Fréttir og útgáfuefni

- Fréttir og tilkynningar

Hagnaður Landsbankans 27,2 milljarðar króna árið 2010

Afkoma NBI hf. (Landsbankans) var jákvæð um 27,2 milljarða króna eftir skatta á árinu 2010. Arðsemi eigin fjár var 17,3%. Til samanburðar nam hagnaður ársins 2009 14,3 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár þá 10,0%.

Sérstök gjaldfærsla er í reikningnum til að mæta dómum sem fallið hafa á árinu 2010 og snemma árs 2011 um lögmæti lánasamninga erlendra lána hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Hún nemur 18,1 milljarði króna.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 19,5% og hefur hækkað um 4,6% á árinu. Núverandi eiginfjárhlutfall er þó vel umfram það 16% lágmark eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.

Ársreikningur samstæðu 2010

Ársuppgjör 2010 - Upplýsingaefni 

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag í árslok 2010:

 • Arðsemi eigin fjár var 17,3%.
 • Hagnaður eftir skatta nam 27,2 milljörðum króna.
 • Skattar námu 8,2 milljörðum króna.
 • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 2,3%.
 • Eigið fé bankans var 185 milljarðar króna.
 • Eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) var 19,5% samanborið við 17,3% við lok þriðja ársfjórðungs og 14,9% í árslok 2009.
 • Heildareignir bankans námu 1,081 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir:

"Landsbankinn tók miklum breytingum á árinu 2010 og er enn að breytast. Ný stefna bankans sem samþykkt var síðastliðið haust setur fram metnaðarfulla framtíðarsýn. Í henni er lögð áhersla á úrvinnslu skuldavanda heimila og fyrirtækja og að bæta þjónustu bankans til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Við viljum tryggja ávinning af rekstri bankans bæði fyrir samfélag og eigendur og laða að honum úrvals starfsfólk. Markmiðið sem við vinnum eftir er skýrt; við viljum vera traustur samherji viðskiptavina í fjármálum og standa undir þeirri ábyrgð að vera Landsbankinn þinn."

Um stöðu bankans segir Steinþór: "Afkoman á árinu 2010 var góð og bankinn stendur sterkum fótum. Þrengingar og óvissa í efnahagsmálum er viðvarandi og því er mikilvægt að Landsbankinn búi yfir miklum styrk, þannig að hann geti veitt öfluga fjármálaþjónustu og verið það hreyfiafl í samfélaginu sem starfsmenn hans hafa einsett sér að hann verði."

Helstu þættir í rekstrarreikningi Landsbankans fyrir árið 2010

 • Afkoma af kjarnastarfsemi bankans er góð en stærsti liðurinn í hagnaðinum er vaxtamunur. Vaxtamunur er nú 2,3% af heildareignum. Vaxtamunurinn skýrist af því að ávöxtunarkrafa bankans á stóran hluta útlána sem keypt eru af LBI, er föst, óháð því hvernig innlánsvextir þróast.
 • Annar stærsti liðurinn í afkomu bankans er gengishagnaður. Hann verður að mestu til vegna innbyrðis gengishreyfinga erlendra mynta. Evra, dollar og pund hafa veikst gagnvart svissneskum franka og japönsku jeni og hefur það jákvæð áhrif í rekstrarreikningi bankans.
 • Hagnaður af hlutabréfastöðu bankans nam 7,3 milljörðum á árinu 2010.
 • Virðisaukning útlánasafns er 600 milljónir eftir að tekið hefur verið tilliti til gjaldfærslna vegna gengisdóma að fjárhæð 18,1 milljarðar króna og þess hlutar sem rennur til LBI.

Afkoma ársins 2010

Helstu breytingar milli áranna 2009 og 2010

Hagnaður ársins 2010 fyrir skatta er um 13 milljörðum króna meiri en árið á undan. Meginskýringar á þessum breytingum eru þessar:

 • Vaxtamunur hækkar frá fyrra ári um 10 milljarða.
 • Gengishagnaður er 17,6 milljörðum króna hærri árið 2010 en 2009.
 • Rekstrarkostnaður hefur hækkað um 1,6 milljarð á milli áranna 2009 og 2010
 • Virðisaukning útlána 2009 var 6,9 milljarðar en 2010 er hún 0,6 milljarðar króna þannig að lækkunin milli ára er 6,3 milljarða króna.
 • Skattar hækka um 7,6 milljarða.

Samanburður 2009-2010

Uppgjör við Landsbanka Íslands hf.(LBI)

Þann 16. desember 2009 sömdu Landsbankinn og LBI um uppgjör vegna mismunar á eignum og innlendum innistæðum sem færðar voru til Landsbankans. Uppgjörið fólst í því að Landsbankinn gaf út 260 milljarða skuldabréf í erlendum myntum til 10 ára. Bréfið er afborganalaust fyrstu fimm árin. LBI fékk einnig 18,7% hlut í bankanum.

Greiðsluferill skuldabréfsins er eftirfarandi:

Greiðsluflæði af skuldabréfi til LBI

Landsbankinn og LBI sömdu einnig um að ákveðin hluti að lánasafni bankans yrði sérmerkt (e. "ring fenced") og virðisaukning af þeim lánum myndi skipast 85%/15% milli LBI og Landsbankans. Virðismatið mun fara fram í lok árs 2012 og í framhaldinu mun bankinn gefa út 5 ára skuldabréf til LBI, að því gefnu að virðisaukning hafi orðið í lánasafninu. Viðbótarskuldabréfið getur að hámarki orðið 92 milljarðar.

