Fréttir og útgáfuefni

Landsbankinn veitir styrki til umhverfismála

Landsbankinn veitti í dag fimm milljónir króna í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans. Veittir voru 14 styrkir, sex að upphæð 500 þúsund krónur hver og átta að fjárhæð 250 þúsund krónur. Ríflega 130 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Þetta er í annað sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans.

Umhverfisstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Þessir styrkir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum saman við rekstur sinn.

Dr. Guðrún Pétursdóttir, formaður dómnefndar segir um úthlutunina: „Líkt og alltaf var dómnefndinni vandi á höndum. Við höfum kosið að þessu sinni að styrkja mörg verkefni sem sameina umhverfismál og varðveisla menningarminja, fræðslu- og skólastarf. Með þessu teljum við að lagt sé mikilvægt lóð á vogarskálar þess að við göngum vel um landið okkar í framtíðinni og dýpkum um leið skilning á mikilvægum þáttum í sögu og menningu."

Jensína Kristín Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum: „Samfélagssjóðir Landsbankans gegna mikilvægu hlutverki í stuðningi bankans við samfélagið. Þau verkefni sem nú hljóta umhverfisstyrki eru öll metnaðarfull og bera vott um virðingu fyrir landinu og mikinn vilja til að horfa fram í tímann. Þetta fellur vel að markmiðum bankarekstrar sem byggir sömuleiðis á langtímahugsun."

Eftirtaldir hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans að þessu sinni:

500 þúsund króna styrkir:

 • Blái herinn - Hreinn ávinningur
  Blái herinn hlýtur styrk fyrir verkefnið ,,Hreinn ávinningur" sem nýta á til að kenna komandi kynslóðum að  ganga vel um náttúruna og stuðla að betri vitund um umhverfið.
 • Framkvæmdasjóður Skrúðs - Endurnýjun merkinga og upplýsingaskilta í Skrúði
  Framkvæmdasjóður Skrúðs hlýtur styrk til að endurnýja merkingar og upplýsingaskilti í Skrúði í Dýrafirði.
 • Móðir Jörð ehf - Ormurinn ævintýralegur göngustígur
  Móðir Jörð ehf. hlýtur styrk til að búa til Orminn, ævintýralegan göngustíg sem hlykkjast mun um skóg og skjólbelti í Vallanesi.
 • Norræna húsið - Náttúruskóli Vatnsmýrarinnar
  Norræna húsið hlýtur styrk til að opna Náttúruskóla Vatnsmýrarinnar en markmið hans er að stuðla  að auknum áhuga og þekkingu nemenda á náttúrunni.
 • Ómar Þ. Ragnarsson - Akstur í óbyggðum
  Ómar Þ. Ragnarsson hlýtur styrk til að gera myndefni um utanvegaakstur og áhrif þess á íslenska náttúru.
 • Vinir Skaftholtsrétta - Fornar fjárréttir
  Skaftholtsréttir í uppsveitum Árnessýslu hljóta styrk til uppbyggingar fornra fjárrétta.

250 þúsund króna styrkir:

 • Brimnesskógar - Endurheimt Brimnesskóga
  Brimnesskógar í Skagafirði hljóta styrk til að endurheimta hina fornu Brimnesskóga.
 • Ferðafélag Austur-Skaftfellinga - Gestabækur á gönguleiðir
  Ferðafélag Austur-Skaftfellinga hlýtur styrk til að setja upp skilti með upplýsingum um gönguleiðina „Fyrir Horn" og markverða staði á leiðinni, ásamt því að koma fyrir gestabókum.
 • Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri - Aðgengi og úrbætur á Víknaslóðum
  Ferðamálahópur Borgarfjaðar eystri hlýtur styrk til að bæta aðgengi og öryggi göngufólks á Víknaslóðum.
 • Genium ehf - Plöntulykill
  Genium ehf. hlýtur styrk til að vinna að forritinu ,,Plöntulykill" fyrir snjallsíma.
 • Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs - Sjálfbær þróun á Suðurnesjum
  Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs hlýtur styrk til að stuðla að sjálfbærri þróun á Suðurnesjum með því að nýta lífrænan úrgang til uppgræðslu á svæðinu.
 • Landvernd - Sjálfbær ferðamennska og náttúruvernd á jarðhitasvæðum
  Landvernd hlýtur styrk til að vinna myndskeið með fræðslu um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á jarðhitasvæðum.
 • Náttúrustofa Norðausturlands - Börn, náttúra og foreldrar í Vatnajökulsþjóðgarði
  Náttúrustofa Norðausturlands hlýtur styrk til að gefa út bók fyrir fjölskyldur sem  heimsækja Vatnajökulsþjóðgarð.
 • Safnahús Borgarfjarðar - Fuglar í náttúru Íslands
  Safnahús Borgarfjarðar hlýtur styrk vegna sýningar um fugla í náttúru Íslands í því skyni að auka þekkingu og vitund gesta um mikilvægi verndunar búsetusvæða fugla.

Samfélagssjóður Landsbankans veitir fimm tegundir styrkja á hverju ári: Afreksstyrki, námsstyrki, nýsköpunarstyrki, samfélagsstyrki, og umhverfisstyrki.

Í dómnefnd sátu: Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.
Landsbankinn óskar styrkhöfum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í framtíðinni.

Fjárfestatengsl - 19. nóvember 2020 17:59

Hættir í bankaráði Landsbankans

Á fundi bankaráðs Landsbankans í dag, 19. nóvember 2020, tilkynnti Hersir Sigurgeirsson að hann segði sig úr bankaráði Landsbankans. Hersir hefur ákveðið að taka að sér verkefni sem hann telur að fari ekki saman við setu í bankaráði Landsbankans.


Nánar

Fjárfestatengsl - 29. október 2020 16:40

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020

Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 4 milljörðum króna eftir skatta. Afkoma bankans var jákvæð um 699 milljónir króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2020.


Nánar

Fjárfestatengsl - 30. júlí 2020 15:59

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar