Skilmálar MasterCard

Viðskiptaskilmálar MasterCard kreditkorta Landsbankans

1. Skilgreiningar, umsókn, kortaútgáfa, gildistími

1.1. Eftirfarandi hugtök í skilmálum þessum eru skilgreind á þennan hátt:

1.1.1. Reikningshafi er sá sem gert hefur samning um stofnun MasterCard kortareiknings.

1.1.2. Korthafi er reikningshafi eða annar sá sem reikningshafi heimilar að hafi kort sem gefið er út á MasterCard kortareikning hans.

1.1.3. Útgefandi er NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, 155 Reykavík (hér eftir nefndur Landsbankinn eða útgefandi).

1.2. Útgefandi áskilur sér allan rétt til að leita allra upplýsinga um getu umsækjanda og fjárhag, sem nauðsynlegar eru að mati útgefanda til að afgreiða umsókn. Útgefanda er heimilt að fela fjármálafyrirtæki sem hann velur, að yfirfara umsókn og leita áðurnefndra upplýsinga. Áskilinn er réttur til að synja umsóknum án skýringa.

1.3. MasterCard kortið er gefið út almennt til fjögurra ára í senn og stofnast þá kortareikningur.  Standi korthafi við skuldbindingar sínar er kort hans endurnýjað, án umsóknar, en gegn árgjaldi.  Árgjald er fært fyrirfram á kortareikning, skv. gjaldskrá, fyrir 12 mánuði í senn.  Hægt er að semja um útgáfu fleiri en eins MasterCard korts á kortareikning reikningshafa, enda liggi fyrir samþykki reikningshafa.  Öll MasterCard kort eru með mynd af korthafa.  Korthafi þarf að leggja fram mynd sem varðveitt er í gagnagrunni Reiknistofu bankanna (RB) sé mynd ekki þar til staðar.

1.4. MasterCard kortið er eign útgefanda og má hann innkalla það án fyrirvara, komi til misnotkunar eða vanskila hjá reikningshafa eða korthafa. Korthafa ber að afhenda innkallað kort í afgreiðslu útgefanda eða til þess banka eða sparisjóðs er útgefandi hefur vísað til.  Afhendi korthafi ekki innkallað MasterCard kort með áðurgreindum hætti getur útgefandi sent sérstakan vörslusviptingarmann til að sækja kortið.

2. Úttektartímabil

2.1. Úttektartímabil geta verið tvö og velur korthafi í upphafi hvort tímabilið hann vill nota.  Tímabil (01) hefst 22. dag hvers mánaðar og lýkur 21. dag næsta mánaðar.  Tímabil (02) hefst fyrsta dag hvers mánaðar og lýkur síðasta dag sama mánaðar.

2.2. Borgun hf., og/eða samstarfsaðilar þess erlendis, geta með samningum við samtök seljenda heimilað frávik frá ofangreindum úttektartímabilum án sérstakra tilkynninga.

3. Notkun kortsins / greiðsluþjónusta

3.1. Korthafi skal rita nafn sitt á kortið við móttöku og hefur einn heimild til notkunar þess.

3.2. Með notkun kortsins samþykkir reikningshafi og/eða korthafi að hlíta kortaskilmálum.

3.3. Kortið veitir rétt til úttektar vöru og þjónustu hjá seljendum MasterCard um allan heim.

3.4. Útgefandi ber ekki ábyrgð á því ef móttöku korts er synjað sem greiðslu hjá seljanda, né því tjóni sem leitt getur af því.  Með sama hætti ber útgefandi ekki ábyrgð á því ef reiðufé fæst ekki tekið út á MasterCard kortið hvort sem er í hraðbönkum eða annars staðar.

3.5. Reikningshafi skuldbindur sig til að greiða að fullu allar úttektir af kortareikningi sínum með kortum sem löglega hafa verið gefin út á reikninginn. Skuldbindingin tekur til allra úttekta samkvæmt úttektarseðlum sem korthafi hefur undirritað, sem og úttekta sem hann hefur heimilað við símapöntun, með rafrænum samskiptum eða á annan hátt samþykkt til færslu á kortareikninginn.

3.6. Aukakorthafi á einstaklingskorti ber ábyrgð á greiðslu úttekta sinna á kortareikningnum óskipt með reikningshafa.

3.7. Þegar um er að ræða fyrirtækjakort eða innkaupakort ber sérhver korthafi persónulega ábyrgð á öllum úttektum á kort, sem gefið er út á hans nafn, óskipt með reikningshafanum í eftirfarandi tilvikum:

3.7.1. Geti útgefandi sannað að korthafi hafi á þeim tíma er úttektin var gerð, vitað eða mátt vita að reikningshafi gæti ekki staðið við fjárskuldbindingar sem fólust í úttekt.

3.7.2. Þegar korthafi er eigandi, forsvarsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækisins (reikningshafa).

3.7.3. Þegar kort er notað til úttekta á reiðufé eða kaupa á ferðatékkum.

3.7.4. Þegar kort er notað í persónulega þágu korthafans, þ.e.a.s. þegar vara, eða þjónusta, sem greitt er fyrir með kortinu er ekki í þágu hagsmuna reikningshafans.

3.8. Úttektir erlendis eru umreiknaðar í íslenskar krónur á þeim degi er færsla er send inn í kortakerfi útgefanda.  Stuðst er við skráð gengi úttektarmyntar hjá Borgun hf. á innsendingardegi færslu. 

3.9. Unnt er að taka reiðufé út á MasterCard kortið en í takmörkuðum mæli þó.  Ofan á slíkar úttektir í bönkum og hraðbönkum innanlands og utan leggst við kostnaður og úttektargjald samkvæmt gjaldskrá.

3.10. Þegar reiðufé er tekið út á kortið í hraðbönkum skal í stað undirskriftar nota sérstakt einstaklingsbundið auðkennisnúmer, svokallað PIN-númer, sem korthafi fær afhent með korti sínu.  Þetta er leyninúmer sem korthafi má ekki láta aðra hafa né heldur geyma með korti sínu.  Korthafi er ábyrgur fyrir öllum úttektum sem gerðar eru með PIN-númeri, nema þegar ákvæði 12.6 á við.

3.11. Heimilt er að semja svo um að reglubundin útgjöld reikningshafa og/eða korthafa, hjá innlendum seljendum séu færð á útgefin kort.  Beiðnir reikningshafa/korthafa um skuldfærslur skulu jafnan vera skriflegar og skal beiðni einstakra korthafa vera nægileg.  Verði vanskil á kortareikningi reikningshafa er útgefanda heimilt að stöðva allar greiðslur samkvæmt slíkum samningi án fyrirvara.

4. Stofngjald / árgjald

4.1. Við útgáfu kortsins í fyrsta sinn greiðir korthafi stofngjald auk árgjalds. Korthafi heimilar útgefanda að skuldfæra kortareikning sinn fyrir árgjaldi eins og það er ákveðið hverju sinni.  Fyrir aðra þjónustu greiðir reikningshafi og/eða korthafi eftir notkun samkvæmt gjaldskrá útgefanda.

4.2. Útskriftargjald er innheimt fyrir hvern útsendan gíróseðil/reikning.

5. Plúskort

5.1. MasterCard Plús eru fyrirframgreidd kort og eru því frábrugðin öðrum kreditkortum að því leyti, að notuð er fyrirframgreiðsla til að standa straum af úttektum korthafa.  Ekki er heimilt og að jafnaði unnt að stofna til skuldar með notkun MasterCard Plús, en slíkt getur þó gerst ef bilun verður í afgreiðslutækjum, símalínum, tölvum eða samskiptabúnaði, innanlands sem erlendis.  Slíkar skuldbindingar gjaldfalla hinn 2. dag næsta mánaðar eftir að úttektartímabili lýkur og er sá dagur jafnframt eindagi.

5.2. Þegar MasterCard Plús er lokað fær korthafi ónýtta inneign greidda næsta virka dag eftir að kort hefur verið afhent útgefanda.  Í þeim tilvikum að korthafi hefur gert úttektarfærslur erlendis á undangengnu 30 daga tímabili, eða reynt úttektir umfram innborganir sínar, áskilur útgefandi sér rétt til að halda inneign sem tryggingu í 30 daga fyrir greiðslu færslna sem mögulega hafa verið gerðar með kortinu, en seljendur hafa ekki enn sent inn úr afgreiðslutækjum sínum.  Í þeim tilvikum skal útgefandi greiða korthafa vexti frá lokunardegi korts til greiðsludags sem jafnir eru hæstu innlánsvöxtum auglýstum af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

6. Greiðslur

6.1. Eindagi greiðslna tímabils 02 er annar dagur næsta mánaðar eftir að úttektartímabili lýkur en færist til næsta opnunardags banka ef annar dagur mánaðar er frídagur.  Eindagi greiðslna tímabils 01 er sautjándi dagur næsta mánaðar á eftir úttektarmánuði en færist til næsta opnunardags banka ef sautjándi dagur mánaðar er frídagur.