Ef viðbótarskuldabréfið verður gefið út að fullu þá mun LBI skila Bankasýslu ríkisins öllum hlutabréfum sínum í Landsbankanum en annars í hlutfalli við fjárhæð skuldabréfsins sem út verður gefið. Ef lokaupphæð skuldabréfsins yrði t.d. 46 milljarðar, myndi LBI afhenda helming hlutabréfa sinna. Grafið fyrir neðan sýnir hvernig eignarhlutur LBI breytist til samræmis við stærð viðbótarskuldabréfsins.

Eignarhlutur LBI vs. stærð viðbótarskuldabréfs

Samkvæmt uppgjöri stendur viðbótarskuldabréfið í 26,5 milljörðum króna. Ef lokavirði bréfsins yrði eins og staðan er nú þá myndi LBI afhenda Bankasýslu ríkisins 5,4% hlut í bankanum og Bankasýsla ríkisins ætti þá 86,7% af hlutfé bankans. Ef miðað er við innra virði Landsbankans þá er virði 86,7% hlutar í dag um 160 milljarðar króna. Eignarhlutur ríkisins hefur því hækkað um 38 milljarða króna frá stofnun bankans. Á sama tíma var fjármagnskostnaður ríkisins af eiginfjárframlaginu sem bankanum var upphaflega lagt til, um 27 milljarðar króna. Virði eignarhlutar ríkisins hefur því hækkað um 11 milljarða króna umfram fjármögnunarkostnað.

Hér má sjá hvernig virðisaukning lánasafns Landsbankans skiptist á milli Landsbankans og LBI og hvernig hún gæti mögulega verið ef viðbótarskuldabréfið verður gefið út að fullu.

Virðisaukning "sérmerkts lánasafns"

Eins og sést þá er hlutur LBI í skilyrta skuldabréfinu nú þegar orðinn 27 milljarðar króna og að meðtöldu verðmæti hlutafjár í Landsbankanum er samanlagt framlag Landsbankans til LBI um 50 milljarðar króna.

Virðisaukning útlánasafns

Virðisaukning útlánsafns Landsbankans byggist á betri endurheimtum af lánum til fyrirtækja. Skýrist það af því að fyrirtæki standa betur undir endurgreiðslum lána en upphaflega var ráð fyrir gert, þegar lánin voru færð á milli Landsbankans og LBI hf. Virðislækkun bankans af lánasafni einstaklinga er hinsvegar rétt tæpir 6,5 milljarðar eftir gengisdóma sem jafngildir því að Landsbankinn hefur fært eða muni færa niður skuldir einstaklinga um sömu fjárhæð.

Virðisaukning útlána - heildaráhrif

Heildaráhrif Virðisbreyting
Virðisbreyting útlána eftir gengisdóm 16.910
Gangvirðisbreyting skuldabréfs -16.269
Virðisaukning útláns 641

Virðisaukning útlána eftir flokkum

Flokkur Virðisbreyting útlána Gengisdómur Virðisbreyting útlána eftir gengisdóm
Einstaklingar -1.755 -4.729 -6.484
Fyrirtæki 36.823 -13.429 23.394
35.068 -18.158 16.910

Rekstrarkostnaður, launa- og starfsmannamál

Rekstrarkostnaður Landsbankans jókst milli ára um tæplega 1,7 milljarð króna en launakostnaður bankans hefur hækkað um 10% frá árinu 2009.

Rekstrarkostnaður 2008-2010

  2008 (okt.-des.) 2009 2010 Breyting í % 2009-2010
Fjöldi stöðugilda í árslok 1.182 1.161 1.146 -1,3
Rekstrarkostnaður 7.271 16.854 18.896 10
Laun og launatengd gjöld 1.874 8.468 9.331 12,0

Laun helstu stjórnenda og stjórnar bankans:

Árið 2010 voru laun og hlunnindi núverandi bankastjóra rétt tæplega 1,1 milljón króna á mánuði. Laun og hlunnindi framkvæmdastjóra Landsbankans eru 1,5 milljón króna á mánuði. Þóknun bankaráðsmanna er þannig að formaður fær 500 þúsund krónur, varaformaður fær 400 þúsund og aðrir 300 þúsund krónur á mánuði.

Helstu kennitölur í rekstri

Kennitölur 31.12.2010 31.12.2009
Hreinar rekstrartekjur 50.849 30.725
Hagnaður eftir skatta 27.231 14.332
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 17,3% 10,0%
Arðsemi eigin fjár eftir skatta a.t.t. skilyrts skuldabréfs 25,7% 15,9%
CAD hlutfall 19,5% 14,9%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 2,3% 1,4%
Vaxtamunur + virðisbreytingar í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 2,4% 2,1%
Kostnaðarhlutfall 36,4% 54,9%
Kostnaðarhlutfall án gengismunar 51,1% 53,0%
Heildareignir 1.081.133 1.061.102
Útlán í hlutfalli við innlán viðskiptavina 159,6% 147,4%
Stöðugildi í árslok 1.146 1.161

Tengt efni

Ársreikningur samstæðu 2010 

Ársuppgjör 2010 - Upplýsingaefni 

Fjárfestatengsl - 07. maí 2020 16:48

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, samanborið við 6,8 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við virðisrýrnun upp á 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

Fjárfestatengsl - 24. apríl 2020 17:55

S&P lækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB með stöðugum horfum

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag um lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.


Nánar

Fjárfestatengsl - 22. apríl 2020 15:03

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2020

Aðalfundur Landsbankans var haldinn 22. apríl 2020 í höfuðstöðvum bankans í Austurstræti 11 í Reykjavík. Á fundinum flutti Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, skýrslu bankaráðs og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri, fjallaði um sterka stöðu bankans og góðan árangur á árinu 2019.


Nánar