Fyrstu kaup

Það er stórt skref að kaupa íbúð

Kaup á íbúð er ein stærsta ákvörðun sem þú tekur í lífinu. Fasteignakaup hafa ekki aðeins áhrif á hvar þú festir rætur, heldur líka á eignamyndun í framtíðinni og hversu mikið þú hefur á milli handanna um hver mánaðarmót.

Við kaup færð þú full yfirráð yfir fasteigninni. Viðhald og viðgerðir eru á þína ábyrgð en þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að leigu sé sagt upp.

 

Allt að 85% lánshlutfall og ekkert lántökugjald við fyrstu kaup

Lánshlutfall íbúðalána Landsbankans er allt að 85% af kaupverði eignar, 70% íbúðalán til allt að 40 ára og 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Útborgun er sá hluti í íbúðinni sem þú eignast strax. Best er að hún sé sem hæst. Eftir því sem útborgunin er hærri, því lægri lán þarftu að taka.

Lántakendur sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign og taka íbúðalán hjá bankanum fá fellt niður lántökugjaldið sem er 52.500 kr. við hverja lántöku.

 


 

Áður en þú byrjar að skoða íbúðir þarftu að vita hvað íbúðin má kosta. Stærstu áhrifaþættirnir eru upphæðin sem þú átt í útborgun og hverjar ráðstöfunartekjurnar eru á mánuði. Almennt gildir að útborgun þarf að vera a.m.k. 15% af kaupverði íbúðarinnar. Bráðabirðagreiðslumat er gagnlegt til að sjá hvað þú getur greitt af lánum í hverjum mánuði. Með því að setja upp dæmið í íbúðalánareiknivél getur þú fengið nokkuð góða hugmynd um hvernig dæmið gæti litið út. Verðið á ekki endilega að miðast við það hvað þú getur greitt af íbúðinni samkvæmt greiðslumati, heldur frekar hvað þú ert reiðubúin/n að greiða fyrir íbúð, hversu lengi þú vilt vera að greiða lánin upp og hversu mikið þú vilt hafa á milli handanna eftir að allir reikningar hafa verið greiddir í hverjum mánuði.

Íbúðalánareiknivél

Þegar þú leitar að íbúð er margt sem þarf að hafa í huga. Það borgar sig að taka sem flesta þætti með í reikninginn; plássið sem þú þarft, fjarlægð frá vinnu og skóla og hvort íbúðin henti framtíðaráætlunum. Þegar þú skoðar íbúð er líka margt sem þú þarft að gæta að, t.d. viðhaldsþörf, saga og ástand. Seljanda er skylt að upplýsa um mikilvæg atriði eins og viðhaldsþörf eða deilumál en kaupanda ber líka rík skylda til að kynna sér eignina vel. Oft getur verið ráðlegt að fá fagaðila í fasteignamálum/skoðunum til að skoða eignina með þér.

Áður en þú gerir tilboð er mikilvægt að þú farir vel yfir söluyfirlit eignarinnar. Mjög mikilvægt er að fá upplýsingar um fyrirsjáanlegt viðhald, sögu hússins og ástand þess . Fasteignasali útbýr yfirlitið og tryggir að í því séu réttar og nægar upplýsingar. Ef upplýsingar vantar er sjálfsagt að kalla eftir þeim.

Í söluyfirliti á m.a. að koma fram:

 • Söluverð.
 • Staðsetning, stærð, fasteignanúmer, byggingarár.
 • Fasteignamat, lóðamat og brunabótamat.
 • Veðskuldir, kvaðir og önnur eignahöft.
 • Kostnaður kaupanda við kaup.
 • Eignaskiptayfirlýsing.
 • Yfirlýsing húsfélags.

Þegar rétta íbúðin er fundin er komið að því að gera kauptilboð. Kauptilboð eru bindandi og þess vegna er mikilvægt að allar forsendur séu til staðar og þú sért fullviss um að vilja eignast íbúðina. Fasteignasalinn sem sér um sölu eignarinnar aðstoðar við tilboðsgerðina. Kauptilboð gilda yfirleitt í stuttan tíma, t.d. sólarhring, ekki er óalgengt að seljendur geri gagntilboð en þá er gefinn nýr frestur.

Í kauptilboði eru þessi atriði m.a. tilgreind:

 • Kaupverð.
 • Afhendingardagur.
 • Með hvaða hætti greiðslur eru inntar af hendi.
 • Upphæð útborgunar.
 • Upphæð láns sem tekið er.
 • Fyrirvarar, t.d. um fjármögnun, yfirlýsingu húsfélags eða önnur vafaatriði.

Það eru margar gerðir íbúðalána í boði. Þegar þú velur hvernig íbúðalán þú vilt taka þarftu að hafa í huga hversu mikið þú getur greitt af lánum, á hve löngum tíma þú hyggst greiða lánið upp, hversu hröð þú vilt að eignamyndun sé og hvort þú viljir heldur verðtryggð eða óverðtryggð lán.

 • Hér finnur þú helstu upplýsingar um fjölbreyttar leiðir í fjármögnun fasteigna.
 • Íbúðalánareiknivél Landsbankans getur verið mjög gagnleg til að bera saman ólík lán.
Íbúðalánareiknivél

Þegar kauptilboði hefur verið tekið þarftu að fara í formlegt greiðslumat. Greiðslumat er lögboðið og segir til hversu mikið þú getur greitt af lánum.

Það tekur augnablik að fara í greiðslumat og sjá þannig hve mikið svigrúm þú hefur til að greiða af húsnæðislánum. Greiðslumatið er framkvæmt með rafrænum skilríkjum og tekur tillit til útgjalda, reksturs bifreiðar, annarra lána, séu þau til staðar.