6.2. Hafi greiðsla ekki borist á réttum eindaga, leggst vanskilagjald skv. gjaldskrá á skuldina og vanskilavextir, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, frá eindaga til greiðsludags.  Áskilinn er réttur til að stöðva allar greiðslur af kortareikningi, hvort heldur sem er vegna nýrra úttekta eða umsaminna greiðslna, verði greiðslufall á einhverjum hluta gjaldkræfrar skuldar á kortareikningi reikningshafa samkvæmt bókum útgefanda.

6.3. Útgefandi áskilur sér rétt til að fela innheimtufyrirtæki eða lögmanni innheimtu á vanskilum ásamt öllum áföllnum og áfallandi kostnaði, komi til vanskila á kortareikningi reikningshafa.

6.4. Ef kort-/reikningshafi hefur athugasemdir við útsent reikningsyfirlit sitt, skal hann tilkynna það útgefanda eða Borgun  hf. eigi síðar en 90 dögum eftir eindaga. 

6.5. Í þeim tilvikum er seljandi hefur ekki innt af hendi þá vöru eða þjónustu er korthafi greiddi fyrir með kortinu getur korthafi skilað skriflegri kvörtun til útgefanda allt að 90 dögum eftir að afhending átti að eiga sér stað. Telji útgefandi að afhending hafi sannanlega ekki átt sér stað endurgreiðir útgefandi korthafa andvirði hins selda. Útgefandi endurgreiðir þó aldrei úttektir hafi óviðráðanlegar ytri aðstæður, sem falla undir venjulegar reglur kaupréttar undir force major, hamlað afhendingu.

7. Úttektarheimild

7.1. Reikningshafi ábyrgist að ekki verði tekið út á einstök MasterCard kort umfram útgefnar heimildir og að heildarúttektir á kortareikning hans verði ekki umfram það sem samið hefur verið um.

7.2. Korthafi skuldbindur sig til að taka ekki út á MasterCard kortið fyrir hærri fjárhæð en sem nemur úttektarheimild.

8. Tryggingar

8.1. Reikningshafi og/eða korthafi skal leggja fram þær tryggingar fyrir úttektum sem útgefandi metur fullnægjandi.

9. Uppsögn / innköllun

9.1. Vilji reikningshafi og/eða korthafi segja upp viðskiptum sínum skal það gert skriflega, a.m.k. einum mánuði fyrir lok gildistíma kortsins.  Berist uppsögn síðar skal korthafi greiða gjald vegna útgáfu nýs korts.  Áfallið árgjald, eða hluti þess, fellur ekki niður þrátt fyrir uppsögn.  Stofngjald kortsins er óendurkræft.

9.2. Útgefandi getur hvenær sem er sagt upp viðskiptum við reikningshafa og/eða einstaka korthafa og innkallað útgefin kort.

9.3. Innkalli útgefandi MasterCard kortið, skal korthafi tafarlaust klippa kortið og senda til útgefanda.  Aldrei má taka út á kort sem innkallað hefur verið af útgefanda.  Seljandi hefur fulla heimild til að klippa og/ eða taka í sína vörslu innkallað MasterCard kort.

10. Glatað MasterCard kort

10.1. Ef MasterCard kort glatast skal korthafi tafarlaust tilkynna það útgefanda eða Borgun hf.  Sé tilkynnt símleiðis um glatað kort skal staðfesta slíka tilkynningu skriflega innan viku á eyðublaði sem liggur frammi á öllum afgreiðslustöðum útgefanda.  Eftir það getur korthafi fengið nýtt kort gegn greiðslu endurútgáfugjalds.

10.2. Korthafi skal, þar til tilkynning hans berst útgefanda/Borgun hf., bera það tjón sem hann hefur orðið fyrir, vegna taps, þjófnaðar eða fölsunar á kortinu, en þó ekki meira en sem nemur 150 evrum í hverju tjónstilviki, nema ef um stórfellt gáleysi eða svik hans hafi verið að ræða.

