu af minni hagnaði af hlutabréfum.
 • Vaxtamunur eigna og skulda er 2,3%, sem er sama hlutfall og á sama tímabili árið áður.
 • Rekstrarkostnaður samtals lækkaði um 0,4% frá sama tímabili og í fyrra.
 • Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánuði ársins var 47,7% samanborið við 45,7% á sama tíma árið áður.
 • Stöðugildi 30. september voru 1.043 en voru 1.092 á sama tíma fyrir ári.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 8,5% samanborið við 13,5% á sama tímabili árið 2015.
Efnahagur:
 • Heildareignir bankans námu 1.134 milljörðum króna í lok september 2016.
 • Ný útlán til viðskiptavina á fyrstu níu mánuðum ársins voru um 186 milljarðar króna en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta hækkuðu heildarútlán um 25,9 milljarða króna frá áramótum. Í lok september voru heildarútlán 837 milljarðar króna.
 • Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum yfir 90 daga voru 1,8% í lok september 2016 sem er sama hlutfall og í lok árs 2015.
 • Innlán viðskiptavina námu 584 milljörðum króna í lok september 2016 samanborið við 559 milljarða króna í lok árs 2015. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hafa lækkað á árinu og er lækkunin fyrst og fremst vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka Íslands í júní sl.
 • Eignir umfram skuldir í erlendri mynt eru um 2,4 milljarðar króna, samanborið við 23,8 milljarða króna í lok síðasta árs.
 • Lausafjárstaða bankans er sterk, bæði í erlendri mynt og í íslenskum krónum.
 • Eigið fé Landsbankans var í lok september um 251 milljarður króna og hefur það lækkað um 5,1% frá áramótum. Skýringin er sú að Landsbankinn hefur greitt á þessu ári 28,5 milljarða króna í arð í tveimur greiðslum, annars vegar í apríl og hins vegar í september.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) var 29,1% í lok september sl. en var 29,2% ári fyrr. Það er vel umfram 22,1% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  9M 2016 9M 2015 3F 2016 3F 2015
Fjárhæðir í milljónum króna
Hagnaður eftir skatta  16.400 24.413 5.102 12.008
Arðsemi eigin fjár eftir skatta  8,5% 13,5% 8,2% 19,5%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta *  8,0% 9,8% 6,8% 8,1%
Vaxtamunur eigna og skulda **  2,3% 2,3% 2,4% 2,4%
Kostnaðarhlutfall ***  47,7% 45,7% 48,9% 47,9%

  30.9.2016 30.9.2015 31.12.2015 31.12.2014
Heildareignir  1.133.802 1.175.804 1.118.658 1.098.370
Útlán til viðskiptavina  837.494 807.033 811.549 718.355
Innlán frá viðskiptavinum  583.715 624.924 559.051 551.435
Eigið fé  251.146 252.484 264.531 250.803
Eiginfjárhlutfall (CAR)  29,1% 29,2% 30,4% 29,5%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta  149% 120% 136% 134%
Heildarlausafjárþekja  140% 109% 113% 131%
Lausafjárþekja erlendra mynta  594% 190% 360% 614%
Gjaldeyrisjöfnuður  2.425 22.842 23.795 20.320
Vanskilahlutfall (>90 daga)  1,8% 2,0% 1,8% 2,3%
Stöðugildi  1.043 1.092 1.063 1.126

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.
** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).
*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Árshlutareikningur samstæðu 9M 2016

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Fjárfestatengsl - 24. apríl 2020 17:55

S&P lækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB með stöðugum horfum

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag um lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.


Nánar

Fjárfestatengsl - 22. apríl 2020 15:03

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2020

Aðalfundur Landsbankans var haldinn 22. apríl 2020 í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti 11 í Reykjavík. Á fundinum flutti Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, skýrslu bankaráðs og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, fjallaði um sterka stöðu bankans og góðan árangur á árinu 2019.


Nánar