Hefja greiðslumat

Þegar búið er að samþykkja greiðslumat og lánveitingu er komið að því að fara í kaupsamning. Í kaupsamning sem er endanlegur samningur á milli kaupenda og seljanda koma fram öll helstu samningsatriði og endanlegt kaupverð. Mikilvægt er að fara vandlega yfir kaupsamning með fasteignasala og fá útskýringar ef eitthvað er óljóst áður en samningurinn er undirritaður því oft verða breytingar frá samþykktu kauptilboði. Við kaupsamning fer gjarnan fram fyrsta greiðsla, en tilgreint er í kaupsamning hvernig greiðslum skal háttað og hvenær afhending eignar og afsal fer fram.

Við kaupsamning eru ákveðnar dagsetningar þar sem afhending eignarinnar og svo afsal fara fram. Við afhendingu eignar skaltu strax ganga úr skugga um að allt sé eins og samið var um og hafa samband við fasteignasala ef svo er ekki eða ef gallar kunna að vera á fasteigninni. Afsalið er lokauppgjör kaupanna og tíðkast að það sé nokkru eftir afhendingu oft er miðað við þrjá mánuði frá því að afhending fór fram. Við afsal er greidd lokagreiðsla en einnig fer fram kostnaðaruppgjör þar sem kostnaður sem fallið hefur á seljanda frá afhendingu fram að afsali er gerður upp. Seljandi greiðir rekstrarkostnað, fasteignagjöld og annan kostnað fram að afhendingu en kaupandi frá þeim degi eða eins og fram kemur í kaupsamningi. Þegar uppgjörinu er lokið og lokagreiðsla samkvæmt kaupsamning hefur farið fram er svo gefið út afsal.

Tryggingar eru mikilvægur þáttur í því að vera viðbúin óvæntum áföllum. Aðeins brunatrygging er lögboðin skyldutrygging en það borgar sig að skoða vel þá valkosti sem í boði eru því tjón á fasteign getur orðið verulega kostnaðarsamt.Tryggingafélögin bjóða flest áþekkar tryggingar en nokkur munur getur verið á iðgjöldum og hvað nákvæmlega er innifalið í tryggingunni.

Nokkrar tegundir trygginga fylgja gjarnan fasteign og bæta ólík tjón:

 • Brunatrygging er skylda og tryggir húsnæðið gegn bruna. Upphæð brunatryggingar miðast við brunabótamat fasteignarinnar.
 • Viðbótarbrunatrygging getur verið góður kostur ef brunabótamat, t.d. eldri húsa, þykir ekki endurspegla kostnað við endurbyggingu.
 • Húseigendatrygging er valkvæð trygging sem bætir tjón á sjálfri húseigninni, t.d. vegna vatnsleka, innbrota eða tjóns á innréttingum.
 • Íbúðalánavernd er sérstök líftrygging sem Landsbankinn býður í samstarfi við Sjóvá og greiðist inn á íbúðalán og lækkar þar með höfustól og greiðslubyrði ef lántaki fellur frá. Sjá nánar um íbúðalánavernd.

Eftir íbúðakaup berð þú ábyrgð á ýmsum föstum kostnaði, greiðslum af lánum, hússjóðsgjöldum, fasteignagjöldum og kostnaði vegna trygginga, vatns og rafmagns svo nokkuð sé nefnt. Það borgar sig að hafa góða yfirsýn yfir fjármálin og útgjöldin.

 


Greiðslumat segir til um hve mikið þú getur greitt af íbúð

Tilgangurinn með greiðslumati er að sjá hversu mikið svigrúm þú hefur til að greiða af húsnæðislánum eftir að tekið hefur verið tillit til annarra útgjalda, s.s. vegna matarkaupa, reksturs bifreiðar, annarra lána og þess háttar.

 

Gott er að hafa í huga að það er ekki endilega rétt að nýta svigrúmið sem greiðslumatið gefur til fulls. Þú vilt geta leyft þér fleira en að kaupa mat og borga af lánum.

Greiðslumat

 

Hvaða möguleikar eru í boði?

Viðskiptavinum standa til boða ýmsar leiðir við fjármögnun fasteignakaupa. Íbúðalán Landsbankans eru í boði óverðtryggð með föstum eða breytilegum vöxtum og verðtryggð með föstum eða breytilegum vöxtum. Í boði er einnig að taka íbúðalán þar sem hluti er verðtryggður og hluti óverðtryggður.


 

Lánstími hefur áhrif á greiðslur og endanlegan kostnað

Þegar þú tekur lán greiðir þú alltaf vexti af eftirstöðvum skuldanna. Ef þú dreifir skuldunum yfir langt tímabil verður greiðslubyrðin lægri, en þú greiðir vexti allan þann tíma. 

Eftir því sem lánstíminn er styttri, greiðir þú lánið hraðar niður og greiðir vexti í styttri tíma. Styttri lán eru því ódýrari þótt greiðslubyrðin sé hærri.


 

Sparaðu fyrir útborgun

Sparnaður leggur grunninn að fyrstu fasteignakaupunum. Nú gefst þeim sem vilja eignast sína fyrstu fasteign tækifæri til að nýta greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað sem útborgun við íbúðarkaup.Greiðslurnar eru skattfrjálsar og við bætist mótframlag frá vinnuveitanda.

Því eru viðbótarlífeyrisgreiðslur samhliða reglubundnum sparnaði ein fljótlegasta leiðin sem í boði er til að safna fyrir útborgun.

Nánar um sparað fyrir útborgun