Fréttir og útgáfuefni

- Fréttir og tilkynningar

Landsbankinn veitir fimm milljónum í umhverfisstyrki

Síðastliðinn föstudag veitti Landsbankinn fimm milljónum króna í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans. Veittir voru 15 styrkir, fimm að upphæð 500 þúsund krónur hver og tíu að fjárhæð 250 þúsund krónur. Ríflega 100 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Þetta er í þriðja sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans.

Umhverfisstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Þessir styrkir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum saman við rekstur sinn. 

Dr. Guðrún Pétursdóttir formaður dómnefndar segir um styrkveitingu ársins: „Það er ánægjulegt að sjá hvað margir eru að vinna að góðum umhverfistengdum verkefnum um land allt og mikilvægt að stöndug fyrirtæki í landinu leggi slíkri starfsemi lið. Ég fagna því þessu framtaki Landsbankans og þakka öllum þeim sem sendu inn umsóknir um leið og ég óska þeim velfarnaðar.“

Jensína Kristín Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum segir: „Það er stefna Landsbankans að vinna í sátt við umhverfið og umhverfisstyrkirnir eru leið bankans til að verðlauna góðar hugmyndir og leggja þeim lið sem vilja gera vel í umhverfismálum og náttúruvernd.“

Samfélagssjóður Landsbankans veitir fjórar tegundir styrkja á hverju ári: Námsstyrki, nýsköpunarstyrki, samfélagsstyrki, og umhverfisstyrki.

Í dómnefnd sátu: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Eftirtaldir hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans að þessu sinni:

500 þúsund króna styrkir:

Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs
Til að græða upp örfoka land á suðvesturbakka Kleifarvatns.

Jón Sigurður Ólafsson
Til að gera fræðslurit um flóru og fánu ferskvatns á Íslandi.

Pílagrímar, áhugamannafélag
Til að stika leiðina frá Bæ til Skálholts að gömlum sið.

Veraldarvinir - Worldwide Friends Iceland
Til að hreinsa strandlengju Íslands og auka umhverfisvitund ungs fólks.

Vinir Þórsmerkur
Til að viðhalda gönguleiðum á brattlendi í Þórsmörk og Goðalandi, vernda með því gróður og koma í veg fyrir jarðvegsskemmdir.

250 þúsund króna styrkir:

Ferðafélag Akureyrar
Til að fjármagna kaup á sólarsellum í nýjan skála í fólkvanginum á Glerárdal.

GAIA Nemendafélag Umhverfis- og auðlindafræði við HÍ 
Til að halda Græna daga í Háskóla Íslands í þeim tilgangi að auka umhverfisvitund háskólasamfélagsins og samfélagsins í heild.

Landgræðslufélag Skaftárhrepps
Til uppgræðslu í byggðum Skaftárhrepps í þeim tilgangi að draga úr öskufoki og auka með því lífsgæði fólks, efla gróðurfar og umferðaröryggi í hreppnum.

Náttúrusetrið á Húsabakka
Til að brúa Holtsá og fjögur sýki á fyrirhuguðum göngustígum frá Dalvík að Húsabakka í Svarfaðardal.

Ragnhildur Sigurðardóttir 
Til að vinna að verkefni í þeim tilgangi að endurheimta votlendi á Stokkseyrarseli í Flóa.

Ómar Þ. Ragnarsson
Til að ljúka heimildamyndinni Akstur í óbyggðum sem fjallar um hvernig aka megi um óbyggðir án þess að valda skemmdum á náttúrunni.

Penna ehf.
Til að gera göngustíg upp Lómafell, þar sem sagt er að Hrafnaflóki hafið gengið uppá og skírt landið Ísland.

Skógræktarfélag Austur-Skaftfellinga
Til að bæta aðgengi fatlaðra með því að byggja upp betri salernisaðstöðu í Haukafelli á Mýrum.

Sæmundur B. Guðmundsson
Til að bæta aðgengi að útivistarparadís í Dýrafjarðarbotni Lambadalsmegin.

Yrkjusjóður
Til kaupa á trjáplöntum sem úthlutað er til grunnskólabarna um allt land til gróðursetningar.

Landsbankinn óskar styrkhöfum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í framtíðinni.


Landsbankinn - 06. febrúar 2020 16:17

Uppgjör Landsbankans fyrir árið 2019

Hagnaður Landsbankans á árinu 2019 nam 18,2 milljörðum króna, eftir skatta. Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 7,5% á árinu 2019, samanborið við 8,2% arðsemi árið 2018. Arðsemi eiginfjár án bankaskatts var 9,2% en markmið bankans er að ná að lágmarki 10% arðsemi eiginfjár, að teknu tilliti til áhrifa bankaskatts.


Nánar

Fjárfestatengsl - 19. febrúar 2020 10:25

Niðurstöður endurkaupatilboðs

Landsbankinn hf. tilkynnti í dag um niðurstöður endurkaupatilboðs sem tilkynnt var þann 11. febrúar 2020 til eigenda skuldabréfa í flokki EUR 500.000.000 1,625% á gjalddaga árið 2021 (ISIN: XS1490640288) þar sem bankinn bauðst til að kaupa skuldabréfin til baka gegn greiðslu reiðufjár. Endurkaupatilboðið byggði á skilmálum endurkaupatilboðs (e. tender offer memorandum) dagsett 11. febrúar 2020.
Nánar

Fjárfestatengsl - 12. febrúar 2020 15:54

Skuldabréfaútgáfa í evrum

Landsbankinn lauk í dag sölu á nýjum 4,25 ára skuldabréfaflokki að fjárhæð 300 milljónir evra með lokagjalddaga í maí 2024 og bera skuldabréfin fasta 0,50% vexti. Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 83 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði.


Nánar