Hollráð

Listakonurnar Rán Flyering og Linda Ólafsdóttir voru fengnar til að myndskreyta nokkur hollráð.

Hollráð Námunnar

Listakonurnar Rán Flyering og Linda Ólafsdóttir voru fengnar til að myndskreyta nokkur hollráð um hvernig við getum verið nýtin, sparsöm og jafnvel haft góð áhrif á umhverfið í leiðinni.Hollráð Námunnar #01

Krydd og grænmeti í eldhúsglugganum stuðla bæði að litríkari eldamennsku og heimilislegri hitabeltisstemningu.

Hollráð Námunnar #02

Það er bæði hagstætt og huggulegt að hella sjálfur uppá. Í það minnsta stundum.

Hollráð Námunnar #03

Sokkabuxur eiga það flestar sameiginlegt að verða götóttar. Þegar hart er í ári er þjóðráð að smeygja sér í samlita sokka innanundir – þannig má framlengja líftíma sokkabuxna um nokkrar vikur.

Hollráð Námunnar #04

Rómantískustu staðirnir fyrir stefnumót eru ekki þeir sem selja miða við innganginn.

Hollráð Námunnar #05

Margir eru nógu flinkir í höndunum til að gera sér sjálfir fallegar flíkur. Við hin getum þó líka sparað okkur krónur með einföldu garðaprjóni.

Hollráð Námunnar #06

Að ganga vel um skóna sína margborgar sig. Á læknastofum má næla sér í skóhlífar, alveg ókeypis. Í neyðartilfellum geta þær bjargað mörgum leðurskóm frá saltlegnu slabbi.

Hollráð Námunnar #07

Þjálfaðu ritfærnina með úthugsuðum innkaupalistum og æfðu svo hófsemina með því að halda þig við þá.

Hollráð Námunnar #08

Taupokar eru fallegir töfrahlutir, þeir hverfa ofan í vasa en það er endalaust pláss í þeim. Auk þess er ekkert vandræðalegra fyrir þig né náttúruna en að kaupa plastpoka í hvert skipti.

Hollráð Námunnar #09

Sælla er að gefa en þiggja. Þess vegna eru gjafmildi og gestrisni svo mikilvæg. Það skilar sér margfalt til baka.

Hollráð Námunnar #10

Gerðu þína eigin jólakveðju-útvarpsrás á internetinu og útvarpaðu kveðjum til allra sem þú kannt að meta.

Hollráð Námunnar #11

Hafragrautur er bæði meinhollur og hagkvæmur kostur. Ekki bara á morgnana með rúsínum og mjólk, heldur líka á kvöldin. Hver fær ekki vatn í munninn af tilhugsuninni um hafragraut með kjúklingi og kóríander?

Hollráð Námunnar #12

Nesti er gott, hollt og töff. Finndu þinn innri matreiðslumann og vertu tilefni öfundar hvar sem þú kemur í hádeginu.

Hollráð Námunnar #13

Úr krananum þínum kemur mjög góður svaladrykkur. Ískalt vatn!

Hollráð Námunnar #14

Í síðustu viku var ég blankur námsmaður á biluðum bíl. Í dag er ég efnaður stúdent á glænýju hjóli.

Hollráð Námunnar #15

Að vera í góðra vina hópi kostar ekki neitt.

Hollráð Námunnar #16

Tískan fer í hringi. Kíktu upp á háaloft eða inn í geymslu og mátaðu gömul föt af mömmu og pabba eða ömmu og afa. Kannski leynast flottari flíkur þar en úti í búð.

Hollráð Námunnar #17

Síminn og tölvurnar eru mikilvægar en það þarf ekki allt að vera nýjasta nýtt. Það er dyggð að fara vel með það sem maður á og eldri hlutir reynast oftar en ekki alveg jafnvel og þeir nýju.

Hollráð Námunnar #18

Andrésblöð og eldgömul tímarit af háaloftinu eru frábær gjafapappír. Gjöfin verður skemmtileg, umhverfisvæn og sérstök og pappírinn kostar ekki neitt.