Fréttir og útgáfuefni

- Fjárfestatengsl

Landsbankinn hagnaðist um 36,5 milljarða króna árið 2015

 • Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna, eftir skatta.
 • Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014.
 • Kostnaðarhlutfall Landsbankans lækkaði verulega á milli ára, tekjur jukust umtalsvert og kostnaður lækkaði.
 • Tekjur vegna virðisbreytingar útlána nema 13,5 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 14,9 milljarða króna ári fyrr.
 • Eigið fé Landsbankans nam 264,5 milljörðum króna í árslok 2015 og eiginfjárhlutfallið (CAR) var 30,4%.
 • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 28,5 milljarða króna arður til hluthafa.

Ársreikningur samstæðu 2015

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Upplýsingablað

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 29,7 milljarða króna á árinu 2014. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði verulega milli ára eða úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015.

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans á árinu 2015 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (04:38):

Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári vegna aukinna umsvifa og hagstæðrar þróunar á fjármálamörkuðum. Útlán jukust um 13% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn stækkaði innan við 2%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 4 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 17% á milli ára. Kemur það til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum en á sama tíma hefur kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta aukist.

Þá aukast aðrar rekstrartekjur um tæpa 6 milljarða króna vegna hagfelldrar þróunar á verðbréfamörkuðum og söluhagnaðar eigna.

Hreinar virðisbreytingar útlána skila tekjufærslu upp á 18 milljarða króna í uppgjörinu, fyrir skatta. Ástæðan er bakfærsla á eldri varúðarfærslu vegna óvissu sem var um gengistryggð lán, en er nú að baki, og vegna aukinna gæða útlána bankans. Líkt og á árinu 2014 hafa jákvæðar virðisbreytingar því töluverð áhrif á hagnað bankans en árið 2014 var tekjufærsla vegna virðisbreytinga útlána 2 milljörðum króna hærri, eða um 20 millarðar króna fyrir skatta.

Laun og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1,5% frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5%.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2015 var 48,9 milljarðar króna samanborið við 39,5 milljarða króna 2014. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 13,1 milljarður króna í uppgjöri fyrir 2015 samanborið við 10,5 milljarða króna árið 2014.

Heildareignir Landsbankans hækkuðu um 20,3 milljarða á milli ára og í árslok 2015 námu eignir bankans alls 1.119 milljörðum króna. Útlán jukust um 93 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðarlána til einstaklinga ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka en það var 1,8% í lok árs 2015, samanborið við 2,3% í lok árs 2014.

Í árslok 2015 voru innlán frá viðskiptavinum 559 milljarðar króna, samanborið við 551 milljarð í árslok 2014. Innlán jukust um 8 milljarða króna á árinu þrátt fyrir verulegt útflæði innlána til fjármálafyrirtækja í slitameðferð fyrir árslok 2015.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2015 var 264,5 milljarðar króna, tæplega 14 milljörðum króna hærra en í árslok 2014, þrátt fyrir að í mars 2015 hafi Landsbankinn greitt 23,7 milljarða króna í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall (CAR) Landsbankans í árslok 2015 var 30,4% og hækkaði um tæplega 1 prósentustig frá fyrra ársuppgjöri. Eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins til Landsbankans er nú 21,8%.

Lagt verður til við aðalfund, sem hefur verið færður til 14. apríl 2016, að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 1,2 krónum á hlut, eða samtals 28,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur tæplega 80% af hagnaði ársins 2015.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir:

„Landsbankanum gekk vel á árinu 2015 og það var góður gangur á nánast öllum sviðum. Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári og um leið lækkuðu rekstrargjöld. Dregið hefur úr óvissu og áhættu hjá bankanum. Gæði eigna hafa aukist og fjármögnun bankans hefur styrkst með betra aðgengi að innlendum og erlendum lánamörkuðum. Lausafjárstaðan er sterk auk þess sem eiginfjárstaða bankans er hlutfallslega með því hæsta sem þekkist, þrátt fyrir háar arðgreiðslur. Samþætting Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann gekk vel og styrkir Landsbankann enn frekar á landsbyggðinni.