10.3. Óheimilt er að nota MasterCard kort eftir að það hefur verið tilkynnt glatað.  Finnist kort, sem tilkynnt hefur verið glatað, skal senda það sundurklippt til útgefanda.

11. Persónuvernd

11.1. Útgefandi skráir í tölvukerfi Borgunar hf. upplýsingar um korthafa, aukakorthafa og ábyrgðarmenn. Upplýsingar sem hér um ræðir eru m.a. kennitala, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem aðilar hafa veitt útgefanda með útfyllingu eyðublaða og forma útgefanda. 

11.2. Tölvukerfi útgefanda er tengt tölvukerfi Borgunar hf.  Allar upplýsingar um kortareikninga og notkun korta eru vistaðar í tölvukerfi MasterCard - Kreditkorts hf. Borgunar hf. og er útgefanda veittur aðgangur að þeim þar.  Ópersónugreindar upplýsingar um færslur á korti korthafa eru sendar MasterCard Worldwide, þ.e. upplýsingar um kortnúmer, hvernær færsla er gerð, fjárhæð færslu og hver er starfsemi seljanda.  

11.3. Vinnsla og geymsla upplýsinga skal vera í samræmi við það sem nauðsynlegt er til starfrækslu greiðslumiðlunar.  Útgefandi og Borgun hf. skulu auk þess gæta þess að vinnsla og vistun persónuupplýsinga sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglur.

11.4. Ábyrgðaraðili vinnslu er Borgun hf.

12. Ýmsir skilmálar

12.1. Reikningshafi og/eða korthafi skulu tafarlaust tilkynna útgefanda verði breyting á heimilisfangi hans/þeirra.

12.2. Útgefandi og/eða Borgun hf. tekur ekki ábyrgð á gallaðri vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með MasterCard korti, né heldur á nokkrum öðrum vanefndum seljanda vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með MasterCard korti.  Kvörtunum út af slíku skal korthafi beina til viðkomandi seljanda.

12.3. Sé reikningshafi lögaðili eða sjálfstætt starfandi rekstraraðili áskilur útgefandi sér rétt til að kalla eftir ársreikningum hvenær sem er á samningstímanum, sem og þegar mat er lagt á umsókn um kort.

12.4. MasterCard kortum, öðrum en innkaupakortum, fylgja ferðatryggingar. Tryggingaskilmála, eins og þeir eru á hverjum tíma, má nálgast á heimasíðu útgefanda.  

12.5. Upplýsingar um þau hlunnindi er tengjast mismunandi tegundum MasterCard korta má finna á heimasíðu útgefanda korts.

12.6. Telji korthafi og/eða reikningshafi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðru sjálfsafgreiðslutæki, hvílir sönnunarbyrðin á útgefanda að sýna fram á að viðskiptin hafi verið rétt skráð og réttilega færð inn á reikninga og að tæknibilun eða aðrir hnökrar hafi ekki valdið rangri skráningu sem leitt hafi til tjóns.  Ábyrgð útgefanda tekur ekki til tjóns sem kann að leiða af því að umbeðin fjárhæð, vara eða þjónusta, fæst ekki afhent.

12.7. Borgun hf. mun annast neyðarþjónustu fyrir útgefanda, utan afgreiðslutíma útgefanda.

12.8. Útgefandi áskilur sér rétt til breytinga á viðskiptaskilmálum þessum.  Breytingar á skilmálunum skulu kynntar hverjum og einum korthafa eigi síðar en 15 dögum áður en breyttir skilmálar taka gildi.  Í tilkynningu um breytta skilmála skal vakin athygli á því í hverju breytingarnar felast og á rétti reikningshafa og korthafa til að hætta viðskiptum.  Sé MasterCard kort notað eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi, teljast reikningshafi og korthafi samþykkir breytingunni.  Útsending nýrra viðskiptaskilmála í almennum pósti telst nægileg tilkynning samkvæmt framansögðu.

13. Ágreiningur

13.1. Mál sem rísa út af broti á viðskiptaskilmálum þessum, svo og innheimtumál vegna úttekta með MasterCard korti er heimilt að reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Reykjavík 18. febrúar 2011