Fagfjárfestar

Fagfjárfestaþjónusta

Landsbankinn býður fagfjárfestum þjónustu þar sem fjárfestingartækifæri eru vöktuð á skipulegum verðbréfamarkaði sem og utan skipulags verðbréfamarkaðar. Ráðgjöf við fjárfestingar er sérsniðin að þörfum viðskiptavinar. Heildstæð ráðgjöf varðandi val á fjárfestingarkostum, hvort sem er í verðbréfasjóðum eða við einstaka fjárfestingar.

Kostir fagfjárfestaþjónustu

Fylgst er með flæði markaða og skammtíma- og langtímahorfum. Regluleg upplýsingagjöf um markaði, verðmöt, útboð o.fl.

Sérhæfðar fjárfestingar

Aðgangur að sérhæfðum fjárfestingum í gegnum einkafjármagnssjóði (e. private equity). Náin samvinna við aðrar deildir Markaða Landsbankans vegna stöðutöku, gjaldeyrisviðskipta, afleiða og útboða á verðbréfamarkaði. Samvinna við innlend og erlend sjóðafyrirtæki.

Samstarf við erlenda banka og sjóðafyrirtæki

Í gegnum tengingar sínar við erlenda banka og sjóðafyrirtæki býður Landsbankinn úrval erlendra sjóða. Einnig býður Landsbankinn fjölbreytta eignastýringarþjónustu í samstarfi við erlenda aðila.

Allar upplýsingar um eignasafn á einum stað

Landsbankinn býður fagfjárfestum í viðskiptum við Landsbankann fjölbreytta skýrslugjöf um stöðu eignasafna og ávöxtun einstakra fjárfestinga. Öflugt eignastýringa- og upplýsingakerfi Landsbankans gerir til að mynda viðskiptavinum kleift að nálgast upplýsingar og skýrslur um heildareignir sínar, hvort sem þær eru í stýringu hjá Landsbankanum eða hjá öðrum, óski þeir eftir því.


Fagfjárfestir - skilyrði

Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Fagfjárfestar njóta minni verndar en almennir fjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Í því felst m.a. að ekki eru gerðar jafn ítarlegar kröfur til bankans um upplýsingagjöf til fagfjárfesta og til almennra fjárfesta og er bankanum heimilt að ganga út frá því að fagfjárfestar hafi þá reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til að skilja áhættuna sem felst í verðbréfaviðskiptum.

Sérsniðin þjónusta - þinn eigin viðskiptastjóri

Fjárfestingar- og eignastýringarþjónusta er sérsniðin að þörfum viðskiptavinar. Viðskiptastjóri sér um samskipti við viðskiptavin og aðstoðar við að finna réttar þjónustuleiðir innan bankans. Viðskiptastjóri veitir ráðgjöf við uppbyggingu eignasafns og mótar fjárfestingarstefnu í samráði við viðskiptavininn. Til að spara tíma sinnir viðskiptastjóri hversdagslegum málefnum er varða margvíslega þjónustuþætti fyrir hönd viðskiptavinar.

Almennir fjárfestar geta, með skriflegri umsókn, óskað eftir því á grundvelli 24. gr. laga um verðbréfaviðskipti að farið verði með þá sem fagfjárfesta og skulu þeir þá greina frá því í umsókninni hvort óskað sé eftir slíkri flokkun almennt eða vegna einstakra viðskipta eða tegundar viðskipta. Landsbankinn mun þá leggja mat á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðskiptavinarins og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felast. Til að Landsbankinn samþykki umsókn almenns fjárfestis um að farið verði með hann sem fagfjárfesti skal hann a.m.k. uppfylla tvö af eftirfarandi skilyrðum:

  • Hafa átt umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi.
  • Verðgildi verðbréfaeignar fjárfestis skal nema meira en 46,2 millj. kr. Fjárhæð þessi er grunnfjárhæð sem er bundin gengi evru (EUR) 3. janúar 2007 (92,37).
  • Fjárfestir skal gegna eða hafa gegnt í að minnsta kosti eitt ár stöðu á fjármálamarkaði sem krefst sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum.

Samþykki Landsbankinn umsókn almenns fjárfestis samkvæmt framangreindu þá afsalar viðskiptavinur sér þeim réttindum og þeirri vernd sem hann nýtur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti sem almennur fjárfestir. Fagfjárfestir ber ábyrgð á því að tilkynna Landsbankanum um breytingar sem geta haft áhrif á flokkun hans.

Hafðu samband við Fagfjárfestaþjónustu     
Nafn Starfsheiti Netfang
Ægir Örn Gunnarsson Deildarstjóri AEgir.O.Gunnarsson@landsbankinn.is
Teitur Páll Reynisson Viðskiptastjóri Teitur.P.Reynisson@landsbankinn.is
Valdimar Agnar Valdimarsson Viðskiptastjóri Valdimar.A.Valdimarsson@landsbankinn.is
Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir  Viðskiptastjóri Vigdis.S.Hrafnkelsdottir@landsbankinn.is