Arðsemi eiginfjár bankans á undanförnum árum hefur verið góð og fór árið 2015 vel fram úr væntingum. Stórir og óvenjulegir liðir hafa þar haft töluverð áhrif. Þar er fyrst og fremst átt við tekjufærslur vegna virðisbreytingar útlána, en á árinu 2015 voru áhrif þeirra 13,5 milljarðar króna á hagnað eftir skatta og á árinu 2014 voru áhrifin um 14,9 milljarðar króna eftir skatta. Viðbúið er að hagnaður muni lækka töluvert á næstunni þar sem ekki er reiknað með áhrifum af þessum óvenjulegu liðum í rekstri bankans til framtíðar.

Stefna Landsbankans er að vera öflugur samherji viðskiptavina í fjármálum og að viðskiptavinir, eigendur og samfélagið allt njóti ávinnings af starfi bankans. Bankinn leggur áherslu á hagkvæman og skilvirkan rekstur og að arðsemin sé ásættanleg, þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Á sama tíma er það okkur kappsmál að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Í upphafi ársins 2015 setti Landsbankinn sér nýja og metnaðarfulla stefnu til ársins 2020. Markvisst hefur verið unnið að því að innleiða stefnuna og lagt er mat á árangurinn með reglulegum hætti. Stefnan hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri, bæði fyrir viðskiptavini og fyrir bankann, og þessi árangur hefur að hluta komið fram í góðu uppgjöri bankans fyrir árið 2015.“

Helstu atriði úr rekstri á 4. ársfjórðungi (4F) 2015

 • Hagnaður Landsbankans á 4. ársfjórðungi nam rúmlega 12 milljörðum króna, samanborið við 9,8 milljarða króna á 4F 2014.
 • Arðsemi eiginfjár hækkar talsvert á milli tímabila og var 18,6%, samanborið við 15,9% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
 • Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 5,9 milljarða króna á 4F 2015 en þær námu 6,1 milljarði króna á 4F 2014.
 • Hreinar vaxtatekjur voru 7,3 milljarðar króna en þær námu 5,8 milljörðum króna á 4F 2014.
 • Hreinar þjónustutekjur voru 1,7 milljarðar króna en þær voru 1,6 milljarðar króna á 4F 2014.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2015

Rekstur:

 • Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna, samanborið við 29,7 milljarða króna á árinu 2014.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkar, þrátt fyrir hækkun eiginfjár. Arðsemin var 14,8% samanborið við 12,5% árið 2014.
 • Hreinar vaxtatekjur hækka um 4,3 milljarða króna frá fyrra ári. Þær námu 32,3 milljörðum króna á árinu 2015 samanborið við 28 milljarða króna á árinu 2014.
 • Vaxtamunur eigna og skulda hækkar á milli ára, munurinn var 1,9% árið 2014 en 2,2% árið 2015.
 • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 17% á milli ára, einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum. Breytingar á kortamarkaði stuðluðu einnig að hækkun á þjónustugjöldum en á sama tíma hefur kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta hækkað.
 • Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 18,2 milljarða króna á árinu 2015 sem skýrist einkum af fordæmisgildi dóma sem féllu í Hæstarétti í málum nr. 34/2015 og 35/2015 og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2015 og janúar 2016. Bakfærsla varúðar vegna gengislána til fyrirtækja á árinu 2015 skýrir jákvæða virðisbreytingu útlána upp á 13,8 milljarða króna.
 • Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1% á árinu 2015, sem einkum má rekja til samningsbundinna hækkana.
 • Kostnaðarhlutfall lækkar milli ára, úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015.
 • Á árinu 2015 sameinuðust Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Norðurlands Landsbankanum. Þrátt fyrir áhrif þessara samruna lækkaði rekstrarkostnaður bankans samtals um 1% á milli ára.
 • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 63 á árinu 2015 og voru 1.063 í árslok. Að teknu tilliti til samruna við önnur fjármálafyrirtæki hefur stöðugildum í Landsbankanum fækkað um 21,1% frá árinu 2011.
 • Skattar Landsbankans á árinu 2015 voru 13,1 milljarðar kr. samanborið við 10,5 milljarða kr. á árinu 2014.

Efnahagur:

 • Eigið fé Landsbankans í árslok 2015 var 264,5 milljarðar króna, tæplega 14 milljörðum króna hærra en það var í árslok 2014, þrátt fyrir að í mars 2015 hafi Landsbankinn greitt 23,7 milljarða króna í arð til hluthafa.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er hátt og verulega umfram 21,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins. Eiginfjárhlutfallið var 30,4% í lok árs 2015 en var 29,5% í lok árs 2014.
 • Heildareignir bankans námu 1.119 milljörðum króna í lok árs 2015 og hækka um tæplega 2% á milli ára.
 • Landsbankinn hefur lánað 225 milljarða króna í ný útlán á árinu en vegna afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta aukast heildarútlán um samtals 93 milljarða króna og nema heildarútlán 811 milljörðum króna í lok ársins 2015.
 • Innlán viðskiptavina, fyrir utan fjármálafyrirtæki jukust um 1,4% á árinu 2015 eða um 7,6 milljarða króna.
 • Lausafjárstaða bankans er sterk sem fyrr, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og er vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall (LCR) var 113% í lok árs 2015.
 • Gjaldeyrisjöfnuður bankans er sterkur en eignir í erlendri mynt eru um 23,8 milljörðum króna umfram skuldir í erlendri mynt.
 • Á árinu 2015 lækkar liðurinn eignir til sölu um 6,3 milljarða króna. Heildarvanskil fyrirtækja og heimila lækkuðu í 1,8% í lok árs 2015, úr 2,3% í lok árs 2014. Vanskilahlutfallið var 5,8% í lok árs 2013.
 • Á árinu 2014 seldi Landsbankinn 38% eignarhlut sinn í Valitor Holding hf. til Arion banka hf. Auk peningagreiðslu upp á 3,6 milljarða króna gerðu bankarnir með sér samkomulag um viðbótargreiðslu kaupverðs. Samkomulagið var háð þeim skilyrðum að Valitor, eða dóttufélög Valitor, fengju greiðslur frá Visa Europe vegna valréttarsamnings milli Visa Europe og Visa Inc. Valrétturinn var virkjaður undir lok árs 2015. Komið hefur fram í tilkynningu frá Visa Inc. að greiðslan fyrir Visa Europe verði í þrennu lagi. Landsbankinn hefur lagt mat á gangvirði viðbótargreiðslunnar og tekjufært 2,4 milljarða króna í ársreikning fyrir árið 2015, en nánar er gert grein fyrir tekjufærslunni í skýringu 24 í ársreikningi bankans.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  2015 2014 4F 2015 4F 2014
Hagnaður eftir skatta 36.460
29.737 12.047 9.752
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 14,8%
12,5% 18,6% 15,9%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta * 10,6%
7,5% 12,8% 9,2%
Vaxtamunur eigna og skulda ** 2,2%
1,9% 1,9% 1,5%
Kostnaðarhlutfall *** 43,8%
56,0% 39,1% 57,7%

  31.12.15 31.12.14 30.09.15 30.06.15
Heildareignir 1.118.658
1.098.370 1.175.804 1.172.669
Útlán til viðskiptavina 811.549
718.355 807.033 761.290
Innlán frá viðskiptavinum 559.051
551.435 624.924 621.023
Eigið fé 264.531 250.803 252.484 239.852
Eiginfjárhlutfall (CAR) 30,4% 29,5% 29,2% 28,0%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 136%
134% 120% 139%
Heildarlausafjárþekja 113% 131% 109% 119%
Lausafjárþekja erlendra mynta 360% 614% 190% 377%
Gjaldeyrisjöfnuður 23.795 20.320 22.842 19.446
Vanskilahlutfall (>90 daga) 1,8%
2,3% 2,0% 2,3%
Stöðugildi 1.063
1.126 1.092 1.088

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.

** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur / meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld / meðalstaða heildarskulda).

*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls að frátalinni gjaldfærslu vegna hlutabréfatengdra launaliða / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri Landsbankans á árinu 2015

 • Samkvæmt mælingum Gallup var Landsbankinn með mesta markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði á 4. ársfjórðungi 2015 eða 36,1% og hefur hún aldrei mælst hærri.
 • Í desember lauk Landsbankinn við fyrstu skuldabréfaútgáfu sína í Skandinavíu. Útgáfan nam 250 milljónum norskra króna og 250 milljónum sænskra króna.
 • Landsbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) undirrituðu í desember lánasamning til fimm ára, að fjárhæð 30 milljónir evra. Í samningnum um lánarammann er kveðið á um að Landsbankinn endurláni upphæðina til verkefna sem efla samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og til að fjármagna umhverfisvæn verkefni á Íslandi.
 • Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor's staðfesti í nóvember mat sitt á lánshæfi Landsbankans. Lang- og skammtíma lánshæfiseinkunn Landsbankans er BBB-/A-3, með jákvæðum horfum.
 • Í október gaf Landsbankinn út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra, eða sem nemur um 43 milljörðum króna. Skuldabréfin eru til þriggja ára, bera fasta 3,00% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 295 punkta álagi á millibankavexti í evrum.
 • Landsbankinn og slitastjórn LBI gerðu með sér samkomulag í september 2015 um að Landsbankinn fyrirframgreiddi á árinu 2015 skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum á gjalddaga í október 2016 og einnig að hluta skuldabréf á gjalddaga í október 2018. Fjárhæð fyrirframgreiðslunnar nam að jafnvirði um 47 milljörðum króna.
 • Á árinu 2015 var bankinn með mestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands eða 26,4%. Þá var bankinn næststærstur á skuldabréfamarkaði með 20,6% hlutdeild. Kauphallaraðilar eru samtals átta og því ljóst að bankinn er leiðandi á markaði með skráð verðbréf.
 • Landsbankinn fékk haustið 2015 staðfesta vottun samkvæmt nýrri útgáfu ISO 27001 sem er staðall fyrir upplýsingaöryggi og meðferð trúnaðarupplýsinga.
 • Á árinu 2015 sá fyrirtækjaráðgjöf bankans um söluna á, Ístak, Promens og Ellingsen og veitti ráðgjöf vegna kaupa Regins á fasteignasöfnum Ósvarar ehf. og CFV1 ehf.
 • Í könnun Gallup í mars 2015, sem unnin var fyrir Landsbankann, kom fram að flestir aðspurðra, eða sem nemur 40%, myndu velja sér Landsbankann þegar kemur að eignastýringarþjónustu.
 • Á aðalfundi bankans 18. mars 2015 var samþykkt að greiða eigendum bankans um 24 milljarða króna í arð. Landsbankinn hafði þar með greitt um 53,5 milljarða króna í arð vegna rekstraráranna 2012-2014.
 • Landsbankinn hf. og Sparisjóður Norðurlands ses. skrifuðu undir samrunaáætlun 30. júní. Samruninn tók formlega gildi 4. september.
 • Landsbankinn og Sparisjóður Vestmannaeyinga runnu saman samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitins um samrunann 29. mars 2015.
 • Svið Þróunar og mannauðs var lagt niður í byrjun júlí og einingar á sviðinu fluttar undir aðra í framkvæmdastjórn. Við þetta fækkaði framkvæmdastjórum bankans úr sjö í sex.
 • Isavia, sem m.a. rekur Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hóf í október viðræður við Arion banka um rekstur fjármálaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkissonar, á grundvelli útboðs. Landsbankinn mun hætta rekstri í Leifsstöð 30. apríl 2016.
 • Farsímabanki Landsbankans – l.is – var uppfærður til mikilla muna í október 2015 en uppfærslan er hluti af stefnu bankans um að þróa rafræna þjónustu.
 • Í mars varð Landsbankinn fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki Jafnlaunaúttektar PWC. Landsbankinn er jafnframt stærsta fyrirtækið sem hefur undirgengist og staðist þá úttekt.
 • Annað árið í röð taldi alþjóðlega fjármálaritið Global Finance Landsbankann besta bankann á Íslandi.
 • Annað árið í röð valdi alþjóðlega fjármálatímaritið International Finance, Landsbankann besta bankann á Íslandi og taldi netbanka Landsbankans besta netbankann.
 • Nýr netbanki einstaklinga var tekinn í notkun í janúar. Í febrúar var hann valinn besta þjónustusvæðið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.

Ársreikningur samstæðu 2015

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Upplýsingablað

Fjárhagsdagatal Landsbankans

14. apríl 2016 – Aðalfundur

12. maí 2016 – Uppgjör 1F 2016

11. ágúst 2016 – Uppgjör 1H 2016

27. október 2016 – Uppgjör 9M 2016

9. febrúar 2017 – Ársuppgjör 2016

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Fjárfestatengsl - 24. apríl 2020 17:55

S&P lækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB með stöðugum horfum

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag um lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.


Nánar

Fjárfestatengsl - 22. apríl 2020 15:03

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2020

Aðalfundur Landsbankans var haldinn 22. apríl 2020 í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti 11 í Reykjavík. Á fundinum flutti Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, skýrslu bankaráðs og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, fjallaði um sterka stöðu bankans og góðan árangur á árinu 2019.


Nánar